09.03.1933
Neðri deild: 20. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 318 í C-deild Alþingistíðinda. (3933)

82. mál, fátækralög

Flm. (Guðbrandur Ísberg):

Þetta frv. er mjög fábrotið og ætti ekki að þurfa að valda miklum ágreiningi. - Má segja, að frv. sé aðeins breyt. á einu orði, en þessi orðabreyt. felur þó jafnframt í sér, að ákveðinn kostnaður, sem hingað til hefir verið greiddur úr sveitarsjóðum, verði framvegis greiddur úr ríkissjóði, og þar sem frv. að þessu leyti hefir í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð, en allar slíkar till. vekja mönnum varhuga, ekki sízt á þeim krepputímum, sem nú standa yfir, vil ég gera nokkru frekari grein fyrir frv. en í grg. þess felst. Vil ég þá fyrst lesa hér upp 51. gr. fátækralaganna frá 1927, sem frv. fer fram á áðurnefnda breyt. á. Hún hljóðar svo:

„Nú sýnir þurfalingur mikla óhlýðni eða þrjózku við sveitarstjórn, eða hann sökum leti, drykkjuskapar, illinda eða óknytta eykur sveit sinni sýnileg þyngsli, og má þá sveitarstj. láta setja hann í fangelsi við venjulegt fangaviðurværi í allt að 3 mánuðum, þó því aðeins, að lögreglustjóri veiti samþykki sitt til þess í hvert sinn, eða setja hann í nauðungarvinnu með samþykki lögreglustjóra og eftir reglum, er ráðh. þar um setur. Kostnaður við fangelsisvist eftir gr. þessari greiðist af sveitarsjóði“.

Gr. þessi er að efni til nákvæmlega eins og 61. gr. fátækralaganna frá 1905, en enda þótt sveitarstj. hafi þannig verið heimilt að lögum að setja óreglumenn og slæpingja í fangelsi eða þvingunarvinnu, höfðu sveitarstj. þó ekki notað sér þessa heimild, svo að mér sé kunnugt um, allt þar til vinnuhælið á Litla-Hrauni var sett. Ástæðan til þessa hefir auðvitað fyrst og fremst verið sú, að þangað til vinnuhælið var sett á Litla-Hrauni, var hér ekki til nein slík refsistofnun í landinu, er væri við hæfi þessara manna, því að ekki var líklegt, að þessir menn vendust á iðjusemi, þótt þeir væru látnir dúsa í þröngum fangaklefum eða haldið að einhæfri vinnu, þótt sá tilgangur laganna hinsvegar næðist með þessu móti, að halda þessum mönnum frá óreglu. - Með stofnun vinnuhælisins á Litla-Hrauni, með 1. nr. 26 7. maí 1928, er loks komin upp heppileg stofnun í landinu fyrir þessa óreiðumenn, enda munu sveitarstj. hafa hugsað gott til glóðarinnar með að knýja nú fram greiðslu hjá þeim á framlögðum sveitarstyrk, sem þeir ýmist hirtu ekki að greiða eða gátu ekki greitt vegna óreglu. Þótt þetta hafi og borið nokkurn árangur, hefir hinsvegar komið fyrir, að sveitarstj. hafa orðið að greiða svo skiptir hundruðum króna vegna dvalar þessara þurfalinga sinna á vinnuhælinu, og virðist það sízt sanngjarnt gagnvart fátækum sveitarfélögum, sem eru að sligast undir framfærslu þurfalinga sinna, að þurfa þannig ekki aðeins að ala önn fyrir slæpingjum og óreglumönnum samkv. ákvörðun löggjafans, heldur og einnig samkv. ákvörðun hans að greiða dvalarkostnað þessara manna á opinberri refsistofnun.

Jafnframt því sem sett voru 1928 l. um vinnuhælið, voru það sama árgerðar nokkrar breyt. til bráðabirgða á hegningarlöggjöfinni og viðaukar við hana. Upp í þessa bráðabirgðabreyt. á hegningarl. eru einmitt tekin frekari ákvæði um refsingar á óreiðumönnum. Segir svo í 9. gr. þessara laga:

„Nú verður vinnufær maður sveit sinni til þyngsla sökum óreglu eða slæpingsskapar, eða hann af sömu ástæðum vanrækir framfærsluskyldu sína gagnvart öðrum, sem við það verða bjargþrota, eða hann fyrir þessar sakir greiðir ekki úrskurðað meðlag með maka sínum eða barni, og skal þá refsa honum með fangelsi, ef hann vill ekki sinna forsvaranlegri vinnu, sem fátækrastj. eða lögreglustjóri vísar honum á. Ef brotið er endurtekið, má refsa honum með allt að 1 árs betrunarhússvinnu“.

Þessi gr. er að efni til mjög áþekk 51. gr. fátækral. frá 1927, sem ég áður las upp, nema hvað hér aðeins er ríkar að orði kveðið, því að þessi gr. beinlínis skyldar til að refsa óreiðumönnum með fangelsi, en þetta var hinsvegar samkv. eldri gr. sett í sjálfsvald sveitarstj. sem heimildarákvæði aðeins. - Ég fyrir mitt leyti er ekki í neinum vafa um það, að meining löggjafans með þessu ákvæði hefir verið sú, að létta þessari kvöð af sveitarfélögunum, þannig að kostnaðurinn af allri slíkri refsivist greiddist af almannafé, eins og annar kostnaður af dvöl á refsistofnun. Í auglýsingu 21. okt. 1930 um vist þurfamanna á vinnuhælinu á Litla-Hrauni er þó aðeins vitnað í 51. gr. fátækral. frá 1927, en 9. gr. 1. um bráðabirgðabreyt. á hegningarlöggjöfinni frá 1928 er hinsvegar að engu getið í þessari auglýsingu. Get ég ekki hugsað mér, að aðrar ástæður hafi legið á bak við þessa „gleymsku“ en að framkvæmdarvaldið hafi hér viljað spara á þessum útgjaldalið og þess vegna einskorðað auglýsinguna við þessa gr. fátækral. frá 1927, þar sem ákveðið er, að þessi kostnaður skuli greiðast af sveitarsjóði, en gengið framhjá nýrra ákvæðinu frá 1928, sem þó er miklu fyllra og felur í sér ákvörðun löggjafans um, að óreiðumönnum skuli refsa, en þetta samkv. eldri gr. aðeins er lagt á vald sveitarstj. sem heimildarákvæði, eins og ég áður sagði. Með því að skylda sveitarfélögin til að láta refsa óreiðumönnum hefir ríkisvaldið hinsvegar óbeint tekið á sig að bera útgjöldin vegna þessarar refsingar, sem á óreiðumenn ber að leggja, enda verður þetta ákvæði 1. annars gagnslaust, því að sveitarfélögin mundu hliðra sér hjá að koma fram refsingu á þessum mönnum, ef þau ofan á allt annað ættu að bera kostnaðinn af refsingunni. - Þetta frv. miðar í þá átt að kippa þessu í lag, og þar sem hér er ekki um tiltölulega mikinn kostnað að ræða, sé ég ekki, að það sé frambærileg ástæða til að skjóta sér undan kostnaðinum af refsidvöl þessara manna fremur en öðrum kostnaði af dvöl manna á refsistað. - Ég leyfi mér að síðustu að leggja til, að frv. verði vísað til allshn.umr. lokinni.