17.05.1933
Neðri deild: 76. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2374 í B-deild Alþingistíðinda. (3737)

93. mál, ábúðarlög

Frsm. meiri hl. (Pétur Ottesen) [óyfirl.]:

Ég þarf ekki að svara nema litlu f. h. meiri hl. landbn., því að þessi gagnrýni, sem fram hefir komið út af brtt. þeim, sem fram hafa komið, hefir hæstv. atvmrh. svarað, enda honum skyldast. Ég hefi áður lýst afstöðu okkar meiri hl. gagnvart þeim till., og sú gagnrýni, sem hér hefir komið fram gagnvart þeim, hefir engin áhrif haft á afstöðu okkar.

Út af ummælum þeim, sem féllu hjá hv. frsm. minni hl. viðvíkjandi einni brtt. hans, sem er orðabreyt. við 9. gr., c.-lið 5. málsgr., vil ég segja örfá orð. Hv. frsm. sagði, að það hefði komið fram í n., að nm. hefðu ekki skilið til fullnustu, hvað meint væri með málsgr. þessari eins og hún er orðuð í frv. Hvað mig snertir, þá tók ég það þegar fram, að enda þótt betur kynni að fara á því að skipta orðum eins og gert er í brtt., þá teldi ég þó ákvæði gr. ekki það torskilið, að af þeirri ástæðu væri nauðsynlegt að bera fram sérstaka brtt. Hér væri ekki um annað að ræða en undanskilja leiguliðaafnotum þau vatnsréttindi, sem hann þyrfti ekki að nota sjálfur.

Hv. frsm. minni hl. kvað fast að orði í garð meiri hl. n. út af þeim ummælum mínum, að brtt. hans og hv. minni hl. væru til spillis frv. Honum þótti ég taka djúpt í árinni um þetta. Til þess að sýna honum fram á, að brtt. hans voru í raun og veru þannig, benti ég honum á hin nýju ákvæði í 11. og 12. gr. frv., er lúta að húsabótaskyldum landsdrottins og miða í þá átt að setja hömlur á það, að leiguliði geti heimtað allt mögulegt af landsdrottni í þessu efni, en þessum ákvæðum vill hv. minni hl. breyta til hins verra. Það er vitanlegt, að víða í sveitum landsins hefir verið gengið lengra en góðu hófi hefir gegnt í því að byggja þannig upp á jörðum, að þær hafa verið yfirbyggðar, svo reynzt hefir erfitt að láta þær standa undir þeim kostnaði, sem af byggingunni hefir leitt. Allar jarðir, sem byggt hefir verið á í seinni tíð, eru yfirbyggðar, þannig að það hefir reynzt erfitt að játa jarðirnar eða afrakstur þeirra standa undir kostnaði af þeim. Það hefir nú þegar komið í ljós, að stjórn búnaðarbankans er farin að kippa að sér hendinni með lánveitingar úr honum til slíkra bygginga. Þetta byggist á því, að það hefir komið í ljós í mörgum tilfellum, að þegar byggingarnar, sem lánað var til, voru komnar upp á jörðunum, þá hefir eigendum verið gersamlega um megn að standa straum af þeim. Í þessum hömlum, sem hér eru lagðar á, getur falizt sú almenna nauðsyn, sem á því er yfirleitt, að eigi sé lagt meira fé í byggingar á jörðum í sveitum en svo, að hægt sé að standa straum af þeim með eðlilegum búrekstri. Mér virðist þess vegna, þegar litið er á þetta frá almennu sjónarmiði, að þá sé það í samræmi við það, sem lánsstofnanir landsins hafa tekið upp í sínum lánveitingum til húsbygginga í sveitum. Auk þess var það svo, og það hefir öllum frá öndverðu verið ljóst, að sú skylda, sem lögð er á herðar landsdrottins um að byggja upp íbúðarhús og peningshús, er vitanlega svo stór kvöð, að ef hægt er að heimta fjárframlög til að byggja þetta allt í einu, þá yrði afleiðingin sú, að viðkomandi jarðeigandi hefði alls ekki getað risið undir slíkum kostnaði, ef engar hömlur væru á það lagðar framar því, sem gengið var frá á þinginu í fyrra, hve háar kröfur hægt væri að gera í þessu efni. Mér virðist, að það hlutfall, sem hér er sett milli húsbygginga annarsvegar og verðgildi jarðarinnar hinsvegar, sé mjög skynsamleg leið, og ef eftir þessu væri farið, þá væri nokkurnveginn útilokað, að jarðirnar væru yfirbyggðar. En það leiðir af sjálfu sér, að of dýr hús leiða til tjóns fyrir sveitirnar og búskapinn í heild. — Þá var það og það, sem hv. frsm. minni hl. og hv. 1. þm. Árn. fundu til foráttu ákvæði 12. gr., að leiguliði leggur fram nokkra vinnu þegar um er að ræða byggingu á jörð og gripahúsum, sem felst í því að draga að efni, t. d. torf og grjót, þegar byggt er á þann hátt. Þegar verið er að ræða um þetta, verður að taka tillit til þess, að eftir þessu frv. verður yfirleitt ekki hægt að byggja neinn nýjan byggingarsamning á öðru en því, að jörðin sé byggð æfilangt. (StgrS: Ekki skilyrðislaust). Það eru nokkrar undantekningar, en þetta er aðalreglan, þótt skyldmenni og þess háttar geti komið til greina og borið ofurliði þessi réttindi, sem leiguliði fær með byggingarsamningnum. En aðalreglan er sú, að viðkomandi leiguliði hefir tryggingu fyrir því að njóta sinna handaverka á jörðinni um lengri eða skemmri tíma, eftir því sem honum auðnast að nota jörðina, og ég hygg, að með þessu móti geti orðið eins hagkvæmt fyrir viðkomandi leiguliða að inna þetta af hendi, eftir því sem kringumstæður eru beztar fyrir hann, og landsdrottinn væri skyldaður til að gera þetta og yrði að kaupa til þess dýran vinnukraft. Það er um þennan hluta kostnaðarins eins og um byggingarkostnaðinn að öðru leyti, að leiguliði verður að greiða fulla búnaðarbankavexti af öllum húsbyggingarkostnaðinum, og þegar um langa ábúð er að ræða, þá safnast þegar saman kemur, og því skilst mér þetta vera engu síður hagkvæmt fyrir leiguliðann, eins og það má teljast ívilnun gagnvart landsdrottnum. Hagsmunir beggja geta því farið þarna saman.

Mér virtist hv. frsm. minni hl. leggja sérstaklega þungan dóm á mín ummæli um, að ég álíti brtt. hans til hins lakara, sérstaklega í sambandi við þessi atriði frv. En ég skal svo ekki ræða þetta frekar um brtt., því að hæstv. atvmrh. hefir tekið þær til athugunar og svarar því, sem honum finnst ástæða til. — Hv. 1. þm. Árn. þakkaði stj. vel og innvirðulega fyrir hennar gerðir í þessu máli. Þó verð ég að taka undir það með hæstv. atvmrh., að þetta þakklæti fór nokkuð út um þúfur, þegar hann vildi láta fella úr frv. meginið af því, sem hæstv. atvmrh. hafði sett inn í það, og þá sérstaklega það, sem lýtur að húsabótastyrknum. Því að það átti allt að takast út úr frv. eftir till., sem fyrir liggur frá minni hl. landbn.

Ég skal ekki fara lengra út í þetta, en það minnti mig á nýliðinn atburð, eða frá deginum í gær, þegar ég var hér með rökstudda dagskrá um eitt mál, sem fyrir lá, og menn hældu sérstaklega mikið, og þeir, sem hældu dagskránni mest, lögðu lið til að fella hana og koma fyrir kattarnef þessum góða ásetningi. Annars ætla ég ekki að fara lengra út í þetta, en þakklæti hv. 1. þm. Árn. var maklegt að því leyti, að þær landsstj., sem setið hafa hér síðan hann bar frv. fyrst fram — 1929 —, hafa ekki sýnt neinn vilja í því og ekki lagt til þess neitt lið að koma málinu fram eða lagfæra þær stórfelldu misfellur, sem á því voru frá hans hendi, eins og öll meðferð þessa máls sýnir bezt, því að ég held helzt, að þar standi ekki eftir ein einasta grein, sem ekki hefir verið tekin til athugunar og breytt af þinginu, og margar breyt. hafa verið gerðar við sumar þeirra. Það er þess vegna varlega farandi í það fyrir hv. þm., að vera að fella harða dóma yfir Alþ. um að það hafi gefið þessu máli lítinn gaum, því að það hefir tekið þetta mál sérstaklega til athugunar, og þeir, sem hafa haft það til meðferðar, hafa orðið að leggja í það mikið verk, til þess að geta gert það frambærilegt og viðunandi.

Það hafa yfirleitt verið rólegar umr. um þetta mál, eins og vera ber. Þetta er mikilvægt. Og þótt menn greini hér nokkuð á, þá hafa auðvitað allir mikið til síns máls og deila hver frá sínu sjónarmiði, en þó þykkjulaust, nema hvað mér fannst bregða út af því hjá hv.1. þm. Árn., forseta þessarar d., þar sem hann var að hafa í hótunum við Alþ., ef það afgr. nú ekki þetta frv. eins og hann vildi vera láta, ekki beint við þetta þing, heldur þau, sem koma saman eftirleiðis og hann kynni að eiga sæti á, að þau skyldu finna til hans í þessu máli og hann mundi halda stíft fram kröfunum um það. Auðvitað þurfti hv. þm. ekki að viðhafa þessi orð, því að það liggja engir fjötrar á honum til hindrunar því, að hann haldi sínu fram. En þetta virðist nokkuð skera sig úr þeim umr., sem farið hafa hér fram um þetta mikilsvarðandi mál. — Ég skal svo ekki fjölyrða um þetta, en vil endurtaka það, sem ég hefi áður sagt, að mér virðist hæstv. atvmrh. hafa í sínum till. komið fram með góðan samningsgrundvöll fyrir hinar töluvert miklu andstæður og skiptu skoðanir í þessu máli, sem alltaf hafa komið hér fram, og seinast í dag. Ættu menn því að geta mætzt á miðri leið og það orðið til þess að málið fengi afgreiðslu frá þessu þingi.