05.05.1933
Efri deild: 64. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 304 í C-deild Alþingistíðinda. (3898)

42. mál, eftirlit með sparisjóðum

Frsm. meiri hl. (Jónas Jónsson) [óyfirl.]:

Hv. l. landsk. vill afgreiða þetta mál með rökst. dagskrá, þar sem hann óskar eftir, að stj. leggi fyrir næsta þing frv. til l. um breyt. á þessu starfi, þannig að það verði fært út, svo að eftirlitið nái til opinberra sjóða. Sé ég ekki ástæðu til að tala um þetta, enda mundi hv. 1. landsk. hafa gert till. í þessa átt meðan hann var fjmrh., ef hann hefði fundið nokkra hvöt til umbóta í þessu efni. Þá er og enn síður ástæða til að samþ. dagskrána, þar sem fyrir Nd. liggur nú frv. um þetta efni, víðtækara og miklu þýðingarmeira, þar sem stefnt er að því að setja alla opinbera sjóði undir sérstaka stj., sem hafi útlánastarfsemi sjóðanna með höndum, svo að eignir þeirra geti verið sæmilegar tryggar. Afstaðan til þessarar dagskrártilk. hv. 1. landsk. verður því eingöngu að miðast við það, hvort menn álíta, að halda eigi þessu starfi við eða ekki. Hv. 1. landsk. reyndi ekki að hnekkja þeim rökum, sem færð eru fram í nál. meiri hl. fyrir því, að rétt sé að leggja þetta embætti niður, með öðru en því, að eðlilegt væri, að bankarnir kærðu sig ekki um slíkt eftirlit. En hér er um annað og meira að ræða. Erlendis er það þannig siður, að eftirlitsmaðurinn starfi í bönkunum og ferðist á milli þeirra, en hér hefir það komið fyrir, að annar stórbanki landsins hefir neitað að borga sinn hlutann af launum eftirlitsmannsins, og í bréfi frá bankaráði Landsbankans, 4. apríl í ár, segir svo, að bankaráðinu sé ekki kunnugt um, að eftirlitsmaðurinn hafi nokkurt eftirlit rækt í Landsbankanum 2-3 síðustu árin, og hafi bankaráðið því ástæðu til að telja eftirlit hans þar óþarft. (Sbr. þskj. 455). Liggur þannig fyrir yfirlýsing frá stærstu peningastofnun landsins um það, að þetta embætti hafi ekki verið starfrækt á þann hátt, sem stofnunin telji viðunandi. Að því er sparisjóðina úti á landi snertir, þá getur varla verið vafi á því, að þeir hafi gott af því að vera skoðaðir einu sinni á ári. Hefir n. óskað eftir skýrslum frá fjmrh. um það, en ráðuneytið hafði engar skýrslur að senda n. í því efni, heldur sendi ráðuneytið n. skjalapakka einn mikinn, sem m. a. bar það með sér, að stj. hefði sent eftirlitsmanninum reglugerðir nokkurra sparisjóða og fengið svör hans við. En þar sem þessi starfsmaður á sæti hér í d. og hefir nú auk þess beðið um orðið, væri eðlilegast, að hann færði hér fram skýringu á vinnu sinni við sparisjóðina og léti d. m. a. vita hve mikill hl. sparisjóðanna hefir verið endurskoðaður. Ég vil halda því fram, að hv. 1. þm. Reykv. hafi lítið rækt þessa hliðina á starfi eftirlitsmannsins, og liggja að vísu til þess ýmsar orsakir, og m. a. heilsuástand hv. þm.

Hv. 1. landsk. veit það ósköp vel, að það er ekki eingöngu þetta embætti, heldur og einnig mörg önnur embætti, sem eru álíka hátt launuð, er valda mikilli óánægju hjá landsfólkinu í því árferði, sem nú er. Laun eftirlitsmannsins eru á við árstekjur margra verkamannafjöldskyldna, sem þó standa undir þjóðarbúskapnum. Engu að síður er þó starf eftirlitsmannsins gagnslaust, eins og greinilega kemur fram í því, að aðalbanki landsins neitar að greiða laun þessa manns að sínu leyti. Þar sem hér eingöngu er því um að ræða skatt á ríkissjóði, verð ég að segja það, að sparnaðarviðleitnin hjá hv. þm. er ekki mikil, þrátt fyrir allt skrafið, ef Alþingi sér sér ekki fært að gera þá breyt. á þessu, sem hér er farið fram á. Það má vera, að slíkt eftirlit sé haft erlendis, en það er áreiðanlega einsdæmi, að þær stofnanir, sem við eftirlitið eiga að búa, lýsi yfir því, að eftirlitið hafi ekki verið rækt, og neiti að borga kostnaðinn við það að sínum hluta út frá þeim forsendum.