17.05.1933
Neðri deild: 76. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2386 í B-deild Alþingistíðinda. (3739)

93. mál, ábúðarlög

Atvmrh. (Þorsteinn Briem):

Það komu fram í umr. í dag upplýsingar um það, að núgildandi ábúðarlög hefðu loks verið tekin í gildi eftir að staðið hefði um þau þrjátíu ára stríð. Mér finnst sumir hv. þm. nú svo gjarnir á að vekja aftur deiluatriði í þessu máli, að svo virðist, sem þeir hafi nokkra löngun til þess, að um þetta frv. standi aftur þrjátíu ára stríð.

Ég hygg, að ef fyrir því er almennur áhugi, að frv. nái fram að ganga á þessu þingi, þá verði allir að slá nokkuð af sínum persónulegu skoðunum, því skoðanir manna eru svo ólíkar innbyrðis, að nokkuð er tvísýnt um afgreiðslu málsins, ef ekki er stefnt meir til samkomulags. Sumir eru stórhneykslaðir yfir því, hvernig landsdrottnar eru sviptir sínum rétti, aðrir eru aftur stórhneykslaðir yfir því, hve vel er farið með landsdrottna. Ég hygg, að sanngirni sé hér mitt á milli, og þann meðalveg er reynt að þræða í frv. Ef hv. þm. er það yfirleitt áhugamál að eyða ekki svo og svo mörgum árum enn í árangurslaust rifrildi um þetta mál, og að leiguliðar sitji ekki allan þann tíma við þau kjör, sem allir eru óánægðir með, þá hygg ég, að vænlegra væri, að einstakir hv. þm. sýndu ekki ýtrasta kapp í till. sínum og málflutningi.

Hv. 1. þm. S.-M. hneykslaðist á öllu frv., frá upphafi til enda, þó hann gæfi sér ekki tíma til að rifa það allt í sundur. M. a. hneykslaðist hann á síðustu málsgr. 2. gr., um það, að landeiganda sé heimilt að skipta jörð sinni í tvær eða fleiri jarðir, enda fái hann til þess samþykki úttektarmanna um það, hvernig skiptingunni sé bezt fyrir komið. Ég held, að úttektarmenn séu yfirleitt ekki svo ósanngjarnir, að hætta geti stafað af þessu ákvæði. Ég held miklu fremur, að það gæti leitt til góðs. Það skiptir ekki svo litlu máli, að slík skipti á jörðum takist vel, því það er mál, sem ekki aðeins varðar eina kynslóð, heldur fleiri, hverja fram af annari, og því hygg ég, að ekki sé misráðið, þó að þau skipti væru gerð að góðra manna yfirsýn. — Mér skildist á hv. þm., að hann gera ráð fyrir, að samkv. frv. gætu leiguliðar heimtað alltaf ný og ný hús vegna breyttra búnaðarhátta, þegar fyrrv. hús reyndust ekki lengur hæf fyrir þann búrekstur, sem heppilegri þætti en sá, er verið hefði á jörðinni; en þetta er vangá hjá hv. þm., því í næstsíðustu málsgr. 12. gr. eru ákvæði um það, að ákvæði 2. og 3. málsgr. sömu gr. gildi ekki, ef landsdrottinn hefir lagt til nægileg peningshús, sem enn eru í nothæfu standi, en verða eigi notuð að fullu vegna breyttra búnaðarhátta á jörðinni. — Þá hneykslaðist hv. 1. þm. S.-M. á orðalagi 18. gr., upphafinu. Nú hefir það orðalag staðizt rækilega athugun og gagnrýni landbn. beggja deilda þingsins, og það athugasemdalaust, en vel má vera, að svo málhagur maður sem hv. 1. þm. S.-M. geti orðað þetta betur, og skal þakksamlega tekið á móti öllum góðum bendingum frá honum í þá átt. — Þá hneykslaðist hv. þm. enn á 7. gr., þar sem gert er ráð fyrir, að úttektarmenn ákveði afgjald af jörð með hliðsjón af fornum leigumála á jörðinni. Ég bjóst nú sízt við því af þessum hv. þm., að hann mundi hneykslast á því, þó eitthvað væri miðað við fyrri tíma. Það mun vera svo í hverri sveit, að mönnum mun vel kunnugt um það, hverjir leigumálar hafi verið á einstökum jörðum, og ef jarðirnar eru óbreyttar að gæðum, þá hygg ég, að ekki sé ósanngjarnt, þó að miðað sé við gamalt lag í þessu efni. Ég hygg, að sú jörð, sem áður var leigð fyrir 10 sauða afgjald, væri hæfilega leigð nú fyrir sama verðmæti, ef hún er óbreytt að kostum. Ef jörðin er aftur á móti gerbreytt, þá er öðru máli að gegna.

Hv. 1. þm. Skagf. er enn á því, að í frv. sé farið illa með leiguliða, og jafnvel mátti skilja á honum, að það væri spillt frá því, sem það hefði verið eftir 3. umr. í fyrra; en ég vil benda hv. þm. á, að einu grundvallaratriði frv. er gerbreytt frá því, sem það var eftir 3. umr. í Nd. í fyrra. Því þá voru í frv. ákvæði, sem kennari háskólans í ábúðarlöggjöf og jafnvel háttsettir dómarar litu svo á, að gerðu það mögulegt að semja sig frá öllum ákvæðum laganna með byggingarbréfi. Fyrir þetta hefir nú gersamlega verið skorið í frv., og skil ég sízt í svo skýrum manni sem hv. 1. þm. Skagf., að láta sér betur líka frv. Nd. 1932, sem af nefndum ástæðum var ekki nema pappírsgagn, en þetta frv.

Þá vék hv. 1. þm. Skagf. að því, sem ég hafði eftir honum sjálfum, að ákvæði frv., sérstaklega 12. gr., minntu á meðferðina á konungsþrælunum til forna, en mér skildist hann í seinni ræðu sinni draga nokkuð inn seglin viðvíkjandi þeim ummælum, sem hann hafði um þetta í fyrstu.

Mér fannst hv. þm. ekki leggja verulega áherzlu á brtt. sína við 3. gr., enda hygg ég, að hann hafi sannfærzt um, að það sé a. m. k. ekki heppilegt orðalag eins og hann hefir lagt til í till. sinni. —

Viðvíkjandi brtt. við 9. gr. vildi hann ekki gera neinn greinarmun á því, að landsdrottni væri neitt erfiðara að byggja tvenn jarðarhús á sömu jörðinni en að byggja á 2 smákotum. Ég hygg þó, að venjulega séu þar einhver hús fyrir og þá megi hafa not af þeim meðan verið er að koma byggingunni upp að fullu. En ef reisa þarf tvenn hús, sín fyrir hvorn ábúandann á sömu jörðinni, þá mun að jafnaði þurfa að reisa a. m. k. önnur húsin algerlega frá stofni og öll í einu.

Viðvíkjandi 11. gr. talaði sami hv. þm. um, að orðin „nothæf jarðarhús“ kæmu í mótsögn við það, sem stæði í 1. mgr. um, að húsin skyldu vera í góðu lagi, en ég get ekki fallizt á það, því að í orðalaginu „nothæf jarðarhús“ liggur fyrst og fremst það, að húsin séu þannig, að þau verði notuð við ábúðina, en að það séu ekki t. d. gömul geymsluhús, sem notuð hafi verið áður í allt öðru augnamiði. Ég hygg, að það sé ekkert óvenjulegt form í 1., að það sé takmarkað í síðari mgr., sem sagt er í fyrri mgr. Ég hygg, að það sé oft, að síðari setning eða síðari liður í mgr. takmarki ákvæði í næstu setningu eða næsta lið á undan, eins og hér er gert. Það vakir sýnilega fyrir þeim róttækustu mótstöðumönnum frv. eins og það er nú, að það verði hægt að byggja helzt nú þegar eftir 2 ár upp allar leigujarðir í landinu, þannig að allt sé þar fullkomið og gott. Ég efast um, að það verði fárra ára verk, ég efast jafnvel um, að það geti orðið einnar kynslóðar verk að byggja svo upp, að fullkomið sé. Við höfum tekið við landinu næstum ónumdu að því er húsbyggingar snertir, og það, sem hefir tekið aðrar þjóðir margar aldir, býst ég ekki við, að við getum gert á fáum árum. M. a. með það fyrir augum hefir mér sýnzt, að það yrði að setja nokkur takmörk fyrir því, hvers væri hægt að krefjast að því er húsabyggingar snertir, og að það yrði að taka nokkurt tillit til þeirra, sem þær skyldur eiga að inna af hendi. Sami hv. þm. talaði og um það, að þar sem landverð væri ekki metið meira en 1—3 þús. kr. að fasteignamati, myndu ákvæði 11. gr. vera gersamlega óhæf, og færði það til, að ekki myndi vera hægt að koma upp húsum fyrir 2/3 af landverði jarðarinnar. Ég verð enn aftur að minna á það, sem alls ekki virðist geta komizt inn í höfuð þeirra, sem um þetta mál tala frá þeim bæjardyrunum, að hér er ekki átt við kostnaðarverð, heldur við fasteignamatsverð húsanna, og það mun vera auðvelt að færa dæmi til þess, að fasteignamatsverð húsa í sveit er nú oft ekki meira en ¼ af því raunverulega kostnaðarverði. Ég verð að telja, að það liggi allnærri hártogun að ala á því enn aftur að miða eingöngu við kostnaðarverð, þegar beinlínis stendur í frvgr., að bæði landverð og húsaverð skuli miða við fasteignamat.

Viðvíkjandi upphafi 12. gr. hafði hv. þm. þau orð, að það minnti ofurlítið á þau kjör, sem konungsþrælar hefðu átt við að búa. (StgrS: Einkum niðurlag 12. gr.). Það er nú um þetta að segja hvorttveggja, upphaf og niðurlag 12. gr., að það hefir verið sett í frv. af hv. Ed. Það voru áður í frv. ákvæði, sem stefndu nokkuð í þessa átt einmitt frá sjálfum frumhöfundum frumvarpsins, sem þóttu nægilega róttækir, en þau ákvæði giltu þá að vísu aðeins um það, þegar hús féllu niður af landskjálfta eða öðrum þvílíkum orsökum. En þessu sérákvæði stjfrv. breytti hv. Ed. í almennt ákvæði. Hv. þm. tók á mælsku sinni og brá jafnvel á leik, þar sem hann var að tala um, að hestarnir ristu ekki torf og græfu ekki gróft þann, sem þyrfti við húsabyggingar. Þetta var nú svona meira til skemmtunar. Ég hygg þó, að ekki sé útilokað, að það megi hafa hjálp af hestum við að flytja rist torf. Ef hestareka er á heimilinu, hygg ég, að það megi hafa not af henni, og hestar eru notaðir til þess að koma moldinni burt. Ég verð enn að halda mér við það, að það sé hagfræðilega rétt leið til þess að gera húsin sem ódýrust og létta á leiguliðunum þá afgjaldshækkun, sem leiðir af húsabyggingum, að sá vinni verkið, sem á auðveldast að leysa það af hendi með sem minnstum kostnaði. Má vera, að viðvíkjandi 6. mgr. sé nokkuð þröngt að miða aðeins við 6 ár, og getur það vitanlega verið athugunarmál til 3. umr., en ég vil alls ekki ganga inn á það, að þessi grein sé gersamlega felld niður nú við þessa umr., því að vel gæti verið, að það mætti fá samkomulag, sem stefndi meira í miðlunarátt þessara tveggja ólíku sjónarmiða, og mætti athuga það til 3. umr.

Viðvíkjandi síðasta ákvæði 40. gr., að leiguliði eigi ekki heimting á að fá meira fyrir unnar jarðabætur en hann hefir í raun og veru til þeirra kostað, þá veit ég ekki um, hvort það er hægt að gera það að almennri lagaskyldu, að menn eigi kröfu á því að fá meira fyrir verk sín en þeir hafa til þeirra kostað, eins og hv. þm. virðist ætlast til. Ég veit ekki, hvort það er ástæða til þess að tryggja mönnum, að þeir fái yfirleitt meira en kostnaðarverð fyrir verk sín. Viðvíkjandi því, sem hv. þm. talaði og um, að erfitt væri síðar meir að vita, hver kostnaðurinn hefði verið, þá hygg ég, að ef leiguliðinn hefir unnið þessar jarðarbætur í frístundavinnu, sem hann nefndi svo, sé honum ekki misboðið með því, þó að jarðabæturnar væru reiknaðar í dagsverkatölu eftir ákvæðum jarðræktarlaganna og síðan yrði greitt fyrir dagsverkið eins og það hefir kostað á hverjum tíma, og mætti finna sanngjarnt kostnaðarverð með því.

Viðvíkjandi 24. gr. skilst mér, að ekki sé um annað að ræða en hvort orðið ætti að nota, „bætur“ fyrir það, að jarðabótum hefði ekki verið haldið við, eða „álag“, af því að jarðabótum hefði ekki verið haldið við. Ég vil ekki deila um það, hvort orðið skuli notað, álag eða bætur, og get ekki lagt áherzlu á það, hvort orðið er haft, því að mér skilst eftir seinni ræðu hv. frsm. minni hl., að hann meini í raun og veru það sama og hér er átt við í frv.

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. sagði í sinni fyrri ræðu, að ekki væri ástæða til þess að ýta undir það, að landsdrottinn gerði jarðabætur á jörð, sem hann leigði öðrum, þá hygg ég, að það geti orðið skiptar skoðanir um það. Ég hygg, að jörðinni sjálfri og þar með þjóðfélaginu væri nokkur greiði gerður með því, að landsdrottinn setji fé sitt í jarðabætur, með því að mér þykir ólíklegt, að landsdrottinn kosti svo kapps um að leggja fé í jarðabætur, ef hann sér ekki, að jörðin vex að verðmæti sem svarar því, sem hann kostar til jarðabótanna, og þá eru þeir peningar geymdir í góðum „banka“ og erfingjar hans geta þá ekki eytt þeim fjármunum í óspilunarsemi eða á annan verri hátt.

Þá vil ég að lokum víkja að niðurlagsákvæðum frv. Ég hygg, að við sannfærum hvorugur annan um það, hvort fresturinn til framkvæmda á húsabótum skuli vera 5 ár eða 2 ár, og þess vegna sé ekki til neins fyrir okkur að deila um það. Ég hygg, að jafnvel þó að líða megi 5 ár þangað til landsdrottinn er að lögum skyldur að inna þessar kvaðir af hendi, þá verki 1. fyrir sig fram svo mikið, að jafnvel á næsta ári eftir að l. ganga í gildi fari þau þegar að hafa áhrif, þannig að landsdrottnar annaðhvort gefi leiguliðunum kost á kaupum með vægum kjörum, eða þeir bæti úr knýjandi húsaþörf, þar sem þeir vita, að þessi skylda fellur yfir þá innan örskamms tíma. Hitt getur verið mikið athugunarmál, hvort við erum þegar að 2 árum liðnum við því búnir að geta veitt þau lán, sem þarf til stórfelldra byltinga í húsabyggingum á jörðum, eða hvort við erum algerlega við því búnir að hafa þann gjaldeyri, sem til þess þarf, því ef snögg bylting verður, þarf til þess ekki lítið fé.