31.05.1933
Efri deild: 85. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2441 í B-deild Alþingistíðinda. (3906)

178. mál, útflutning á kjöti

Frsm. (Páll Hermannsson):

Mönnum er það kunnugt, að eins og útlit er nú, þá er ekki hægt að búast við því, að kjöt verði flutt út úr landinu ótakmarkað eins og verið hefir. Það er vitanlegt, að gagnvart Noregi hafa verið sett hámarksákvæði um innflutning þar, og það er líka vitað, að einhver takmörk verða sett á innflutning til Englands frá því, sem verið hefir. Af þessu leiðir að sjálfsögðu það, að eftirlit verður að hafa með kjötútflutningi og vitanlega gæta þess, að ekki sé flutt til þessara markaðslanda meira en leyfilegt er, og líka að gæta þess, að þessi útflutningur kjöts skiptist nokkuð hæfilega milli framleiðendanna. Þetta frv. er fyrirskipun um, að eftirlit skuli haft með þessum útflutningi og nánari reglur um það, hvernig þessu skuli hagað. Frv. var borið fram í Nd. af landbn. þar, eftir tilmælum atvmrh. Landbn. þessarar d. vill leggja það til, að frv. verði samþ., en hún lítur jafnframt svo á, að af þessari útflutningstregðu á kjöti muni að líkindum stafa það, að óvenjulega mikið af kjöti verði boðið í landinu sjálfu. (JBald: Það þyrfti að vera meira en nú er). Það verður það nú væntanlega líka. Nú lítur n. svo á, að ef óeðlilega mikið framboð verður í landinu sjálfu, þá mundi einnig heppilegt að hafa nokkurt eftirlit með þeirri sölu. N. flytur því brtt. við frv., sem er einskonar viðauki og fjallar um söluna innanlands. Þessi till. er á þskj. 859. Við nánari athugun, eftir að till. hafði verið sett í prent, urðum við þess þó áskynja, að heppilegra myndi vera að breyta henni dálítið. Flytjum við um það breyt. á þskj. 892.Ég vil einnig f. h. n. leggja til, að þessi brtt. verði samþ., og sé ég svo ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta frekar. — Ég veit, að dm., a. m. k. þeir, sem inni eru, geta vel áttað sig á þessu máli.