22.05.1933
Efri deild: 78. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 552 í B-deild Alþingistíðinda. (376)

1. mál, fjárlög 1934

Jónas Jónsson:

Það er leiðinlegt, hve hæstv. dómsmrh. þolir illa, að minnzt sé á verk hans. En þau verk tala nú samt ekki síður en ýms önnur.

Ég get svarað þeim hæstv. dómsmrh. og hv. 1. landsk. í einu lagi. Það var hv. 1. landsk., sem fyrstur notaði Óðinn í snattferð til Borgarness 1926, er ráðherrann kom frá að reyna að fella Sig. Eggerz í Dölunum. En framhjá þessari staðreynd reyna íhaldsmenn auðvitað að smeygja sér, og þá ekki síður þeirri, að landhelgisgæzlan hefir hvorki fyrr né síðar verið betur rækt en í tíð fyrrv. stj. Hitt er gert að æsingamáli, er við frambjóðendur til landskjörs 1930 fórum með varðskipunum í þágu 30 þús. kjósenda. Þessi notkun varðskipanna var alveg óhlutdræg, þar sem hún var fyrir frambjóðendur af öllum flokkum. Hæstv. dómsmrh. hefir verið í skagfirzku kosningasnatti á hestum úr stjórnarráðinu. (Dómsmrh.: Nei!) Víst lét hann sækja sig norður á þeim hestum.

Þá var það gert að umtalsefni, að stj. hefði í minni tíð haft 3—4 bíla í sinni þjónustu. Nú er það kunnugt, að stj. hefir í þjónustu sinni fjölda embættismanna, sem þurfa að ferðast um landið vegna starfa sinna. Svo er um húsameistara, verkfræðinga og ýmsa fleiri. Þannig var hv. 1. þm. Rang. 3 vikur í bíl austur á Skeiðum vegna áveitumálanna. Þetta hefir orðið beinn sparnaður fyrir það opinbera, enda veit ég ekki betur en hæstv. dómsmrh. hafi bíl ennþá. Rvíkurbær hefir 3—4 bíla í sinni þjónustu, og eru vegalengdir skemmri þar en á því svæði, er ríkisstj. hefir yfir að segja.

Annars voru svör hæstv. dómsmrh. að mestu klaufalegir útúrsnúningar. Hann kvað rannsóknina út af Hesteyrarmálunum hafa kostað 10 þús. kr., en þar í var oftalin leiga fyrir skip, sem var úti á sjó hvort sem var, og engar tekjur mundi hafa af því. Tap verkafólksins á málunum hafði orðið um 60 þús. kr., og telja má líklegt, að rannsóknin hafi orðið til þess, að slíkt endurtakist ekki framvegis.

Þá sagði hæstv. dómsmrh., að Knud Zimsen hefði sagt sér, að hann væri saklaus, og þyrfti þá ekki frekar vitnanna við. En því gat hann ekki látið sjálfsögð plögg fylgja bókunum? Það verður varla þungt á metunum hjá almenningi, hverju Knud Zimsen hefir hvíslað að þessum vini sínum og flokksbróður um leið og hann tók gilda afsökun hans. Framvegis ætti neitun frá sakborningi að vera nægileg til þess að réttvísin falli frá ákæru. Slíkt hefði verið auðvelt fyrir Alberti á sinni tíð.

Kæra út af framferði Íslandsbankastjórnarinnar hafði borizt til lögreglustj. Ég setti þá þriggja manna nefnd til að athuga stjórn bankastjóranna á bankanum, og í henni var m. a. Einar Arnórsson, sem hæstv. dómsmrh. skipaði í hæstarétt. Sú skýrsla, er nefndin gaf, er að nokkru prentuð í Alþt. Ég vissi, hvað íhaldið ætlaðist fyrir. Hefði ég viljað líma mig fastan við ráðherrastólinn var ekkert hægara fyrir mig en að segja: „Ykkur eru ykkar syndir fyrirgefnar“. En ég tel mér meiri heiður að því að falla á máli sem þessu máli Íslandsbankastjóranna en að láta það afskiptalaust.

Það er auðvitað ekkert annað en „grín“ hjá hæstv. dómsmrh., að ég hafi búið til dóminn yfir honum. Sá dómur var gerður af hæfari lögfræðingi en hæstv. dómsmrh. er sjálfur og dómara, sem ekki lét ógnanir Mgbl. né stjórnarinnar hafa áhrif á sig.

Flokkur hæstv. dómsmrh. hefir dæmt Sigurð Eggerz hart. Það var af beinu vantrausti út af stjórn hans á Íslandsbanka, að flokkurinn varnaði honum þingsætis í Rvík og sendi hann í útlegð til Ísafjarðar.

Hæstv. ráðh. gat engri vörn komið fram út af náðunum sínum. Whisky náðunin er alveg fordæmislaus, enda voru margir vinir og flokksbræður hæstv. ráðh. bendlaðir við það mál. Sama er að segja um náðunina út af fölsunarmálinu, sem varpað hefir skugga á oss hjá erlendum þjóðum.

Það er ósatt, að ég hafi lofað Flygenring náðun. En ég lét í ljós við hann, að eftir góða hegðun myndi ég gera hið sama fyrir hann og aðra, sem líkt stæði á fyrir. Það, sem hæstv. ráðh. hefir eftir hv. 2. þm. Rang., er því ósatt. Ég sagði aldrei annað en að ég myndi athuga náðun á sínum tíma, ef hægt væri.

Hæstv. ráðh. hrósaði sér af framgöngu sinni í áfengismálunum. Já, sá má nú trútt um tala. Ég veit ekki betur en að sá maður, sem bezt hefir gengið fram gegn bruggurum og leynisölum og nú síðast hefir gripið hinn alræmda Höskuld, sé Björn Blöndal, sem ég skipaði í þessu skyni. Ég útvegaði honum þar að auki aðstöðu til að nota símabílinn til eftirlitsferða, en í tíð fyrrv. símstjóra var sá bíll leikfang þess embættismanns. En hvað segir svo Mgbl., aðalblað hæstv. dómsmrh., um hina ágætu framgöngu þessa manns? Aldrei hafa greinar með slíku skrílsmarki birzt í Mgbl. um nokkurn mann eða málefni, og er þá mikið sagt. Hastar hæstv. dómsmrh. á þetta flokksblað sitt? Nei, hann samþykkir ósómann með þögninni.

Ég var ofsóttur í fyrra fyrir að lengja vínveitingatímann á Borg, til þess að þar yrði minna fyllirí. En síðan hæstv. dómsmrh. tók við, hefir hann þrásinnis veitt vínveitingaleyfi langt fram á nótt, bæði á Borg og annarsstaðar. Um þetta þegir Mgbl., af því að þetta er ósómi.

Um Tervanimálið þarf ekki að ræða. Eftir að þakkarbréfið kom frá Chamberlain, var íhaldið alveg kveðið í kútinn í því máli.

Hæstv. ráðh. talaði um, að hæstiréttur hefði fengið lof í útlöndum. En ég get fullvissað hann um, að Einar Einarsson hefir ekki getið sér minni orðstír á þeim vettvangi.

Um yfirstjórn varðskipanna er það að segja, að togaratökur og bjarganir hafa svo að segja horfið síðan þar urðu yfirmannaskipti. Ég hafði falið þessa yfirstjórn Pálma Loftssyni, sem var manna hæfastur, án þess að það kostaði ríkissjóð einn eyri. En hæstv. dómsmrh. felur hana óhæfum manni fyrir 4000 kr. á ári. Ég álít, að ekki sé hægt að deila á mig, þótt ég svipti ekki Guðmund Sveinbjörnsson þessum tekjum það árið, sem hann varð að leita sér heilsubótar vegna sjúkleika og kona hans var einnig sjúk. En ég færði yfirstjórn varðskipanna til skipaútgerðarinnar, vegna þess að ég vissi, að henni var betur borgið þar. Við Guðmundur Sveinbjörnsson deildum um þetta atriði, en ég lét það ráða úrslitum, að ég taldi landhelgisvörnunum þessa breyt. fyrir beztu.