31.05.1933
Neðri deild: 88. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2315 í B-deild Alþingistíðinda. (3694)

173. mál, óréttmæta verslunarhætti

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Mér þykir það leitt, að hv. þm. Ísaf. skuli ekki skilja það, að þessu er þannig stillt í hóf, að álagningin verði hæfileg, svo að smásalar geti við unað. Framleiðanda er óhagnaður að því til lengdar, að verð vörunnar sé svo lágt, að verzlunarmenn missi áhuga fyrir að verzla með hana. Það er verið með þessu ákvæði 15. gr. að koma í veg fyrir, að álagning verði hærri en þetta. Þegar hún er orðin meiri, kemur ekki gagnvart þeim viðskiptum til greina vernd sú, er frv. ákveður.

Sá, sem selur kaupmönnum hér í Reykjavík framleiðsluvörur sínar, t. d. mjólk, egg, smjör o. fl., hann stendur varnarlaus gegn því, hvernig kaupmenn selja vörurnar, eins og nú er. Þetta er ekki svo í öllum löndum. Þegar verksmiðja hefir sett ákveðið verð á hlut, sem hún framleiðir, þá hefir kaupmaður ekki leyfi til að undirselja hann. En hvernig heldur hv. þm. Ísaf., að sá, sem framleiðir vöru, sjái sér hag í að halda verði hennar svo hátt, að ekki standist samkeppni? Sá, sem gerir það að lífsstarfi sínu að framleiða einhverja vörutegund, hann veit, að hagur hans verður bezt tryggður með því, að hann ákveði útsöluverðið þannig, að kaupendur fáist að vörunni og milliliðir fáist til að selja hana. Þegar kemur út fyrir þau takmörk, lendir skaðinn á framleiðanda sjálfum.