02.06.1933
Neðri deild: 92. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2461 í B-deild Alþingistíðinda. (3978)

179. mál, innflutningsbann á niðursoðinni mjólk

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Ég skal ekki gera miklar kappræður út af þessu máli. Ég býst við, að þær verði að litlu gagni fyrir þær upplýsingar, sem nauðsynlegar eru til þess að skapa sér skoðun í þessu máli. En út af því, sem tveir hv. þm. hafa nú sagt, verð ég að segja nokkur orð.

Þessir hv. þm. sögðu, að tilgangurinn með þessu frv. væri enginn annar en sá, að gera mjólkina dýrari, en það er langt frá því, að svo sé. Ef sá hefði verið tilgangurinn, hefði okkur flm. ekki dottið í hug að setja það ákvæði í lögin, að heimila hámarksverð á mjólkinni, því að það er ekki til annars en að tryggja hæfilegt verð. Tilgangurinn með frv. er enginn annar en sá, að tryggja þessari innlendu framleiðslu þann markað, sem til er í landinu. Það virðist nú á tímum ekki vera um svo auðugan garð að gresja með markað fyrir landbúnaðarafurðir, að við megum halda áfram að kasta í útlendinga þeim litla markaði, sem til er í landinu sjálfu. En ef sú stefna hefði verið uppi, að leggja háan toll á þessa vöru, svo háan, að hann hefði verkað sem bann, þá er miklu frekar ástæða til að ætla, að það hefði orðið til þess að hækka mjólkina; en með þessari leið, að banna innflutning, er tryggður markaður fyrir innlenda framleiðslu, og með því að setja hámarksverð eru tryggðir hagsmunir þeirra, sem mjólkina þurfa að kaupa.

Hv. þm. N.-Ísf. gaf það í skyn, að innlend mjólk jafnaðist ekki á við erlenda mjólk að gæðum. Ég skal játa það, að fyrir nokkrum árum var nokkurt ólag á starfrækslu niðursuðuverksmiðjunnar í Borgarfirðinum, og kom það þó nokkrum sinnum fyrir, að það kom skemmdmjólk á markaðinn. En það fyrirtæki er nú úr sögunni og annað nýtt komið í staðinn, miklu fullkomnara, undir stjórn þaulæfðs sérfræðings, enda hefir síðan hann tók við aldrei komið kvörtun um skemmda mjólk á markaðnum. En það vita allir, að innlenda mjólkin stendur yfirleitt alls ekki að baki erlendri mjólk, hvorki að hollustu né gæðum. Í fyrra var gerð efnarannsókn á niðursoðinni innlendri mjólk í samanburði við erlenda mjólk, og sú rannsókn leiddi það í ljós, að íslenzka mjólkin stóð alls ekki að baki þeirri erlendu, heldur var hún að ýmsu leyti fremri.

Viðvíkjandi því, að ekki megi sjóða niður aðra mjólk en þá, sem framleidd er af grænfóðri, eins og mér skildist á hv. þm. N.-Ísf., þá vita það allir, að Íslendingar standa öllum öðrum landbúnaðarþjóðum Evrópu framar með grænfóðurnotkun til gripaeldis, og þar, sem kýr eru hafðar í húsi allt sumarið, er þeim gefið miklu meira af kjarnfóðri og þurru heyi heldur en hér á landi. Það er því enginn vafi, að íslenzka mjólkin stendur erlendri mjólk alls ekki að baki hvað hollustu snertir, svo það er alveg ástæðulaust hjá hv. þm. N.-Ísf. að bera á móti þessu og gera tortryggileg gæði íslenzkrar mjólkur.