12.05.1933
Neðri deild: 72. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 299 í C-deild Alþingistíðinda. (3882)

169. mál, einkennisbúninga og önnur einkenni

Jón Auðunn Jónsson:

Hv. flm. (StgrS) jafnaði hér saman að bera einkennisbúninga, t. d. brúna jakka og rauðar buxur, og fremja stuld eða morð. (StgrS: Ég jafnaði því ekki saman; ég dró þá ályktun). Já, ályktun af því, að þetta væri nokkurnveginn það sama. Þetta átti að vera til þess að afsaka framkomu frv. Ég held, að hér sé nokkuð langt vitnað; a. m. k. hefði hv. flm. þá átt að setja einhver hegningarákvæði í þetta frv., ef þetta væri sambærilegt. - Annars fannst mér hv. flm. gera mest úr þeirri hugsun, að þeir flokkar, sem kynnu að eigast við, þekktu ekki sína flokksmenn og berðust þá máske innbyrðis, og með því yrði hlé á slíkum uppþotum. Þetta er hreinasta firra. Ég hygg, að þegar menn fara út í slík uppþot, þá séu þeir ákveðnir og þekki sína flokksmenn, og engin hætta sé á því, að þeir berjist innbyrðis.

Hv. 2. þm. Reykv. talaði hér digurbarkalega um þjóðerni og sjálfstæði þjóðarinnar. Við erum nú orðnir vanir því hér í d. En það vill renna af honum gorgeirinn, þegar hann kemur til kóngsins Kaupmannahafnar til að sníkja skildinga til uppihalds sinnar stefnu. Þá færist hjartað nær rumpinum og hreyfingarnar verða allar fleðulegri, þegar hann er þangað kominn. (HV: Hvenær hefi ég verið í Kaupmannahöfn að sníkja fé?). Það er vitanlegt, og hv. þm. hefir heldur ekki neitað því, að hann hafi fengið fé, eða flokksmenn hans. (HV: Já, það er vissara að taka það aftur strax). Ég tek ekkert aftur. Það er sama, hvort hv. þm. slær sjálfur út fé með eigin orðum eða lætur aðra gera það fyrir sinn munn.