22.05.1933
Efri deild: 78. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 555 í B-deild Alþingistíðinda. (377)

1. mál, fjárlög 1934

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Mig furðar ekki þótt bílakostnaður landsins gæti orðið nokkuð hár, ef mörg dæmi eru lík því, sem hv. 5. landsk. nefndi, að viss maður hafi verið með bíl í 3 vikur fyrir austan fjall. (JónasJ: Það var sjálfur Jón Ólafsson). Það kemur ekki málinu við. Það er eins og menn hafi beinlínis verið ráðnir til að vera með bílana vikum saman. Hv. þm. sagði, að ég hefði ennþá bíl fyrir mig. Þetta er ósatt, því að ég seldi bílinn, strax og ég tók við stjórn. En sjálfur hafði hv. 5. landsk. í sinni ráðherratíð bílstjóra fyrir 300 kr. á mánuði, sem ríkið varð að borga, auk alls benzíns á 15000 km. keyrslu. (JónasJ: Hvað borgar stjórnin sínum bílstjóra nú?)

Út af Hesteyrarmálinu er það að segja, að það er misskilningur, ef hv. 5. landsk. heldur, að rannsóknin hafi leitt til þess, að verkafólkið hafi nokkuð fengið endurgreitt, þótt hann sendi „Þór“ vestur með rannsóknardómarann. (JónasJ: Það verður kannske ekki svikið aftur). Það var um engin svik að ræða. En hv. 5. landsk. sveik ríkissjóðinn, þegar hann tók „Þór“ úr vetrarlægi og sendi hann þessa forsending, sem kostaði um 10000 kr.

Þá er það borgarstjórakvittunin. Borgarstjóri sýndi mér kvittunina. Hann hafði aldrei verið krafinn um hana áður og hafði það verið látið hjá líða, til að geta notað málið í kosningum. Þessi kvittun sannaði sakleysi borgarstjóra Knud Zimsen, enda datt víst engum í hug, að hann væri sekur.

Hv. 5. landsk. kvaðst ekki hafa kært sig um að líma sig við ráðherrastólinn. En mér er kunnugt um, að skömmu áður en hv. 5, landsk. veltist úr völdum, fóru fram skrítnar atkvgr. innan Framsóknarflokksins, þar sem hv. þm. hafði boðið ekki svo lítinn afslátt til að lafa áfram. (JónasJ: Þetta er gersamlega ósatt. — J. Bald: Hæstv. dómsmrh. er í miðstjórn Framsóknarflokksins.) Mér er þetta vel kunnugt. (JónasJ: Vill þá hæstv. ráðh. ekki sanna þetta?) Hv. 5. landsk. veit, að það er ekki hann, sem nú hefir orðið, og ætti að hafa vit á að þegja. (JónasJ: Ég er dauður). Já, pólitískt dauður! Ég get vel sannað þessi ummæli mín um atkvgr. Atkvgr., sem ég átti við, var um hlutfallskosningu í tvímenniskjördæmunum.

Þá er það whiskynáðunin svo nefnda. Mér er kunnugt um, að hv. 5. landsk. hefir sjálfur náðað skipstjóra fyrir whiskysmyglun. Það út af fyrir sig hneykslar mig ekki, a. m. k. ekki eins og að hv. þm. skuli hafa náðað sjálfan sig. Hv. þm. ætti því ekki að tala um whisky-náðun, enda vísa ég því alveg frá mér.

Þá kemur að Höskuldi. Hann bruggaði alla ráðherratíð hv. 5. landsk., svo að það var á hvers manns vitorði, án þess að við honum væri hreyft. Það er rétt, að ég hefi ekki „skapað“ Björn Blöndal, en ég sé enga ástæðu til að flytja hv. 5. landsk. sérstakt þakkarávarp, þótt hann hafi einu sinni skipað hæfan mann í stöðu. Ég ætla ekki að fara að verja Mgbl., sem hv. 5. landsk. er svo hræddur við. En það er óþarfi fyrir hann að hafa allt á hornum sér við það blað, því að það er ekki það, sem leikið hefir hann gráast, heldur hans eigin verk.

Hv. 5. landsk. veitti leyfi til vínveitinga fram á nótt á Borg á hverju kveldi. Ég hefi lengt þennan tíma einstaka kveld, er sérstaklega hefir staðið á, en slík leyfi hafa verið veitt á öðrum stöðum áður af lögreglustjóra.

Þá er það þakkarbréfið frá Chamberlain. Það er auðvitað hægt að fá þakkir fyrir að taka 20—30 þús. af annara fé og gefa það. En ég býst við, að Chamberlain hefði skilað þessari gjöf aftur, hefði hann vitað, hvernig hún var til komin.

Þá talaði hv. þm. um, að færri togarar væru teknir en áður og færri strönd kæmu fyrir. Varðskipin eiga fyrst og fremst að varna því, að togarar fari inn í landhelgina. Vitanlega er bezt, að strönd séu sem fæst, enda sjaldnast hægt að bjarga skipum, er stranda hér við land. Varðskipið var í þriggja vikna tíma við að reyna að bjarga togara, sem strandaði við Melrakkasléttu. Sú björgun mistókst þó með öllu. Auk þessa er það ljóst, að áraskipti eru að ströndum og því mismunandi tækifæri til björgunar að því leyti. Annars finnst mér það ekki árásarefni á mig, þó að fá skip strandi.