22.03.1933
Efri deild: 31. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 268 í C-deild Alþingistíðinda. (3763)

116. mál, salerni í sveitum

Guðmundur Ólafsson:

Ég var spurður að því nú, er ég yfirgaf forsetastólinn, hvort ég þyrfti á salerni að halda. - Það er nú víst að sumu leyti rétt, að ég þurfi að koma þar við. - Ég vildi lítillega víkja að því, sem hv. þm. Snæf. sagði. Hv. aðalflm. viðurkenndi nú reyndar, að það, sem athugunarvert þætti við frv., mætti laga í n., og voru aðfinnslur hv. þm. Snæf. þess eðlis, að ætlazt mætti til, að n. taki þær til athugunar og lagfæri frv. samkv. því, eftir því sem ástæða þykir til. Það er rétt, sem hv. þm. Snæf. tók fram, að salerni mun víða vanta í kauptúnum og sjávarþorpum, jafnvel ekki loku fyrir skotið að slíkt hittist líka í kaupstöðum. Og sízt er betra, að slíkt ástand eigi sér stað í þéttbýlinu en í sveitunum, þótt vitanlega sé það hvergi ánægjulegt, að salerni vanti.

Þá fór hv. þm. að tala um einhvern hátíðleik í frv. - Ekki ætti það nú að vera neitt verra, þó það væri að einhverju leyti hátíðlegt. Skoða ég það frekar sem lof en last.

Þá þótti hv. þm. frv. tiltaka of háan styrk fyrir þessar framkvæmdir. Sá styrkur er þó ekki hærri en sá, sem tiltekinn er í jarðræktarl. - Hann taldi tæplega þörf á svona miklum styrk. En þetta kostar þó mikið, ef byggðar eru góðar safnþrær í sambandi við salernin, en það er nauðsynlegt í sveitum áburðarins vegna og auk þess heppilegast fyrirkomulag.

Við flm. gerum þó ekki að neinu sérlegu kappsmáli, hvort styrkurinn verður ákveðinn hærri eða lægri, og ekki heldur hin önnur atriði, sem á hefir verið minnzt. Fyrir okkur vakir það fyrst og fremst, að aðaltilgangur frv. náist. Við vonum, að hv. n. lagi þetta eftir því sem við þykir eiga, eftir nánari athugun. Og við vonum, að hún álíti þetta ekkert hégómamál, sem ekki sé eyðandi tíma í að athuga og afgreiða. Vonum við, að hún afgr. frv. fljótlega og liggi ekki eins lengi á því eins og við hefir brunnið um ýms önnur frv. hér, því miður.