22.05.1933
Efri deild: 78. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 550 í B-deild Alþingistíðinda. (374)

1. mál, fjárlög 1934

Atvmrh. (Þorsteinn Briem):

Ég ætla aðeins að segja nokkur orð út af ummælum hv. 1. landsk. og lítilsháttar út af orðum hv. 2. landsk. Hv. 1. landsk. sagði, að það hefði ekki verið siður fyrir árið 1927 að senda hærri kostnaðarreikninga en vera bar til stjórnarráðsins. Ég get vel trúað því og þykist sannfærður um það, að ekki hefir verið um að ræða slíka reikninga frá þeirri stofnun, sem hann veitti forstöðu, En ég hygg þó, að ef hv. 1. landsk. vildi líta í þá reikninga, sem til stjórnarráðsins hafa komið allt frá þeirri tíð, að Klemens Jónsson var landritari, þá myndi hann finna einhverja reikninga, þar sem skrifað hefði verið „of hátt, þetta verður borgað“, — miklu lægra.

Það er rétt hjá hv. 1. landsk., að í aths. við LR hefir endurskoðandi frá Sjálfstæðisflokksins hálfu skrifað undir, að við svo búið mætti standa um úrskurð um endurgreiðslu, og ég hygg, að ég hafi ekki frekar mælt í minni ræðu. Aths. hans var því ekki nauðsynleg. Rétt er, að þar stendur einnig, að endurskoðendur séu óbundnir um frekari aðgerðir. Tveir af þeim sitja nú á þingi, og ég varð ekki var við miklar aðgerðir frá þeirra hálfu, þegar LR var til umr.

Það er og skrifað um þessa endurgreiðslu: „vísað til aðgerða Alþingis“. Ég hefi ekki orðið var við, að Alþingi hafi gert neitt, heldur látið við svo búið standa um úrskurð stj. Verð ég að telja, að þar sé fallinn dómur frá þeim æðsta dómstól, sem stj. á yfir sér, sem sé Alþingi.

Hv. 2. landsk. talaði mörgum orðum um það, að verklegar framkvæmdir hefðu verið litlar á árinu 1932, og stefndi sem sönnun, að 1930 hefðu þær verið miklu meiri. Rétt er það, enda hefi ég ekki haldið öðru fram. Til þessa liggja og skiljanlegar ástæður, og þ. á m., að þetta var þjóðhátíðarárið mikla. Árið 1930 voru tekjur ríkissjóðs á 18. milljón, en 1932 voru tekjur ríkissjóðs að ég hygg 10 millj. 600 þús. Ég hygg, að þegar maður kemur í Útvegsbankann, þá fái maður þeim mun minni peninga til láns sem minni peningar eru til í sjóði. En það gildir sama regla um ríkisstj. 1932 brugðust þær tekjur, sem áður voru beztar og vissastar, eins og verðtollurinn, sem var 2 millj. 300 þús. kr. 1930, en 750 þús. síðastl. ár. Og ég hygg, að sá maður, sem er bankastjóri, skilji vel, að ekki verður framkvæmt eins mikið á því ári þegar tekjur bregðast, eins og þegar þær aukast um 6—7 millj.

Fyrri partinn í sumar kom okkur það oft í hug, sem í stj. sitjum, að komið gætu fyrir greiðsluþrot, ef ekki væri dregið að sér svo sem hægt væri. Það rættist betur úr en á horfðist, því að yfirleitt hefir stj. tekizt að halda nokkurnveginn jöfnuði á tekjum og gjöldum frá því 1. júlí síðastl. ár.

Tími minn er þrotinn, enda hefi ég ekki ástæðu til að segja meira.