29.05.1933
Neðri deild: 86. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2425 í B-deild Alþingistíðinda. (3775)

93. mál, ábúðarlög

Frsm. meiri hl. (Pétur Ottesen) [óyfirl.]:

Það var nú svo, er landbn. afgreiddi þetta mál til 2. umr., að ég var frsm. meiri hl. landbn. Vorum við þrír úr n. meðmæltir því, að frv. yrði samþ. óbreytt og eins og það kom frá Ed. Þessi aðstaða okkar meiri hl. n. byggðist á því, að okkur virtist sem hæstv. atvmrh. hefði með undirbúningi þessa máls fyrir þingið tekizt að finna samkomulagsgrundvöll fyrir þær skoðanir, sem verið höfðu um þetta mál og valdið höfðu miklum deilum á undanförnum þingum. Og þótt við hefðum viljað ganga lengra inn á þá braut, sem hæstv. atvmrh. hafði beint málinu inn á, þá fannst okkur þó vera forsvaranlegt að afgreiða það í því formi, sem það var afgr. í frá Ed. Og því fremur tókum við þessa afstöðu, þar sem brýn þörf er á því orðin að gera breyt. á ábúðarlögunum, sem eru gömul og úrelt orðin á margan hátt og komast þurfa því í samræmi við breytta búnaðarháttu.

Brtt. þær, sem minni hl. landbn. bar fram, gengu í þá átt að draga úr þeim ákvæðum, sem hæstv. atvmrh. hafði sett inn í frv. Voru þær því skerðing á þeim samkomulagsgrundvelli, sem fenginn var og við gátum sætt okkur við. Okkur var því ekki hægt að aðhyllast þær, enda féllu þær allar við 2. umr., að undantekinni einni smábreyt. Nú hafa þeir hv. 1. þm. Árn. og hv. 1. þm. Skagf. tekið upp í breyttri mynd þessar till., er felldar voru við 2. umr. Hefir hæstv. atvmrh. þegar gert grein fyrir andstöðu sinni gegn þeim. Get ég skírskotað til ummæla hans um þær og hefi engu þar við að bæta.

Þá hefir hv. 1. þm. S.-M. komið fram með margar brtt. við þessa umr. Hafa þessar till. allar verið teknar til athugunar á fundi landbn. í morgun. Af þeirri athugun hefir svo leitt, að 4 af 5 nm. hafa borið fram miðlunartill., sem að nokkru leyti ganga til móts við till. hv. 1. þm. S.-M. og að nokkru leyti til móts við till. þeirra hv. 1. þm. Skagf. og hv. 1. þm. Árn. Ég skal lýsa því yfir, að ég tók engan þátt í tilbúningi þessara brtt. og tala því ekki sem frsm. þeirra. Ég hefi nú heyrt, að þessar miðlunartill. geðjast ekki hv. 1. þm. S.-M., og virðast þær því lítinn árangur hafa borið. Hv. þm. vill ekki sætta sig við þær og telur þær nær enga umbót frá því, sem nú er í frv. Mér skilst líka, að ekki hafi með þeim náðst samkomulag við hv. 1. þm. Skagf., því hann mun vilja halda sínum brtt. sumum hverjum til streitu, þótt þessar miðlunartill. verði samþ., enda snerta þær ekki neitt eina eða tvær af hans brtt.

Mín afstaða til þessa máls er óbreytt frá því, sem hún var við 2. umr. Ég álít forsvaranlegt að samþ. frv. eins og það er nú, þótt ég viðurkenni fyllilega, að sumar brtt. hv. 1. þm. S.-M. séu til bóta. En að öðru leyti geta þær þó sumar hverjar valdið misskilningi, ef þær eru samþ. óbreyttar. En þar sem nú dregur nær þinglokum, þá gæti samþykkt stórfelldra brtt. orðið þess valdandi, að frv. dagi uppi. Ég tel því einu líklegu leiðina til þess að frv. nái samþykki þá, að það verði afgr. nú án frekari breyt. en á því varð við 2. umr. En sú breyt. getur vart orðið til þess, að málið nái ekki afgreiðslu í Ed. Hinsvegar er mér kunnugt um, að ef gerðar eru efnisbreyt. jafnstórfelldar og felst í brtt. hv. 1. þm. S.-M. og hv. 1. þm. Skagf., að Ed. mun ekki fallast á þær, og gæti það því orðið til þess, að frv. næði ekki fram að ganga á þessu þingi, sem mun vera sjötta þingið, sem hefir þetta mál til meðferðar.

Brtt. hv. 1. þm. S.-M. eru svo víðtækar, að þær þyrftu meiri athugun en tími hefir verið til. Þyrfti að athuga gaumgæfilega, hvort þær komi ekki í bága við önnur ákvæði frv. og raski efni þess og samhengi.

Hv. 1. þm. Skagf. fór nokkrum almennum orðum um jarðnæðismálið í byrjun 3. umr. Ég mun ekki fara út í þá sálma að þessu sinni. Hv. þm. taldi, að það væri mjög stór og verulegur þáttur í erfiðleikum sveita, hversu háttað væri um byggingar á leigujörðum, og hitt líka, að eignarréttur á jörðum væri svo óheftur sem hann er. Hann benti á strauminn til kaupstaðanna síðustu árin og vildi skrifa hann á reikning þessa fyrirkomulags. Ég held, að ýmislegt fleira komi til greina í þessu sambandi. Langsamlega stærsti þátturinn í aðstreyminu til bæjanna er sá, að sjávarútvegurinn tók hraðari framförum en landbúnaðurinn, varð fljótari til að tileinka sér hentugustu tæki og aðferðir á þeim tíma, meðan allur landbúnaður í landinu var rekinn með aldagömlu sniði, sem orðið var úrelt, miðað við nágrannalöndin, sem við verðum annaðhvort að selja afurðir okkar eða keppa við. Þegar síðan er hafizt handa um að breyta sveitunum og færa búskapinn í nútíðarform með aukinni ræktun og vélum í stað mannsaflsins og búið er að verja stórfé til þess, dynja þau ósköp yfir, að afurðaverðið fellur um 50—60% á þrem árum. Þetta hefir gert sveitunum erfitt og ókleift að bera uppi kostnaðinn við húsa- og jarðabætur. Framkvæmdirnar hafa því ekki orðið eins og nú er komið til að gera afkomumöguleikana glæsilegri, heldur þvert á móti, svo að straumurinn til kaupstaðanna heldur áfram. Þetta hefir valdið strauminum miklu fremur en það, hve ástatt er um eignarhald á jörðum og sambúð leiguliða og landsdrottins. Ég er þess fullviss, að ef sjálfsábúð í sveitum hefði ekki aukizt með kaupum á þjóð- og kirkjujörðum og fjölmörgum jörðum úr einstakra manna eigu, hefði þessi straumur orðið enn hraðari. Því einmitt það, að hafa bundið í jörð eigindóm sinn og tengt við hana framtíðarvonir, hefir framar öllu hindrað, að menn leituðu til kaupstaðanna. Því er alveg víst, að það er ekkert viðreisnarspor fyrir sveitirnar að stöðva þjóðjarðasölu, eða að ríkið fari að kaupa jarðirnar, heldur þvert á móti. — Hitt úrræðið, sem hv. þm. benti á, óðalsrétturinn, er að vísu gamlar leifar af stéttarhagsmunum, en vel má þó vera, að þær leifar hafi í sér almennt gildi, svo að rétt væri að taka þetta atriði til athugunar. Það felur a. m. k. í sér þá tryggingu, að sá, sem hefir atvinnureksturinn með höndum, eigi sjálf tækin. Og það verður ávallt bezta tryggingin til að knýja fram allan þann dugnað, sem býr í hverjum manni. Og auk þess sem þetta er nauðsynlegur grundvöllur atvinnulífsins, er þetta sterkasta aflið til að standa í gegn þeim byltingum, er nú ganga yfir og fá beztan jarðveg hjá þeim, sem selja öðrum vinnu sína og hafa ekkert fast við að styðjast.

Ég get svo lokið máli mínu og vil ítreka það, að öruggasta leiðin til að fá málið afgr. er að samþ. það breytingalaust.