30.05.1933
Neðri deild: 87. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 571 í B-deild Alþingistíðinda. (391)

1. mál, fjárlög 1934

Bergur Jónsson:

Ég hefi leyft mér að bera fram eina till., sem fer fram á 1000 kr. hækkun á liðnum til bryggjugerða og lendingarbóta. Ástæðan til þess, að þessi umleitun kemur fyrst fram nú, er sú, að ég hefi ekki fyrr fengið skjölin um þetta mál og var auk þess veikur, þegar fjárl. voru til meðferðar hér í d. Ég sé það, að Ed. hefir hækkað þennan lið úr 31 þús. kr. upp í 48 þús., og það er vitanlega til lendingarbóta fyrir kjördæmin, sem þeir hv. þm., er í Ed. sitja, eru fyrir. Þess vegna finnst mér ekki ósanngjarnt, að þessi till. verði tekin til greina, ef frv. verður yfirleitt nokkuð breytt. Þessi hækkun er hugsuð sem tillag til lendingabóta á Flatey á Breiðafirði. Flateyjarkauptún er mjög illa statt fjárhagslega, en brýn nauðsyn krefur, að bætt sé úr því algerða bryggjuleysi, sem það á við að búa, og hafa þeir hugsað sér, að bezt muni reynast að dubba upp bryggjuskrifli það, sem er þar á staðnum. Það hefir ekki farið fram fullkomin rannsókn á því, hver kostnaður muni af þessu leiða, en n. hefir verið kosin, og áætlar hún, að verkið muni kosta 2500 kr., en ég hygg samt, að það muni liggja nær 3000, svo að framlag ríkissjóðs yrði þá ekki nema 1/3 kostnaðar. Menn verða að gæta að því, að þetta er ekki fyrir Flateyjarhrepp einan, heldur fyrir alla VesturBarðastrandarsýslu. Þarna er eini staðurinn, sem hægt er að koma hafskipum við, og þó erfitt, þar sem ekki er nein bryggja, sem því nafni getur heitið, svo að það er til stórbaga, af því að skip, sem samkv. áætlun eiga að koma þar við, fara jafnvel framhjá. Ég mun þó ekki halda málinu til streitu, nema fjárl. verði opnuð aftur. Það tel ég alveg sjálfsagt að gera, því að mér finnst bæði ósanngjarnt og óviðkunnanlegt, að þriðjungi þm. sé fengið vald til þess að gera hvað sem þeim sýnist um þetta mál.