30.05.1933
Neðri deild: 87. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 570 í B-deild Alþingistíðinda. (390)

1. mál, fjárlög 1934

Jónas Þorbergsson:

Ég vil taka undir þær raddir, sem fram hafa komið í þessari hv. d., að það virðist vera mjög óviðkunnanlegt og varhugavert það háttalag, sem tíðkazt hefir á mörgum undanförnum þingum, að hv. Ed. hefir með nokkrum hætti verið afhent úrslitavald um fjárveitingar þingsins með því að láta þá hv. d. leggja síðustu hönd á afgreiðslu fjárl. Sú litla reynsla, sem ég hefi af störfum fjvn. hefir sýnt mér, að hún hefir eðlilega gengið ríkt eftir því við nm. og aðra hv. dm., að þeir gæti allrar varúðar við afgreiðslu fjárl., og ég verð að telja, að meðferðin í þessari hv. d. hafi borið glöggan vott um það, að þeirrar varúðar hafi verið gætt eftir föngum:. Það virðist ekki vera hægt að bera á móti því, að þegar borið er saman, hvernig Nd. skildi við málið, og hvernig það kemur frá hv. Ed., þá hafi þessi háttur, sem upp hefir verið tekinn og tíðkazt hefir átölulaust, haft þá verkan, að varúð d. hefir minnkað í trausti þess, að þegar frv., kæmi frá Ed., þá yrði venjulega svo mjög liðið á þingtímann, að þm. kjósi heldur að þola hvað sem vera skal heldur en að eiga það á hættu, að frv. hrekist milli deilda og lendi loks í Sþ. með þeim afleiðingum, sem því kynnu að verða samfara. Hefir nú svo til tekizt eins og fyrri, að fjvn. treystist ekki til að bera fram brtt., eða mæla með því, að frv. verði opnað á ný. Ég gat fyrir mitt leyti ekki mælt með því í n. og nm. voru allir sammála um að leggja til, að frv. verði samþ. óbreytt. En þar sem það hefir komið fram í dag, að Nd. treystist ekki til að taka þegjandi við þeim böggli, sem nú fylgdi skammrifi, og nokkrir hv. þm. bera fram brtt., þá hefi ég leyft mér að bera fram eina, sem hv. d. er þegar kunn. Við fyrri afgreiðslu málsins hér í d. var samþ. till., sem ég flutti um heimild til þess að verja 25000 kr. af ágóða viðtækjaverzlunar ríkisins til þess að greiða fyrir útvarpsnotendum, þar sem raforka er ekki fyrir hendi. Ég mælti þá fyrir till., og ástæðulaust þykir mér að endurtaka það nú. Mitt álit hefir alltaf verið það, að viðtækjaverzlunin hafi verið stofnsett í því augnamiði fyrst og fremst, að greiða fyrir útvarpsnotendum, en ekki til þess að ríkið græddi á henni. Þessi hv. d. tók þessu máli mínu svo vel, að till. var samþ. með 18 atkv. gegn 10. En hv. Ed. hafði ekki jafngóðan skilning á málinu og meiri hl. fjvn. gerði tilraun til þess að fella þessa heimild alveg burtu. Og þótt því yrði afstýrt, tókst að lækka hana niður í 10000 kr. Nú fer ég fram á, að heimildin verði hækkuð upp í 20000 kr., og að fénu verði varið á sama hátt sem áður var gert ráð fyrir, að því viðbættu, að fénu verði einnig varið til þess að draga úr útvarpstruflunum í kaupst. og sjávarþorpum, sem valda hinum mestu óþægindum og hamla mjög útvarpsnotendum. Ég vil taka það fram, að ég gat ekki lagt áherzlu á það í fjvn., að fjárl. yrðu nú opnuð á ný, og þar eð till. mín er stíluð við 22. gr. frv., þá er ég tilleiðanlegur til að taka hana aftur, ef allar aðrar brtt. verða felldar. En verði hinsvegar nokkur þeirra samþ., þá mun ég leggja hina mestu áherzlu á, að hún verði samþ. Ég tel það bæði sjálfsagt og réttmætt, að útvarpsnotendum bæði til sveita og í kaupstöðum verði hjálpað til þess að ráða bót á því, sem mest hamlar því, að útvarpið komi að fullu liði og nái þeirri útbreiðslu, að það verði sjálfstæð stofnun.