30.05.1933
Neðri deild: 87. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 573 í B-deild Alþingistíðinda. (395)

1. mál, fjárlög 1934

Haraldur Guðmundsson:

Ég skal ekki eyða miklum tíma í það að tala um heildarsvip fjárl., þótt að þeim megi margt finna. Ég hefi rætt um það efni áður, og þótt nokkrar breyt. hafi orðið á þeim eftir það, þá skipta þær ekki verulegu máli í þessu sambandi. Háttv. þm. V.-Húnv. hefir borið fram margar brtt. Vil ég sérstaklega minnast á 4 þær síðustu. En 3 þeirra eru till. um að fella niður heimild, sem stj. er veitt í fjárl.frv. til að ábyrgjast lán til atvinnufyrirtækja í kaupstöðum landsins. Ég verð nú að telja það algerða óhæfu, ef þetta þing, sem nú situr og samþ. hefir stórkostlegan styrk til landbúnaðarins, ekki minna en 11—13 millj. kr., til að bæta hag sveitabænda, færi nú að fella niður úr fjárlfrv. þá hjálp, sem ætluð er kaupstaðabúum með því að auka atvinnu þeirra. Hvað sem um 22. gr. má segja, þá er þó mest þörfin á þeim liðum, sem líklegir eru til að bæta hag sjóplássanna. Og það er algerð óhæfa að fella þá liði niður. Hið eina í fjárl., sem fyrir þau er gert, eru þessar 300 þús. kr. til atvinnubóta í 16. gr.. gegn 2/3 framlagi annarsstaðar að, og svo þessar heimildir að auki, sem hv. þm. nú vill fella niður. Ég skal víkja nánar að þeirri brtt., er snertir mitt kjördæmi, síldarbræðslustöð á Seyðisfirði. Fyrir þeirri till. var gerð ýtarleg grein í Ed., er hún var borin þar fram. Austfirðir hafa verið mjög afskiptir hingað til, í samanburði við aðra landshluta, hvað afstöðu til síldveiða snertir. Síldin hefir fyllt þar voga og víkur undanfarin ár, sumur öll og jafnvel á vetrum líka. En ekki hefir verið hægt að notfæra sér veiðina. Fiskiveiðalöggjöfin, sem meinaði útlendingum uppsátur, hefir hvergi komið harðar við en á Austfjörðum. Ef verksmiðja væri á Seyðisfirði, sem tæki við síldinni, mætti stunda þá veiði 8 mán. á ári eða jafnvel lengur, eftir reynslu undanfarinna ára. Sjá allir, hver munur það er, eða þar sem veiðin er stunduð einungis 2—3 mán., upp á það að fá starfræksluna til að bera sig. Síldarverksmiðja er einnig skilyrði til þess, að hægt sé að fiska síld, sem flutt er út fryst eða kæld. Það er nauðsynlegt, að verksmiðja sé til, sem tekið geti síldina, þegar ekki er hægt að flytja hana út. Ég mun því greiða atkv. gegn þessum brtt. hv. þm. V.-Húnv. Vona ég, að hv. þdm. geri slíkt hið sama.

Við jafnaðarmenn flytjum brtt. á þskj. 865. Sú fyrri er til atvinnubóta, 200 þús. kr. Í fjárl. eru nú 350 þús. kr. til þessa. Er óskiljanlegt, að ríkisstj. álíti, að minna þurfi til slíkra hluta næsta ár, eftir því sem útlitið er nú. Við leggjum því til, að úr þessu verði nokkuð bætt. Er ekkert skilyrði sett um framlag á móti þessari upphæð. Gert ráð fyrir, að ríkisstj. hagi sér í því efni eftir því, sem þörf heimtar í hverju tilfelli.

Hin till. er um að heimila ríkisstj. að taka ábyrgð á 100 þús. kr. láni vegna sjómanna og verkamanna á Seyðisfirði, og sé láninu varið til kaupa á fiskibátum. Þetta var samþ. hér í d., og vona ég, að hv. þm. hafi ekki skipt um skoðun. Ef brtt. hv. þm. V.-Húnv. verður samþ., þá þarf þessi till. að koma í staðinn. Skal ég svo ekki segja fleira, að sinni.