26.05.1933
Neðri deild: 83. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2406 í B-deild Alþingistíðinda. (3759)

93. mál, ábúðarlög

Frsm. minni hl. (Steingrímur Steinþórsson):

Það fer nú að líða að því, að þessi hv. d. skili þessu frv. frá sér til fullnustu, því að ég vænti þess, að Alþingi beri gæfu til að afgr. þetta mál nú og í því horfi, sem sæmilegt má telja. Hefði verið ástæða til þess að koma hér inn á málið almennt áður en d. skilar því frá sér, en ég mun þó takmarka mig, til þess að eyða ekki of miklu af þeim stutta tíma, sem við höfum yfir að ráða nú til að afgr. málið.

Þótt ég álíti að vísu, að frv. feli í sér miklar réttarbætur fyrir leiguliða, réttarbætur, sem að því miða að skapa þeim möguleika fyrir heilbrigðari búnaðarháttum, þá eru þó þessi ábúðarlög aðeins ein hliðin í því stóra máli, sem snýr að jarðeignum landsins, og ég álít, að miklar og róttækar breyt. þurfi að gera viðvíkjandi jarðeignum landsins, ef maður á að geta gert sér vonir um, að búskapur verði rekinn á eðlilegan hátt í framtíðinni og landbúnaður vor tekið þeim framförum og þróun, sem við allir vonumst eftir. Nokkur hl. af jarðeignum landsins er enn í opinberri eign, og ég tel rétt, að þær verði ekki seldar, heldur leigðar á erfðaleigu og samin sérstök ábúðarlöggjöf fyrir þær jarðir, sem ríkið á nú og mun síðar eignast, þannig að það verði tvennskonar ábúðarlöggjöf, önnur gildi fyrir jarðir í opinberri eign og önnur fyrir leigujarðir í eign einstakra manna. Það er með þetta fyrir augum, sem ég fylgi þessu frv. Ástandið eins og það nú er í sveitum vegna þess skipulagsleysis um allt, er snertir eign og yfirráð yfir jarðeignum, er óþolandi. Þetta leiðir til þess, að sveitunum blæðir út fjárhagslega fyrr eða síðar, ef ekkert er gert til þess að koma á heilbrigðri skipan. Ég er ekki í vafa um, að það væru beztu kreppuráðstafanirnar, ef þessu máli væri komið í gott horf, því að til kaupstaðanna gengur óslitinn fjárstraumurinn úr sveitunum. Það heyrist reyndar oft hér, að kaupstaðirnir beri uppi gjöldin í landinu, en sveitirnar leggi lítið sem ekkert af mörkum, en hins er sjaldan getið, að sveitirnar greiða of fjár til kaupstaðanna í gegnum jarðasöluna. Fólkið hefir streymt úr sveitunum til kaupstaðanna og selt jarðirnar til að setjast þar að. Oft eru það beztu bændurnir, sem þannig hafa selt jarðir sínar, flutt í kaupstaðinn og byggt sér þar hús. Þeir, sem keypt hafa af þeim jarðirnar, hvort sem það eru börn seljandans eða vandalausir, verða af þessum ástæðum að reyta sig inn að skyrtunni til þess að greiða til þeirra, sem flutt hafa til kaupstaðanna, til þess að geta staðið í skilum með jarðarverðið. Hefir óreiknaður fjárstraumur gengið úr sveitunum í kaupstaðina á þennan hátt, enda má segja, að kaupstaðirnir hér á landi hafi verið byggðir að allmiklu leyti upp beinlínis með þessu móti. Gæti verið nógu fróðlegt að athuga, hve mikill fjárstraumur hefir gengið til kaupstaðanna á þennan hátt, og ég gæti nefnt ótal dæmi þessa, að menn selja óðal sitt fyrir of fjár, flytja í kaupstaðina og byggja sér þar stórhýsi, en þeir, sem eftir sitja, verða að reyta sig inn að skinni til þess að geta fullnægt kröfum hinna, og endirinn verður líka oft sá, að þeir gefast upp að lokum og flytja líka til kaupstaðanna. Þetta er sú stóra hætta, sem vofir yfir landbúnaðinum, og er satt að segja furðulegt, að fulltrúar sveitanna skuli ekki geta sameinazt gegn henni til verndar sveitunum. Hitt þykir mér ekki nema eðlilegt, að fulltrúar kaupstaðanna kæra sig ekki um að breyta þessu. Þeir mega vel við una hinn óslitna fjárstraum, sem gengur úr sveitum í kaupstaði. Ég minnist þess, að hv. 4. þm. Reykv. lét svo um mælt hér í sambandi við annað mál, skipulag um sölu mjólkur, að mig minnir, að sveitirnar vildu hafa Rvík fyrir mjólkurkú, en að vísu fara vel með þá mjólkurkú, til þess að hafa sem mest upp úr henni. Ég held þvert á móti, að Rvík og aðrir kaupstaðir hafi haft sveitirnar fyrir mjólkurkú, án þess þó að láta sig nokkru skipta, þótt sveitirnar hafi horazt niður meir og meir eftir því, sem féð hefir flutzt burt.

Við þessari meinsemd er ekki nema um tvær leiðir að velja, að því er mér sýnist. Annað er það, að taka hér upp óðalsrétt og fyrirskipa, að t. d. elzti sonur hafi rétt til jarðarinnar og þurfi ekki að svara út arfahlutum úr jörðinni, og ekki hvíli aðrar kvaðir á eigninni en veðskuldir. Óðalsréttur hefir frá ómunatíð tíðkazt í Noregi. Er gaman að athuga það, að hin nýja stj. í Þýzkalandi hefir einmitt horfið að þessu ráði, að taka upp óðalsréttinn og samtímis fyrirskipa, að enginn megi búa nema á einni jörð. Segi ég þetta ekki til að hæla þessari nýju stj., sem mér virðist margt misjafnt um, en hitt er það, að hún virðist hafa hitt naglann á höfuðið um þetta atriði. Þó er við þetta að athuga, að það nær aðeins til hinna smærri landeigenda. Allir hinir meiri landeigendur í Þýzkalandi geta um þetta farið eftir eigin geðþótta eftir sem áður. Hitt úrlausnarráðið er það, að ríkið yfirtaki jarðirnar. Aðrahvora þessara tveggja leiða verður að fara, og vildi ég láta það koma fram, áður en málið fer héðan úr d., að þessi ábúðarlög eru aðeins ein hliðin á því stóra máli, sem hér er um að ræða. Er eftir að leysa úr mörgum verkefnum, áður en talið verður, að sæmileg lausn hafi fengizt á þessu máli, og ég er viss um það, að ekki verða gerðar betri ráðstafanir fyrir sveitirnar en að hindra það ólag, sem verið hefir um eignaryfirráð landsins. Það eru og sýnileg greinileg straumhvörf í þessum efnum, því að augu bænda hafa nú almennt opnazt fyrir því, hver voði er fyrir dyrum, ef svo fer fram, sem gert hefir undanfarið, og ég veit, að Alþ. kemst ekki hjá því fyrr eða síðar að gera nauðsynlegar ráðstafanir í þessum efnum.

Mig hefði langað til að tala lengra mál um þessi efni og færa til einstök, sorgleg dæmi úr einstökum héruðum um þau áhrif, sem tíðar sölur og uppsprengt verð hefir á þrif búnaðarins, en ég mun þó láta þetta nægja, vegna þess, hve tíminn er naumur, því ég vildi stuðla að því, að frv. næði afgreiðslu á þessum fundi. Ég skal þá snúa mér að þeim brtt., sem ég flyt við frv. ásami hv. 1. þm. Árn., á þskj.748. Þær brtt., sem við minnihlutamennirnir í landbn. fluttum hér við 2. umr., voru allar drepnar, nema ein, sem engu máli skipti í sjálfu sér, en mér þó þótti vænt um engu að síður, að var samþ., því að nú geta hv. dm. ekki lengur borið því við, að ekki megi samþ. brtt. við frv., af því að það verði til þess að hrekja málið milli d., þar sem frv. hvort eð er verður að ganga til Ed.

Þessar till., sem við hv. 1. þm. Árn. flytjum, eru miðlunartill., og vænti ég þess því, að hv. d. geti fallizt á að samþ. þær. Get ég farið fljótt yfir þessar till., því að þær fjalla flestar um atriði, sem eru þaulrædd hér í d. áður.

1. brtt. okkar er við 11. gr. Þar er svo ákveðið, að landsdrottinn sé skyldur til að leggja til nothæf jarðarhús, er nemi 2/3 af landverði jarðarinnar, en eins og ég benti á við 2. umr., er óhugsandi að byggja upp mikinn hl. af öllum leigujörðum landsins á þennan hátt, þar sem landverð flestra þeirra er frá 1—3 þús. kr., og féllst hæstv. atvmrh. enda á þetta við 2. umr. Till. okkar minnihlutamannanna í landbn. um að gera húsaskyldu landsdrottins algera var þá felld, og nú leggjum við hv. 1. þm. Árn. til, að hlutfallstala húsaskyldunnar verði hækkuð upp í 3/4, í stað 2/3 í frv. Er þetta að vísu lítil bót, en þó spor í áttina, og við væntum þess, að hv. d. samþ. þessa miðlunartill. — Þá gerum við ennfremur till. um breyt. á orðalagi þessa ákvæðis, að í stað „nothæf jarðarhús“ í mgr. komi: jarðarhús í góðu lagi, — og er þessi breyt. gerð í samræmi við 1. mgr. gr., sem kveður svo á, að landsdrottni sé skylt að láta öll þau hús vera „í góðu lagi“, sem leigujörð eiga að fylgja, samkv. dómi úttektarmanna. Ennfremur leggjum við til, að hlutfallstala húsaskyldunnar í því tilfelli, að landsskuld sé lægri en 3% af verði lands og jarðarhúsa, verði hækkuð úr ½ upp í 2/3 af landverði jarðarinnar.

Þá flytjum við brtt. við 12. gr. Við 2. umr. fluttum við minnihlutamennirnir í landbn. till. um að fella 1. mgr. þessarar gr. niður, en sú till. okkar var felld, og leggjum við hv. 1. þm. Árn. nú til, að niðurlag mgr. verði fellt niður, þar sem leiguliði er skyldaður til að sjá um aðdrætti á útlendu efni um allt að 5 km. veg. Er þetta mjög óeðlilegt ákvæði. Þannig væri eftir ákvæðinu svo, ef um 100 km. veg væri að ræða, að landsdrottinn ætti að annast flutningana 95 km., en leiguliði síðustu 5 km., því að vitanlega kemur ekki til mála að reikna leiguliða hlutfallslegan kostnað af flutningunum, heldur er honum rétt að annast þá sjálfum með eigin tækjum. Þetta niðurlagsákvæði mgr. er því ekkert annað en hortittur, og hefir enda enga þýðingu fyrir landsdrottin heldur.

Þá flytjum við brtt. við 7. mgr. þessarar sömu gr., þar sem svo er ákveðið, að ef leiguliði flytur af jörð áður en 6 ár eru liðin frá því hús voru reist á jörðinni, skuli hann eiga endurgjaldskröfu á landsdrottin sem svarar 1/6 af framlagi hans fyrir hvert ár, sem vantar á þann tíma. Benti ég á það við 2. umr., að þetta atriði er nokkurskonar endurtekning á þeim kvöðum, sem lagðar voru á leiguliða áður fyrr, og ef leiguliði t. d. leggur fram allt það til húsa, sem getur í 1. mgr. og vafalaust getur numið allt að helmingi byggingarkostnaðarins, nær ekki nokkurri átt, að hann geti fyrirgert endurgjaldskröfu sinni á 6 árum. Ég hefi og helzt kosið að fella þessa mgr. alveg niður, en áskilja leiguliða í þess stað fulla endurgjaldskröfu á allt framlag sitt eftir mati úttektarmanna, en ég þorði þó ekki að bera fram slíka brtt., af því að ég treysti hv. d. ekki til að samþ. hana, þótt sjálfsögð væri, og í þess stað hefi ég borið fram brtt. um að hækka þetta upp í 12 ár, og vænti ég þess, að hv. d. fallist á þetta, því að það er hið minnsta, — sem hægt er að gera þessu til leiðréttingar.

Þá flytjum við brtt. við fyrri mgr. 13. gr. Þessi gr. fjallar um það, hvernig að skuli fara, þegar leiguliði flytur af jörð og á hús á jörðinni, og er svo ákveðið, að landsdrottinn sé skyldur að kaupa húsin við matsverði, ef þau eru haganleg og nauðsynleg til búrekstrar á jörðinni, að dómi úttektarmanna, en svo kemur: „sbr. þó 11. gr., 2.—4.“, og þar er talað um, að landsdrottni sé vítalaust, ef hann leggur til nauðsynleg jarðarhús, er nemi ½—2/3 af landverði jarðarinnar, eftir atvikum. Er því landsdrottinn samkv. þessu ekki skyldur að kaupa meira af húsum leiguliða en svo, að öll jarðarhús nemi ½—2/3 af landverði jarðarinnar. Leiguliðinn stendur þannig alveg réttlaus gagnvart landsdrottni um þetta og verður að selja honum hús sín við því verði, sem hinn kveður á, eða verða af kaupunum og rífa húsin. Landsdrottinn getur því kúgað leiguliða til þess að selja sér þau hús, sem eru fram yfir það, er 13. gr. ákveður, fyrir það verð, er húsin hafa til niðurrifs. Er þetta hreinasti „vandalismi“, að ganga svo frá 1., að komið geti til mála, að jarðarhús, sem nauðsynleg eru, verði rifin niður, af því að landsdrottinn vill þrýsta niður verði þeirra, og minnkun fyrir Alþingi, ef slíkt ákvæði er ekki numið burt úr frv. Hinsvegar lítur þessi aths. svo meinleysislega út, að ég dreg það af eigin reynslu, að sumum hv. þm. geti hafa sézt yfir þýðingu hennar, ef þeir hafa ekki lesið frv. með því meiri athygli. Ég þykist því mega vænta þess, að hv. d. fallist á að fella þessa aths. niður, eftir að bent hefir verið á þetta.

Við minnihlutamennirnir í landbn. fluttum hér brtt. við 14. gr. við 2. umr., en tókum hana aftur þá; nú flytjum við hv. 1. þm. Árn. hana á ný. Fjallar þessi till. um það; að fyrningargjaldið eða leiguliðabótin verði lækkuð frá því, sem er í frv., þannig að hún nemi ¼—½% af steinhúsum, í stað 1/3—2/3% í frv., og ½—1% af húsum úr öðru efni, í sta𠾗1½% eftir frv. Ég færði rök fyrir því við 2. umr., af hverju mér þætti leiguliðabótin of há eftir ákvæðum frv., miðað við það, sem við annars gætum hugsað okkur um varanleik húsanna. Minnist ég þess, að hæstv. atvmrh. sagði í svarræðu sinni þá til mín m. a., að torfbyggingar mundu varla endast lengur en 38 ár, en ég get sagt það, að í sumum héruðum, þar sem ég þekki til, eins og víðast á Norðurlandi, endast þær helmingi lengur, en ég veit hinsvegar, að í votviðrasömum héruðum endast torfhúsin skemur, enda eru þau að leggjast þar niður. Ég minnist og þess, að þetta atriði var rætt hér allmikið í fyrra, og þáv. hv. 2. þm. Reykv. (Einar Arnórsson), sem tók mikinn þátt í afgreiðslu ábúðarlagafrv. þá og flutti við það margar brtt., er margar voru til bóta á frv., féllst á það í umr., að þetta hundraðsgjald, sem við hv. 1. þm. Árn. gerum till. um, mundi vera nægilegt, og niðurstaðan varð sú við atkvgr., að það var samþ., og ég hygg mótatkvæðalaust hér í þessari hv. d., og vænti ég þess, að hv. d. hafi ekki skipt um skoðun í þessu efni frá því í fyrra og samþ. því till., enda er sjálfsagt að miða þessa tölu sem næst við það, sem ætla má um endingu húsanna.

Þá kem ég að fimmtu og síðustu brtt. okkar, við 42. gr., er fjallar um jarðabætur, er landsdrottinn gerir á jörð sinni án þess að hafa náð samkomulagi um það við leiguliða. Urðu miklar umr. um það hér við 2. umr., hvort rétt væri að skylda leiguliða til að svara út jarðabót með álagi. Var till. frá okkur minnihlutamönnunum í landbn. þá felld, þess efnis, að burt félli ákvæði gr. um það, að leiguliði væri skyldur til að svara jarðabótinni í góðu lagi eða með álagi, og nú berum við hv. 1. þm. Árn. fram till. aðeins um það, að álagsskyldan verði felld niður. Við getum ekki fallizt á, að álag eigi að greiða af mannvirki slíku, sem hér um ræðir, af því að með álagi er átt við það, að hlutnum sé skilað aftur í sama ásigkomulagi og tekið var við honum upprunalega. Nú má ganga út frá því sem gefnu, að afgjald jarðarinnar hækki í réttu hlutfalli við tilkostnað við jarðabótina, og á leiguliði að standa skil á því, og auk þess á hann að halda mannvirkinu við. Það yrði því um tvöfaldan skatt að ræða, ef leiguliði ætti svo við brottför að greiða álag á jarðabótina. Annað mál er það, að leiguliða ber að halda jarðabótinni vel við, enda brestur ekki ákvæði í frv., sem tryggja það. Þar sem svo var og að heyra á hæstv. atvmrh., að hann teldi það þýða eitt og hið sama, „í góðu lagi“ og „með álagi“, vænti ég þess, að samkomulag geti orðið um að fella hið síðara burt. Mér líkar illa þetta orðalag, enda hefi ég fátt meira hatað en einmitt þessa álagsskyldu, sem leggur á leiguliða kvaðir, sem hann getur aldrei vitað, hvað miklar verða, og á enda rót sína að rekja aftur til konungsvaldsins.

Þá höfum við einnig leyft okkur að leggja til að bæta aftan við fyrri málsgr. 42. gr., þar sem svo er ákveðið í niðurlagi þeirrar málsgr., með leyfi hæstv. forseta:

…. Ennfremur ber honum að gjalda árlega þá hækkun á eftirgjaldi, sem metin er fyrir jarðabótina“. Þarna viljum við bæta við: „enda fari það gjald ekki fram úr almennum útlánsvöxtum Búnaðarbanka Ísl. af kostnaðarverði jarðabótarinnar“. Ég vil geta þess, að þetta er í fullu samræmi við niðurlag 40. gr., þar sem svo er ákveðið, að ef leiguliði gerir jarðabætur án samþykkis jarðeiganda, skuli hann fá greidda tólffalda þá upphæð, sem metið er, að hækka megi landskuldina þeirra vegna, „en þó ekki yfir kostnaðarverð jarðabótanna, að frádreginni fyrningu“. Við í minni hl. landbn. vildum fella niður þetta niðurlag 40. gr. við 2. umr., en því fékkst ekki framgengt, og er þá sjálfsagt að láta 42. gr. vera í samræmi við það, þannig að það sama gangi yfir landsdrottin og leiguliða, að hann geti aldrei fengið meira fyrir sína jarðabót heldur en sem svarar venjulegum vöxtum af kostnaðarverði jarðabótarinnar.

Ég hefi nú farið í gegnum þessar brtt. og skal svo ekki að sinni lengja mál mitt frekar.

Ég sé ekki ástæðu til að koma neitt inn á brtt. hv. 1. þm. S.-M.; það er ekki mitt að svara fyrir þær að neinu leyti. En um þær í heild sinni get ég sagt það, að ef ætti að samþ. þær allar eins og þær liggja hér fyrir, þá hygg ég, að við gætum alveg eins slegið striki yfir frv. og búið áfram við ábúðarlögin frá 1884. Því með brtt. þessum er farið fram á að fella úr frv. ýmsar aðalbreyt. frá gildandi lögum, t. d. ákvæðið um æfiábúð. Eins og það ákvæði er orðið nú í frv. er það líkast sáldi, sem lekur allmiklu, en ef brtt. hv. 1. þm. S.-M. væru samþ., er sem botninn væri tekinn úr sáldinu. Þannig mætti benda á fleira, sem miðar að því að gera frv. áhrifalaust. Hinsvegar get ég fallizt á sumar þær smærri af brtt. og tel þær til bóta; ég tala hér aðeins um þær, sem verulegu máli skipta.

Hv. þm. vill ekki hafa nein ákvæði í frv. um, hvað gjalda eigi eftir innstæðukúgildi á leigujörðum; það á að vera „eftir samkomulagi“. Við erum nú hér á þingi að afgr. lög um okur, þar sem bannað er að taka hærri vexti en þar er tiltekið. Liggur í hlutarins eðli, að það er eins skylt að hafa eitthvert hámark um, hvað taka megi eftir kúgildin, því það er aðeins önnur leið til þess að ávaxta fé sitt.