26.05.1933
Efri deild: 81. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2437 í B-deild Alþingistíðinda. (3864)

203. mál, menntaskóla á Akureyri

Jón Jónsson:

Ég hefi ekki mikið um þetta mál að segja. Það er flutt eftir beiðni hæstv. kennslumálaráðh., og í því er farið fram á örlitla breyt. á l. um menntaskóla á Akureyri. Þegar þau lög voru sett, var sett sem skilyrði fyrir upptöku í lærdómsdeild nokkur kunnátta í þýzku. Nú hefir kennarafundur menntaskóla Akureyrar óskað eftir því, að þessu yrði breytt, og hefir ráðuneytið fallizt á það, að fenginni umsögn fræðslumálastjóra og rektors menntaskólans hér, sem báðir mæltu með þessari smábreyt. N. taldi rétt að flytja þetta frv., og vil ég mælast til þess, að því sé vísað til 2. umr., að þessari umr. lokinni.