12.05.1933
Neðri deild: 72. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 292 í C-deild Alþingistíðinda. (3836)

169. mál, einkennisbúninga og önnur einkenni

Steingrímur Steinþórsson:

Það er mikill misskilningur hjá hv. þm. Vestm., að ég hefi talað um þetta frv. sem einhvern voltakross gegn öllum óeirðum. Það hefi ég aldrei sagt, en ég talaði um það sem einn lið í þeirri vörn, sem þarf að komast á í þeim efnum, og þar með er í raun og veru líka svarað fyrirspurn hans um áhrif einkennisbúninga í óeirðunum 9. nóv. Það er ómögulegt að segja um, þó hv. þm. viðurkenni og allir með honum, að þær óeirðir hafi verið geigvænlegar á okkar mælikvarða, nema þær hefðu getað orðið ennþá alvarlegri, ef árásarmennirnir hefðu verið einkennisbúnir. Það er enginn, sem getur sagt um það, ef búið er að æfa flokk kannske í fleiri ár, að það hefi enga þýðingu fyrir þá að vera einkennisbúna eða auðkennda í slíkum bardögum sem 9. nóv. Ég er fullviss um, að verr hefði farið 9. nóv., ef þar hefðu mætzt einkennisbúnir flokkar, og þess vegna er langt frá, að fyrirspurn hv. þm. Vestm. dragi neitt úr því gildi, sem ég tel frv. hafa. Ég hefi aldrei sagt annað en það, að bann þetta mundi draga úr hættunni. Mér hefir aldrei dottið í hug, að með því tækist að fyrirbyggja hana.