22.03.1933
Efri deild: 31. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 267 í C-deild Alþingistíðinda. (3761)

116. mál, salerni í sveitum

Flm. (Bjarni Snæbjörnsson):

Ég þarf ekki að láta nema fáein orð fylgja þessu frv. Í grg. er minnzt á, af hverju frv. þetta er fram borið, og fram á það sýnt, hversu mikil nauðsyn er á því. Veit ég, að engum blandast hugur um, að svo er. Það hefir nokkuð verið ritað um það megna sleifarlag, sem er á þessu, ég vil segja bæði heilbrigðis- og menningarmáli, og ber það vott um, maður getur sagt hálfgerðan skrælingjahátt. En þrátt fyrir þessi skrif, þ. á m. fyrir nokkrum árum í almanaki Þjóðvinafélagsins, hefir lítill árangur sézt. Og þeir, sem málinu eru kunnastir, telja, að því muni seint verða kippt í lag á annan hátt en með lagaboði. Er því frv. þetta fram komið. Það getur vel verið, að einhverjir líti öðrum augum á einstök atriði þessa máls en við flm., t. d. hve mikið skuli styrkja þetta og eins hitt, hve víðtækt það eigi að vera, hvort það eigi ekki að ná til sjávarþorpa líka. En þessu öllu má breyta í n., ef þurfa þykir. - Ég tel, að rétt muni að vísa þessu frv. til hv. landbn. og ber fram till. um, að svo verði gert.