17.05.1933
Neðri deild: 76. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2338 í B-deild Alþingistíðinda. (3731)

93. mál, ábúðarlög

Frsm. meiri hl. (Pétur Ottesen) [óyfirl.]:

Frv. um breyt. á núgildandi ábúðarlögum hefir legið fyrir hverju þingi síðan 1929, þegar frá er tekið sumarþingið 1931. Þegar mál þetta kom fyrst inn í þingið, varð það fyrir geysilegri gagnrýni hér í hv. Nd. Sú gagnrýni byggðist mikið á því, að með frv., eins og það var þá, þótti gengið harla langt í áttina til þess að skerða eignarrétt þeirra manna, sem leyft höfðu öðrum ábúð á jörðum sínum. Á ýmsan hátt var freklegar en áður hefir tíðkazt í löggjöfinni tekinn af þeim umráðarétturinn yfir þessum eignum sínum og fenginn í hendur öðrum óviðkomandi mönnum. Þetta, ásamt nokkrum öðrum smærri atriðum, olli því, að frv. fékk nokkuð kaldar viðtökur og harða dóma. Af því leiddi aftur, hvað langan tíma það hefir tekið Alþingi að gera þær breyt. á frv., sem nauðsynlegar þóttu til þess það gæti orðið að lögum. Frv. var upphaflega samið af mþn., en hefir þó eigi verið borið fram sem stjfrv. fyrr en nú á þessu þingi; áður hefir það því komið inn í þingið eftir öðrum leiðum, og eru það tveir af hinum upphaflegu höfundum frv., sem aðallega hafa komið því á framfæri á undanförnum þingum. Í meðferð þingsins hefir frv. tekið geysimiklum breyt. Hefir það aðallega orðið hlutskipti landbn. Nd. að vinna að málinu og bera. fram brtt. Á vetrarþinginu 1931 lagði hún mjög mikla vinnu í frv. og bar fram undir þinglokin mjög gagngerðar og víðtækar breyt. á því. Að þeim unnu mest þeir hv. þm. Mýr. og þáv. 2. þm. Skagf., Jón Sigurðsson. Á síðasta þingi lagði landbn. einnig mikla vinnu í að breyta frv. og bæta það. Og allar þær brtt., sem n. gat komið sér saman um, voru samþ. hér í d. En í n. var ekki fullkomið samkomulag um, hvað víðtækar breyt. þyrfti að gera á frv. Var sérstaklega ágreiningur um hina víðtæku og róttæku húsabótaskyldu, sem lögð var eingöngu á landsdrottna eins og frv. var þá.

Þrátt fyrir þessar breyt. á frv., sem samþ. voru í fyrra, náði það ekki samþykki. Mun það meðfram hafa verið vegna þess, að ekki náðist nauðsynlegt samkomulag um ýms mikilsverð ákvæði, og þá sérstaklega þau, sem lutu að húsabótaskyldunni. Í sambandi við húsabótaskylduna, skyldu landsdrottna til að leggja til ekki aðeins bæjarhús, heldur einnig peningshús, eftir því sem áhöfn jarðarinnar krefst, var gerð sú breyt. í fyrra, sem meira kemur til með að verka í framtíðinni heldur en á næstu árum, að gert er ráð fyrir að stofna sérstakan sjóð, sem greiða á í svokallaða leiguliðabót og síðan á að verja til að endurnýja húsin á jörðinni. Þetta getur orðið sterkur þáttur í því, að lausn fáist á málinu. Þó verður sú afleiðing af samþykkt frv., að húsabótaskyldan færist af leiguliðunum og yfir á landsdrottna, þannig að í mörgum tilfellum verður landsdrottinn að inna þá skyldu af hendi, að byggja upp öll hús á jörðum sínum.

Eins og ég gat um, hefir hæstv. stj. nú í fyrsta sinn tekið þetta mál til flutnings. Hefir hún athugað það á milli þinga og gert á því nokkrar breyt. Hæstv. stj., eða hæstv. atvmrh., sem unnið hefir að þessu máli, hefir verið ljóst, að sá ágreiningur, sem sérstaklega þurfti að brúa, var einmitt ágreiningurinn um húsabótaskylduna; hefir hann því tekið það atriði til sérstakrar athugunar. Ég get lýst því yfir f. h. meiri hl. landbn., að hann fellst algerlega á till. hæstv. atvmrh. um það efni. Telur hann þær allar miða í sanngirnisáttina og vera til bóta á frv. Það er einmitt fyrir aðgerðir hæstv. atvmrh., að meiri hl. landbn. getur nú, þrátt fyrir ýmsa annmarka, sem búast má við á framkvæmd málsins, lagt til, að frv. verði samþ. óbreytt, svo að þar með sé lokið því stímabraki, sem verið hefir um það þing eftir þing, og bætt úr þörfinni á að fá endurskoðaða eða nýja ábúðarlöggjöf.

Því er þó ekki hægt að neita, að með frv. eins og það er nú, þrátt fyrir allar breyt., sem á því hafa verið gerðar af þinginu og hæstv. atvmrh., er eignar- og umráðaréttur einstaklinga og ríkis á jörðum meira skertur og gerður háður íhlutun og ákvörðunum óviðkomandi manna heldur en hægt er að benda á um eignarrétt á öðrum verðmætum í landinu. Má að því leyti segja, að hér sé gengið inn á varhugaverða braut. Enda er það svo, að ýmsum þykir freklega gengið á svig við ákvæði stjskr. um friðhelgi eignarréttarins í frv., eins og skýrast hefir komið fram hjá hv. 1. þm. S.-M. hér í d. (PHalld: Alveg réttilega!). En hinsvegar er ákaflega brýn þörf á að fá setta nýja löggjöf um ábúð leigujarða. Gamla ábúðarlöggjöfin er, eins og eðlilegt er, að ýmsu leyti mjög úrelt og á eftir tímanum. Eins og kunnugt er hafa miklar breyt. orðið á búnaðarháttum síðan hún var sett. Jarðirnar hafa verið bættar á ýmsan hátt og húsaskipun breytt. Af því leiðir vitanlega nýtt viðhorf og miklar breyt. á viðskiptum landsdrottins og leiguliða og afstöðu þeirra hvors til annars. Þess vegna er mikil nauðsyn á að leysa þetta mál, og Alþingi getur varla lengur hliðrað sér hjá að afgr. það endanlega.

Um brtt. hv. minni hl. á þskj. 611 er það að segja, að þær miða allar, að einni undantekinni, að því að taka út úr frv. þau ákvæði, sem hæstv. atvmrh. setti inn í það sem samningsgrundvöll undir afgreiðslu málsins. Ég hefi áður lýst því yfir f. h. meiri hl., að hann fellst á réttmæti till. hæstv. atvmrh., og samkv. hví hefir hann tekið þá afstöðu til brtt. hv. minni hl., að vera á móti þeim öllum. Frá sjónarmiði okkar miða þær að því að spilla frv. og færa það í það horf, sem því hefir valdið, að ekki hefir enn tekizt að fá samþ. breyt. á ábúðarlöggjöfinni.

Ég skal ekki fara út í að ræða þessar brtt. Það er hvorttveggja, að hv. flm. þeirra hafa enn ekki talað fyrir þeim, og svo býst ég við, að hæstv. atvmrh. svari til um það efni, þar sem þær snerta nær eingöngu þær breyt., sem hann gerði á frv.

Að lokum vil ég aðeins minnast á eitt atriði í þessu frv., sem ég hefi raunar áður bent á hér á þingi, að mundi valda nokkrum árekstri og óþægindum þegar til framkvæmda kemur. Það er viðvíkjandi þeim gjafajörðum, sem venjulega eru kallaðar kristfjárjarðir, jörðum, sem gefnar eru í einhverju góðgerðaskyni, þannig að ákveðið er í gjafabréfi, að afgjaldi þeirra skuli varið annaðhvort til forsorgunar munaðarlausra barna og ekkna eða annara hliðstæðra góðgerða, eða þá til að standa undir einhverri menningarstarfsemi í landinu. Mér skilst, að ekki sé hægt að samrima þá húsabótaskyldu, sem með frv. er færð yfir á landsdrottin, ákvæðum gjafabréfa þessara jarða, sem ákveða, að afgjaldinu skuli ráðstafað á ákveðinn hátt. Það er vitanlegt, að samkv. ákvæðum þessa frv., þar sem um er að ræða að byggja upp öll slík hús á þessum jörðum, mundi verða að verja afgjaldinu um áratugi, ef ekki lengur, til þess að inna af hendi þessa kvöð og ekki hægt að verja því til þess að uppfylla ákvæði gjafabréfsins. Þetta mundi leiða það af sér, að sá tilgangur, sem leg ið hefir til grundvallar fyrir því, að þessar jarðir voru gefnar, mun um lengri eða skemmri tíma verða að engu. Mér skilst því, að eina leiðin út úr þessu, ef sýna á viðleitni til þess að nota jarðirnar á þann hátt, sem gert er ráð fyrir í gjafabréfunum, muni vera sú, að selja jarðirnar og leggja andvirði þeirra í sjóð og láta svo vextina af höfuðstólnum ganga til þeirrar starfsemi, er ákveðin hefir verið í gjafabréfinu. Ég fyrir mitt leyti lít svo á, að það sé varlega gerandi fyrir þingið að ganga langt í því að gera ráðstafanir, sem verða þess valdandi að raska helgi, ef svo mætti að orði kveða, slíkra gjafabréfa. Það er mjög óeðlilegt að ganga svo í berhögg við slíkar ákvarðanir manna á deyjanda degi, eða þó þær séu teknar fyrr, sérstaklega þar sem þetta er gert í mannúðar- og menningarskyni.

Ég held þess vegna, að eina úrræðið í þessu efni verði að selja slíkar jarðir, en við það vinnst vitanlega það, sem ég álít mjög mikilsvert, að þær jarðir fara í sjálfsábúð, og það tel ég vera til mikilla heilla fyrir þjóðfélagið. En náttúrlega er því ekki að leyna, að svo gæti farið, að sá höfuðstóll, sem þannig fengist, yrði ekki eins tryggur til þess að bera uppi þá starfsemi, sem til er ætlazt, eins og ef höfuðstóllinn væri látinn standa í fasteignum. En við þessu verður ekki séð.

Ég vænti þess, að þrátt fyrir ýmsa ágalla, sem á frv. eru, þá geti þingið ekki lengur skotið því af sér að samþ. það, og þess geti þá orðið að vænta, að frv. geti orðið að 1. nú á þessu þingi, og það getur það náttúrlega orðið, þó að allmjög sé liðið á þingtímann, ef það verður samþ. óbreytt. En það er ekki hægt að segja, hver muni verða afdrif þess, ef nú á þessu stigi verður farið að samþ. brtt.

Þess má geta, að Ed. hefir goldið jákvæði við brtt., sem hæstv. atvmrh. hefir gert á frv., og þannig hefir honum tekizt með sínum till. að gera frv. úr garði, að það var aðgengilegt fyrir þá d.