22.03.1933
Efri deild: 31. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 267 í C-deild Alþingistíðinda. (3762)

116. mál, salerni í sveitum

Halldór Steinsson:

Það má segja, að þetta sé þrifamál, og mun ég því sízt leggjast á móti því. Frá heilbrigðissjónarmiði er nauðsynlegt að koma þessu máli í gott horf. En að því er þetta frv. snertir, þá er ég þó ekki fyllilega ánægður. Það tilgreinir aðeins sveitirnar, og að því leyti tel ég, að það nái of skammt. Það er vafalaust þörf á því, að þessi skylda nái einnig til kauptúnanna. Er því að mínu áliti réttara að gera skylduna almenna. Mætti gera það á þann einfalda hátt að sleppa úr frv. orðunum „í sveitum“. Gilti þá ákvæðið almennt. Eins og nú er, er almenn skylda um þetta í kaupstöðum, og einnig er þetta gert að skyldu í heilbrigðissamþykktum margra kauptúna. En í mörgum sjávarþorpum er þó ekki svo, og ná l. því ekki tilgangi sínum, ef þau eru einskorðuð við sveitirnar. En ég er ekki heldur ánægður með kostnaðarhlið þessara framkvæmda eftir frv. Mér þykir óþarfi að láta ríkið leggja fram mikið fé til þessa. Þetta kostar ekki nema örlítið fé, og má gera ráð fyrir því, að hvert heimili sé fært um að annast framkvæmd þessa á eigin spýtur. Ég vil því fella úr frv., að ríkissjóður leggi til þessa.

Þá þykir mér það vera nokkuð hátíðlegt ákvæði í frv., að ráðh. skuli setja reglur um framkvæmd þessa verks. Ég hélt hún gæti orðið í sæmilegu lagi, þótt gerð væri eftir ákvörðun hreppsnefnda, máske í samráði við héraðslækni. Ég set þessar aths. fram til þess, að hv. n. gefist kostur á að taka þær til athugunar.