02.06.1933
Neðri deild: 92. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2462 í B-deild Alþingistíðinda. (3979)

179. mál, innflutningsbann á niðursoðinni mjólk

Magnús Jónsson:

Meðmælendum þessa frv. gengur ákaflega erfitt, eins og eðlilegt er, að komast í kringum röksemdir okkar, að þetta verði til þess að hækka verðið á þessari vöru, og sýna fram á, hvaða þýðingu það hefir að banna innflutning á erlendri mjólk, ef það er ekki vegna verðsins. Þeir segja, að það sé sjálfsagt, að Íslendingar sitji að framleiðslu þessarar vöru. Það eru æfinlega þessi sömu rök, sem borin eru fram fyrir öllum slíkum haftastefnum og verndartollastefnum, og nákvæmlega sömu rökin og fyrir einokuninni gömlu. Við gætum alvel eins farið í gömul skrif um það bil, sem einokunin gamla var sett á, eins og að hlusta á ræður þessara haftapostula; þar eru alveg nákvæmlega sömu rökin. Þeir gætu þýtt þessar ræður og flutt þær hér, og mundu sjálfsagt fá mikið lof fyrir. Það voru rökin þá, að það þyrfti að vernda þegna konungsins. Þá sögðu Danir: Er ekki sjálfsagt, að við þegnar Danakonungs sitjum fyrir þessari verzlun? Eigum við að láta Englendinga og Hansamenn mjólka þessa kú, sem við eigum að nota sjálfir? Þetta var gert til þess, að sú skaðlega frjálsa samkeppni yrði ekki til þess, að skemmd og dýr vara flyttist til landsins. En afleiðingin af þessu öllu saman varð sú, að varan var oft stórskemmd og stundum fluttist ekkert til landsins, svo að landsmenn liðu skort, og þessi fræga einokun varð svo að segja til þess að drepa þjóðina alla saman. Ég öfunda hv. þm. ekkert af þessum rökum, en ég ann þeim vel að feta í fótspor þessara gömlu einokunarpostula. Og það, sem á að koma á móti þessu öllu saman, er svo hámarksverð, sem á að ákveða. Óvinsælustu plöggin, sem komu út á Íslandi, voru taxtarnir gömlu. En hvað voru taxtarnir? Þeir voru hámarksverð. Í sambandi við einokunina varð auðvitað að fela konunginum, með allri sinni velvild til landsmanna, að ákveða sanngjarnt verð á þá vöru, sem þeir þurftu að kaupa. Nú eigum við að hafa það eins, við eigum að fá taxta líka. Og það er nú ekki mikil hætta á því, að sú nefnd, sem á að setja þessa taxta, verði þannig skipuð, að framleiðendurnir þurfi að kvarta yfir hennar gerðum. Við þm. getum auðvitað flutt langar ræður um það, hve íslenzka mjólkin sé góð, og að hér sé bezta beitilandið, sem til er á jarðríki. En ef nú verður sett í mjólkina svo sem helmingur af vatni? Hvað ætli verði þá um hennar ágæti? Það er ekkert ákvæði í frv., sem á að tryggja það, hvernig mjólkin á að vera. En það getur vel verið, að hún verði indæl, en það er ekki nokkur leið að gera hana afturreka, því annars fá menn ekki þessa vöru, sem þeir svo nauðsynlega þurfa. Ég skal ekki efast um það, að þessi verksmiðja, sem nú starfar, sé búin að koma starfrækslu sinni í gott lag, en það er einmitt vegna þess að hún hefir þurft að keppa við erlenda framleiðslu. Ef það hefði verið aðflutningsbann á mjólk þegar fyrri verksmiðjan starfaði, þá hefðu ekki orðið miklar framfarir, þá hefði hún ekki þurft að hugsa mikið um þá hluti. Hún hefði ekki þurft að svara nema skömmum, ef eitthvað var minnzt á súrmjólk, sem sjómenn yrðu að drekka, af því að þá hefði ekki verið hægt að fá erlenda mjólk.

Það er eitt einasta atriði, sem ég gæti viðurkennt að væri nýtt í þessu og gæti afsakað það, og það er það, ef hér væri verið að selja erlenda mjólk fyrir óeðlilega lágt verð. En svarið við því mundi þá að sjálfsögðu verða mjög hár tollur. En ef þeir lækkuðu sig svo, að t. d. 100% tollur dygði ekki, þá væru þessir erlendu framleiðendur að vinna okkur þarft verk, ef þeir vildu vinna til að gefa okkur mjólkina, en borga allt andvirði hennar í ríkissjóð. En að ætla að banna innflutning á þessari nauðsynjavöru til þess að innlendir framleiðendur geti öllu ráðið um þessa hluti, það nær ekki nokkurri átt.

Ég býst nú við, að hv. flm. séu rólegir fyrir þetta, af því að þeir vita, að þetta verður samþ., en ég vildi láta þá hafa þennan böggul með þessu skammrifi sínu, að þeir gætu vel lesið upp sem meðmæli með þessari hugmynd sinni gömul einokunarskrif frá 17. og 18. öld.