12.04.1933
Efri deild: 49. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2328 í B-deild Alþingistíðinda. (3708)

93. mál, ábúðarlög

Jón Baldvinsson:

Ég skal ekki neita því, að nokkrar bætur felist í frv., miðað við þá ábúðarlöggjöf, sem nú er. En yrði undinn bráður bugur að því að gera jarðirnar að ríkiseign — og ég hefi ástæðu til að ætla, að svo verði —, er víst, að þessum lögum þyrfti að breyta. Ég hélt því aldrei fram, að Framsfl. hefði samþ. mína till., en ef flokksþingið hefir samþ. till., sem gengur í sömu átt, eins og ég hefi góðar heimildir fyrir, þykist ég vita, að hv. 3. landsk. sé svo góður flokksmaður, að hann gangi ekki á móti sínum eigin flokki um kjarna málsins. Ég skal að vísu játa, að ég hefi heyrt, að hv. 3. landsk. og annar til hafi verið þeir einu, er atkv. greiddu gegn samþykkt flokksins í þessu máli, en auðvitað veit ég, að hv. þm. beygir sig fyrir flokksviljanum.

Ég ætla nú ekki að fara að ergja hv. 3. landsk. að þessu sinni, því að ég get vel skilið, að hann sé ekki fullkomlega búinn að átta sig, og þykir líklegt, að líða þurfi hjá hátíðum þangað til hann sættir sig við að fylgja samþykkt flokksins, nema hann kjósi þá heldur að snúa sér að öðrum flokki, sem hann á kannske öllu meiri samleið með.