07.04.1933
Neðri deild: 47. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 273 í C-deild Alþingistíðinda. (3791)

100. mál, siglingalög

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Með þessu frv. er farið fram á, að sjóveðréttur samkv. 11. kafla siglingalaganna frá 1914 fyrir kröfum skipstjóra og skipshafnar til kaups og annarar þóknunar, sem þeir eiga lögmætt tilkall til fyrir starf sitt í þjónustu skipsins, skuli einnig ná til vátryggingarfjár skips og farmgjalds meðan það er ekki af höndum greitt. Einnig eru gerðar ráðstafanir til þess með þessu frv., að ekki sé greitt vátryggingaféð fyrr en nokkur tími er liðinn frá því er sjópróf var haldið út af skiptapi.

Hér er ekki farið lengra inn á það svið en svo, að gera kröfu til sérréttinda fyrir kaupi skipshafnar og skipstjóra, en vitanlega ná ákvæði um sjóveðrétt samkv. 11. kafla siglingalaganna til fleiri aðila en hér um ræðir.

N. hefir kynnt sér þetta mál allýtarlega og borið það undir lögmanninn í Reykjavík, og fylgir álit hans hér með. Eins og sjá má, kemst hann að þeirri niðurstöðu, að óheppilegt sé að gera breytingar eða setja sérákvæði inn í siglingalögin á þessu stigi málsins, og ekki sízt vegna þess, að nú liggur fyrir að endurskoða siglingalöggjöfina, til þess að samræma hana við gildandi alþjóðaákvæði, sem Ísland mun hafa gengizt undir. Gæti þetta því komið til greina við hina almennu endurskoðun laganna.

N. spurðist sérstaklega fyrir um það, bæði hjá lögmanni og Sjóvátryggingarfélagi Íslands, hvaða venja hefði gilt í þessu efni undanfarið. Svaraði lögmaður því, að engin venja hefði myndazt um þessi atriði hér. Samkv. þessu komst n. að þeirri niðurstöðu, að rétt væri að vísa þessu máli til stjórnarinnar og ganga þá út frá því, að ákvæði, sem snertu sjóveðréttinn, verði athuguð um leið og hin almenna endurskoðun á siglingalögunum fer fram.

Ég skal þá aðeins geta þess, af því að nál. er ekki undirskrifað af öllum nm., að einn var veikur þegar málið var afgr., nefnilega hv. þm. Barð.