12.05.1933
Neðri deild: 72. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 298 í C-deild Alþingistíðinda. (3846)

169. mál, einkennisbúninga og önnur einkenni

Guðbrandur Ísberg:

Eins og sjá má á nál. meiri hl. allshn., hefi ég skrifað undir það með fyrirvara. Ég er í aðalatriðum samþykkur þeirri hugsun, sem liggur á bak við þetta frv. Er það af tveim ástæðum, fyrst vegna þess, að ég tel einkennisbúninga einkar vel til þess fallna að draga að sér athygli óþroskaðra unglinga og barna, og mundi það geta orðið til þess, að unglingarnir leiddust miklu fyrr en æskilegt er til þátttöku í stjórnmálafélagsskap. Eins og kunnugt er, er athygli barna almennt miklu betur vakandi en fullorðinna; þau eru næm fyrir áhrifum og miklu glysgjarnari. Og þegar þau sjá fullorðna fólkið skreyta sig með merkjum og einkennisbúningum, langar börnin og unglingana til að gera slíkt hið sama, og sækjast þar af leiðandi eftir því að komast í þann félagsskap, sem slíkt hefir að bjóða, og flækjast þannig hugsunarlaust inn í stjórnmálafélagsskap, löngu fyrr en heppilegt verður talið.

Hin ástæðan, sem ég tel mæla með frv., er sú, sem hv. frsm. benti á, að þegar til óspekta dregur, þá eru allar líkur til þess, ef menn eru þannig klæddir, að flokkarnir þekkja hvorir aðra, að þá verði áreksturinn harðari. Þegar þeir, sem vilja berjast, aftur á móti þekkja ekki sundur vini og óvini, þá dregur það úr þeim bardagalöngunina. Ástæðan til þess, að ég hefi skrifað undir nál. með fyrirvara, er sú, að ég hefi mjög litla trú á því, að hægt verði að framkvæma lögin, og í því sambandi vil ég gera eina ákveðna fyrirspurn til hv. sócíalista hér í d., ef einhver þeirra skyldi vera hér við látinn. Í 2. gr. er sagt, að félögum, sem helgað hafi sér félagsmerki áður en lög þessi ganga í gildi og æskja þess að fá að hafa þau merki áfram, skuli veitt það, ef merkin eru ekki notuð í bága við 1. gr., en það þýðir, að þau séu ekki notuð sem tákn sérstakra stjórnmálaskoðana. En sé svo, skal leyfið eigi veitt. Nú er það kunnugt, að sócíalistar hafa mörg undanfarin ár tiltekinn dag gengið hér um göturnar með merkjum og rauðum borðum. Ég vil spyrja þessa menn, hvort þeir muni, ef frv. verður samþ., hætta að nota þessi merki. Atkv. mitt verður nokkuð eftir því, hvaða svar ég fæ.