22.05.1933
Efri deild: 78. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 551 í B-deild Alþingistíðinda. (375)

1. mál, fjárlög 1934

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Fáein orð til hv. 2. landsk. Hann kvað hér ríkja tvennskonar rétt, en rökstuðningur hans er sá, að það hafi verið afturkölluð rannsókn á hendur nokkrum mönnum, en aftur verið farið í mál við aðra menn, sem hann sagði, að væru verkamenn. Ég vil benda honum á það, að það er ekkert sannað með því að segja, að þessi og þessi sé sjálfstæðismaður eða íhaldsmaður, verkalýðsmaður eða jafnaðarmaður. Það er málstaðurinn, sem undir er komið, og ekkert annað. Á hann einan hefir verið litið, án tillits til, hver átti í hlut. Um tvennskonar réttlæti er því ekki að ræða. Um ástæðurnar 9. nóv. vil ég benda á, að ég er ekki að skipa þessum hv. þm. neitt fyrir um það, hvað hann megi segja, en ég hefi leyfi til að átelja það, sem hann hefir sagt rangt um tilefnið til þessara málshöfðana. Þó að það væri ekki ég, sem fyrirskipaði rannsóknina, skal ég fúslega taka á mig ábyrgðina af þessum málum.

Hv. 2. landsk. segir, að barsmíðarnar hafi verið meiri hl. bæjarstj. að kenna. Segjum nú svo, að bæjarstj., eða meiri hl. hennar, hafi haft rangt fyrir sér. Hún hafði samt sem áður lagalegan rétt til að gera samþykktir sínar í friði. En hinsvegar hefir enginn rétt til að beinbrjóta lögregluna, þó að þriðji aðili geri eitthvað á löglegan hátt, sem sumum mönnum finnst ekki sanngjarnt. Eða álítur hv. 2. landsk., að hann hafi leyfi til að slá mig niður, ef ég greiði atkv. á móti hans skoðun, eða ég hann, ef hann greiðir atkv. á móti minni? Þessi ummæli voru hv. 2. landsk. alls ekki samboðin, því að annars hefir hann talað hógværlega og sýnt, að hann kann sig ólíkt betur í opinberri framkomu en samherji hans, hv. 5. landsk.