09.03.1933
Neðri deild: 20. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 321 í C-deild Alþingistíðinda. (3934)

82. mál, fátækralög

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Ég ætla að gefa þær skýringar, sem mér fannst ræða hv. þm. Ak. gefa tilefni til. Mér skildist á honum, að hann áliti, að sveitarsjóðir ættu að bera kostnaðinn af því, þegar óreiðumenn og slæpingjar eru dæmdir eftir bráðabirgðabreyt. á hegningarlögunum frá 1928. Þetta hefir þó ekki verið framkvæmt svo. Held ég, að ég megi fullyrða, að þegar slíkir menn eru settir inn eftir dómi, beri ríkissjóður allan kostnaðinn, en hinsvegar kemur kostnaðurinn á sveitarsjóðina, þegar mennirnir eru settir inn eftir beiðni sveitarfélaganna og án dóms. Ef skilyrði bráðabirgðabreyt. eru fyrir hendi, geta sveitarsjóðirnir þannig alltaf komið kostnaðinum af sér yfir á ríkissjóð með því að heimta, að maðurinn sé dæmdur eftir l. Held ég, að ákvæði fátækral., sem hv. þm. nefndi, sé sjaldan notað í slíkum tilfellum. Ég þekki a. m. k. aðeins eitt tilfelli. Hinsvegar skiptir þetta miklu máli, því að kostnaðurinn af þessu er mjög mikill, vegna þess, hve dvölin er dýr á vinnuhælinu, og ég fyrir mitt leyti vil ekki opna sveitarfélögunum leið til þess þannig að dæma barnsfeður, sem ekki geta greitt meðlag, á vinnuhælið. Það verður að skera úr því með dómi, hvort skilyrðum laganna frá 1928 er fullnægt. Það atriði má ekki leggja undir úrskurð sveitarstjórna, því að fjölmargir barnsfeður, sem ekki geta greitt, eru hvorki slæpingjar né óreglumenn.