05.05.1933
Efri deild: 64. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 301 í C-deild Alþingistíðinda. (3895)

42. mál, eftirlit með sparisjóðum

Frsm. meiri hl. (Jónas Jónsson) [óyfirl.]:

Fjhn. hefir klofnað um þetta mál og skilað tveimur nál. Af áliti meiri hl. sést, að við höfum komizt að þeirri niðurstöðu, að eðlilegast sé að leggja þetta starf niður og láta ekkert koma í staðinn. Í frv. var gert ráð fyrir því, að stjórn Landsbankans yrði fyrir lága upphæð falið þetta eftirlit með sparisjóðum, en með því að á því þóttu ýmsir annmarkar, var það ráð tekið að fella embættið niður, þar sem ekki verður séð, að sparisjóðir hafi notið neins gagns af þessu starfi.

Af bréfum frá bönkunum, Útvegsbankanum og Landsbankanum, sést, að í raun og veru hefir þessi embættismaður ekki notið þar þess trausts, að ástæða sé þeirra vegna að halda starfinu áfram. Það er beinlínis sagt, að nú fyrir nokkru hafi Landsbankinn samþ. ósk um, að hann yrði leystur undan skyldunni til að standa undir þessu embætti, og er það skýrt tekið fram af stjórn bankans, hvers vegna hann óski ekki eftir, að þessu starfi sé haldið áfram. Aftur á móti hefir Íslandsbanki greitt til þessa starfa 35 þús. og nokkur hundruð, en Útvegsbankinn ekkert, síðan hann tók til starfa. En að því er Búnaðarbankann snertir, þá hefir þetta ekki komið til greina, því að þessi embættismaður hefir aldrei skipt sér neitt af honum.

Þetta embætti svífur því nú í lausu lofti, og munu allir sammála um, að eðlilegast sé að leggja það niður. Sé ég því ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta, þar sem svo skýr rök liggja fyrir því, að þetta starf svarar alls ekki kostnaði.