22.04.1933
Neðri deild: 54. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2334 í B-deild Alþingistíðinda. (3724)

93. mál, ábúðarlög

Atvmrh. (Þorsteinn Briem):

Ég sé það af þingtíðindum fyrri ára, að ekki hefir blásið hlýlega í garð þessa frv. frá hv. 1. þm. S.-M., sem seinast talaði. Mig undrar það því ekki svo mjög, þó hann sé dálítið andvígur frv. nú, en þó hygg ég, að frá hans sjónarmiði hafi hann nokkru minni ástæðu til að andmæla frv. í þeirri mynd, sem það hefir nú, heldur en eins og það hefir verið flutt á fyrri þingum.

Út í þau einstöku atriði, sem hv. þm. talaði um, mun ég lítið fara á þessu stigi málsins. Það er ávallt gott til athugunar fyrir n., að bent sé á einstök atriði, sem e. t. v. mættu betur fara á annan veg. T. d. eins og það, ef í frv. vantaði viðurlög við því, ef væntanlegur leiguliði tekur við byggingarbréfi, en brigðar síðan samningi. En hér þarf þó ekki vandlegrar athugunar við, því að ákvæði í þessa átt eru í frv., þótt hv. þm. hafi sézt yfir þau.

Hv. þm. komst sterkast að orði og kvað frv. koma í bága við 63. gr. stjskr. En það munu fleiri mæla en ég, að þar muni hann nokkuð hafa ofmælt. Okkar þjóðskipulag er nú orðið þannig, að það heimtar eftirlit hins opinbera með ýmsum hlutum, þó eignarréttur einstaklinga sé að öðru leyti óskertur. Ég skal minna hv. þm., sem er þm. fyrir kjördæmi, sem stundar að nokkru leyti sjávarútveg, á það, að ekki líta menn svo á, að eignarrétturinn sé tekinn af þeim, sem skip eiga, þó ströng ákvæði gildi um skipaskoðun og eftirlit með skipum og um sjóveð, sem hvílir jafnt á skipinu, þótt eigandi leigi öðrum. Ég lít svo á, að þeir menn, sem hafa eignarrétt á skipum, séu ekki síður háðir ströngum ákvæðum, þar sem um skipaskoðunina er að ræða. Þeim mönnum eru lagðar á herðar ríkar skyldur um að fullnægja þeim ákvæðum, sem þar að lúta, og þó eru þeir menn sjálfir oft skipstjórar og stýrimenn á skipum sínum og eiga þar af leiðandi sjálfir mest á hættu. En í þessu tilfelli eiga landsdrottnarnir ekkert á hættu sjálfir, heldur eru það aðrir menn. Það sýnist því ekki ósanngjarnt, að þjóðfélagið leggi hönd að því að tryggja réttláta aðstöðu þeirra manna, sem landsdrottnar geta látið sæta afarkostum.

Allir vita, að ef skipseigandi leigir öðrum skip sitt til fiskveiða, og leigutaki greiðir ekki skipshöfninni kaup sitt, þá verður skipseigandinn að svara til þess, ef hann á ekki að missa af skipinu. Hér er um ströng ákvæði að ræða, en þau hafa ekki verið talin koma í bág við 63. gr. stjórnarskrárinnar. Og það er því síður ástæða til að telja þetta frv. brjóta í bág við ákvæði stjskr.

Ég sé ekki ástæðu til að þreyta hv. þd. með löngum umr. að þessu sinni, heldur vildi ég aðeins benda á, að hv. 1. þm. S.-M. hefir hér nokkuð ofmælt. Ég vænti, að við athugun á frv. komi það í ljós, að þetta frv. gengur ekki eins nærri eignarrétti landsdrottna og það frv. um þessi mál, sem áður hefir legið fyrir Alþingi.