07.04.1933
Neðri deild: 47. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 325 í C-deild Alþingistíðinda. (3942)

82. mál, fátækralög

Frsm. (Guðbrandur Ísberg):

Ég er sammála hæstv. dómsmrh. um það, að sveitarfélögin geti náð sama marki með því að láta ganga dóm í málum viðkomandi manna, eins þó að frv. þetta verði ekki samþ., og þarf þeirra hluta vegna ekki neina sérstaka lagabreyt. í þessum efnum. En sveitarfélögunum er þetta bara ekki ljóst. Og í því efni byggja menn á auglýsingu frá 1930, en hún fjallar aðeins um 51. gr. fátækralaganna.

Til þess að útiloka þennan misskilning og gera almenningi ljóst, hvaða réttindi sveitarfélögin hafa í þessum efnum, er frv. þetta flutt. Ég gæti því gengið inn á að draga frv. til baka, ef gefin væri út auglýsing, sama efnis sem auglýsingin frá 1930, að öðru en því, að þar væri byggt á og vísað til 9. gr. laga um bráðabirgðabreyt. á hegningarlöggjöfinni frá 1928, enda tekið fram, að kostnaður af vinnuhælisvist samkv. þeirri lagagrein greiðist úr ríkissjóði.