03.05.1933
Neðri deild: 64. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2438 í B-deild Alþingistíðinda. (3891)

178. mál, útflutning á kjöti

Frsm. (Guðbrandur Ísberg):

Þetta frv. er flutt af landbn. eftir tilmælum atvmrh. Í samningnum við Noreg, sem nýlega er búið að samþ., er eins og kunnugt er takmarkaður útflutningur á íslenzku saltkjöti, og menn gera einnig ráð fyrir, að kjötútflutningur til Englands muni verða takmarkaður. Þetta hvorttveggja gerir nauðsynlegt að hafa eftirlit með kjötflutningi til þessara landa. Kjötútflytjendur eru hér allmargir og dreifðir og hafa engan félagsskap með sér, sem hægt væri að fela slíkt eftirlit. Það er því nauðsynlegt, að trygging sé fyrir því, að ekki sé flutt út meira saltkjöt til Noregs, a. m. k. ekki fyrir vangá og að óvilja eigenda, en það, sem tollívilnunar nýtur, og ekki meira til Englands en leyfður verður innflutningur á þar. Frv. er borið fram með það fyrir augum, að stj. fái heimild til að hafa eftirlit með kjötflutningnum. — Svo er rétt að benda á annað þýðingarmikið atriði í þessu sambandi, og það er skipting útflutningsins milli útflytjenda. Þeim er ætlað að fá útflutningsleyfi miðað við það kjötmagn, sem þeir hafa flutt út, þannig að þeir fá hlutfallslegan rétt til útflutnings, miðað við það, sem þeir hafa áður flutt út. Það er gert ráð fyrir, að útflutningsleyfin verði miðuð við útflutning áranna 1930—32. Að því er árið 1932 snertir, þá er það sérstakt að því leyti, að á því ári óx mjög útflutningur freðkjöts, og útflutningshlutföllin raskast af þeim sökum allverulega, miðað við undanfarandi ár. Er eigi unnt með lagasetningu að ákveða, hvernig úthlutun leyfanna skuli fara fram í einstökum atriðum, heldur verður að treysta stj. til að beita fullri sanngirni og réttsýni í því efni.

Það er gert ráð fyrir því í frv., að allir, sem hafa flutt kjöt út, komi til greina að því er snertir að fá leyfi til útflutnings. En að því er þá menn snertir, er kynnu að óska að flytja út kjöt, en hafa ekki gert það áður, þá geta þeir, sem hafa haft kjöt til sölu, en falið öðrum útflutninginn, fengið útflutningsleyfi, enda sé þá miðað við það kjötmagn, er þeir létu flytja út, en það kjötmagn dregst aftur frá útflutningsleyfi þess firma, sem áður hafði útflutninginn á hendi. En þeir, sem ekki hafa flutt kjöt út áður og nú kynnu að óska þess, geta ekki fengið leyfi til þess. Um þetta atriði var nokkur ágreiningur í n., en varð þó samkomulag um það á þeim grundvelli, að leggja til, að 1. verði aðeins látin gilda til eins árs, til 1. júlí 1934, m. ö. o. að lögin verður að endurskoða á næsta þingi, ef frv. verður að 1., og þá koma til athugunar þeir annmarkar, sem kynnu að koma fram á þessu fyrsta ári, sem líta má á sem tilraunaár. Það munu vera heldur litlar líkur til, að nýir menn bætist í hópinn, sem óska að fá leyfi til útflutnings, og leit n. því svo á, að óhætt mundi vera að gera engar undantekningar að því er þessa menn snertir, ef l. giltu aðeins eitt ár, en hinsvegar taldi hún óheppilegt að loka alveg fyrir slík leyfi að því er lengri árabil snertir.

Ég hirði svo ekki um að fjölyrða frekar um þetta frv., en vænti þess, að því verði vel tekið í hv. þd. og látið ganga áfram.