27.05.1933
Neðri deild: 84. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 557 í B-deild Alþingistíðinda. (382)

1. mál, fjárlög 1934

Frsm. fyrri kafla (Ingólfur Bjarnarson):

Ég þarf ekki að hafa langt mál fyrir n. hönd. Ég skal fyrst benda á, sem vitanlegt er öllum þdm. að vísu, að frv. þetta hefir tekið ærnum breyt. frá því er það var lagt fyrir þingið. Þá var tekjuafgangurinn samkv. frv. 350 þús. kr., en nú, þegar frv. kemur frá Ed., er tekjuhallinn 477 þús. kr. Þetta er stórfelld breyt., en til skýringar skal þó tekið fram, að tekjuáætlunin hefir verið lækkuð í meðferð þingsins um 347 þús. kr., eða sem næst því, sem tekjuafgangurinn var, þegar frv. var lagt fram, svo að tekjuhallinn, sem nú er — 477 þús. kr. — er sem næst því sú útgjaldaaukning, sem komið hefir fram við meðferð þingsins, að frádreginni þó útgjaldalækkun, sem nam á annað hundrað þús. kr. Ég vil benda á það, að eins og d. er kunnugt, var það eindregin skoðun fjvn., er frv. var hér fyrir d. við f. umr., að brýnustu nauðsyn bæri til að draga sem mest úr útgjöldum frv., að svo miklu leyti sem fært þótti, og n. stefndi að því marki í störfum sínum, enda verður að segja, að það kom í ljós, að d. féllst að miklu leyti á þá stefnu n., að nauðsynlegt væri að stilla útgjöldunum sem mest í hóf á þeim erfiðu tímum, sem nú standa yfir. En þó varð það svo að vísu, að afgreiðsla frv. frá d. var stórum lakari en n. hefði kosið. En það er þó fyrst í Ed., að tekjuhallinn hefir aukizt gífurlega, og lítur út fyrir, að hv. þm. þeirrar d. líti bjartari augum á ríkisbúskapinn framundan og að þeir telji ekki svo nauðsynlegt að skera við nögl framlög til ýmissa hluta, sem virðast ekki beinlínis nauðsynlegir eða aðkallandi. Væri hægt að nefna mörg dæmi því til sönnunar með því að líta á það, sem samþ. hefir verið í Ed. Ég ætla samt ekki að tefja tímann með því, en vil til skýringar lauslega benda á þá meðferð, sem frv. hefir fengið við hverja umr. hér í þinginu, þ. e. a. s. útgjaldahliðin. Og þá hendi ég fyrst og fremst á það, að við 2. umr. hér í d. lækkaði útgjaldahliðin um fullar 80 þús. kr., en hinsvegar hækkuðu útgjöldin við 3. umr. um 140 þús. kr., svo að hækkun útgjaldanna hér í d. nemur upp undir 60 þús. kr. alls. En í Ed. hækkuðu útgjöldin um 47 þús. kr. við 2. umr. og við 3. umr. aftur um 383 þús. kr. eða alls um 430 þús. kr., og auk þess voru fastbundin útgjöld næstu 4 árin, sem nema 160 þús. kr., og mætti í raun og veru taka það með. Væri það þá samanlagt nærri 600 þús. kr. En rétt er að taka það fram í þessu sambandi, að framlag til atvinnubóta var tekið inn í frv. í Ed., sem nemur 300 þús. kr. og er allveruleg upphæð. Þótt menn líti auðvitað misjafnt á það, hve há sú upphæð hefði átt að vera, þá munu flestir játa, að eitthvað hafi þurft að taka upp í því skyni. En auk þessara útgjalda, sem eru ákveðin í frv., eru samhliða teknar upp heimildir og ábyrgðir í 22. gr., svo miklar og margháttaðar, að ég hygg, að naumast hafi jafnlangt verið gengið áður. Þar kennir svo margra grasa, að það er líkast skáldsögu að lesa þá grein. Nú má vænta og vona, að þessar heimildir verði ekki notaðar nema að nokkru leyti. Því að annars óttast ég, einkum hvað ábyrgðirnar snertir, að þær myndu reynast ærið þungur baggi í framtíðinni, ef þær yrðu notaðar allar.

N. er mjög óánægð með frv. eins og það er nú, þegar það kemur frá Ed., og hún hefði fyrir sitt leyti talið rétt að fella burtu ýmsa útgjaldaliði og ábyrgðarliði úr frv., sem þar eru nú komnir inn, en reynslan hefir fyllilega sýnt, að við hverja umr. fjárl. hafa alltaf bætzt við ný útgjöld, og nema þau venjulega meiru en tekizt hefir að fella niður, þótt tilraun hafi verið gerð til þess. óttast n. mjög, að svo myndi enn fara, þótt reynt yrði að lagfæra frv. nú, enda má benda á það, að ýmislegt, sem n. teldi rétt að fella úr frv. eins og það er nú, kom einmitt inn í d. á móti ákveðnum till. n. Hún getur því ekki vænzt fyllilegs trausts d. til að lækka útgjaldahliðina, þótt gengið væri inn á þá braut. Þess vegna er það, að n. hefir ekki séð sér fært að bera fram brtt. við frv. og hefir komizt að þeirri niðurstöðu, að eftir atvikum vildi hún leggja til, að frv. yrði samþ. nú eins og það liggur fyrir, þótt hún sé á engan hátt ánægð með afgreiðslu þess. Er það aðeins af ótta við það, að frv. kunni enn að versna, að hún styður það nú í þessari mynd, og mér skildist á hæstv. stj., að hún myndi vera líkrar skoðunar í þessu efni. — Ég sé svo ekki ástæðu til að ganga nánar inn á hin einstöku atriði og læt þá nægja það, sem ég þegar hefi sagt um afstöðu n. og till. í þessu efni.