07.04.1933
Neðri deild: 47. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 322 í C-deild Alþingistíðinda. (3938)

82. mál, fátækralög

Frsm. (Guðbrandur Ísberg):

Allshn. hefir haft frv. þetta til athugunar og orðið sammála um að leggja til, að það verði samþ. óbreytt. Einn nefndarmanna hefir þó ekki skrifað undir nál., vegna þess að hann var fjarverandi, þegar málið var afgr.

Þetta mál er að vísu svo einfalt, að ekki ætti að þurfa að fjölyrða um það. Ýms rök voru færð fyrir því við 1. umr., en af því að ég get búizt við, að sumir hv. þm. hafi gleymt þeim síðan, vil ég nú taka fram helztu atriði þeirra.

Hér er farið fram á, að kostnaður af dvöl óreglumanna á refsistofnun, sem samkv. 51. gr. fátækral. á að greiðast úr sveitarsjóði, skuli greiðast úr ríkissjóði. Greinin fjallar sem sé um það, að sveitarstjórnir geti fengið þurfamenn, sem sýna óhlýðni og þrjózku við sveitarstjórn, eða leti og óreglu, setta í þvingunarvinnu eða fangelsi. Alveg samskonar ákvæði er í l. frá 1928. Það er þessi 51. gr. fátækral. tekin svo að segja óbreytt upp í 9. gr. þeirra 1., en þar er því bætt við, að þeim mönnum, sem þannig verða sveitarfélagi til þyngsla, skuli refsað með fangelsi. Hæstv. dómsmrh. upplýsti það við 1. umr. þessa máls, að kostnaður við dvöl þeirra, sem eru dæmdir á vinnuhælið, væri greiddur úr ríkissjóði. Munurinn á þessu tvennu er því þessi: Í öðru tilfellinu má eftir kröfu sveitarstjórnar flytja menn á vinnuhælið, og þá á sveitarsjóður að greiða kostnaðinn. En í hinu tilfellinu skal það gert, og vitanlega eftir kæru sveitarstjórnar, en þá greiðir ríkissjóður kostnaðinn. Í framkvæmdinni hefir þetta valdið ágreiningi og misskilningi, og þetta frv. er borið fram til þess að fyrirbyggja, að svo verði framvegis. Það mun hvað eftir annað hafa komið fyrir, að menn hafa verið sendir á Litla-Hraun eftir kæru sveitarstjórnar með tilvísun til 9. gr. laga um bráðabirgðabreyt. á hegningarlögum frá 1928, en dvalarkostnaðarreikningur síðan sendur hlutaðeigandi sveitarfélagi. Sveitarfélög geta ekki notað sér þessi ákvæði 1. frá 1928, ef kostnaðurinn á að greiðast af sveitarsjóðum, ofan á það, að þeir hafa í flestum eða öllum tilfellum orðið að greiða af höndum margvísleg önnur útgjöld vegna þessara manna. Með því að halda svona áfram verða ákvæði l. um þetta gagnslaus, en það var áreiðanlega ekki tilgangurinn 1928.

Ég vona, að þetta mál sé hv. dm. svo ljóst, að þeir séu reiðubúnir til að taka afstöðu til þess án frekari skýringa.