02.06.1933
Neðri deild: 92. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2464 í B-deild Alþingistíðinda. (3980)

179. mál, innflutningsbann á niðursoðinni mjólk

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Það væri nú freistandi að lesa hv. 3. þm. Reykv. duglega pistilinn og reka ofan í hann þá fjarstæðu og vitleysu, sem hann hefir rutt úr sér í sambandi við þetta mál, sem hann hefði ekki gert, ef hann hefði ekki verið að tala í hlustir heildsalanna, sem eru hér í hliðarherbergjunum, en menn eru nú einu sinni sendir inn á Alþingi til þess að greiða atkv. eftir eigin sannfæringu, en ekki eftir hagsmunum einstakra manna, sem kannske fara í bág við heill og afkomu þjóðarinnar. En af því að nú er alveg komið að þinglokum, þá skal ég ekki ræða frekar við hv. þm. um þá hluti. En þessi samlíking hv. þm. við hina illræmdu einokunarverzlun, sem hér var áður fyrr, á ekkert skylt við það að vilja á þennan hátt hlynna að þessari innlendu framleiðslu. Einokunin var eingöngu í því fólgin að selja verzlunina við Ísland í hendur erlendum mönnum, og var alveg gagnstætt því að hlynna að innlendri framleiðslu og sjá um, að við getum notið okkar markaðs. En það, að efla sem víðtækasta framleiðslu í landinu sjálfu, er einmitt sterkasta vopnið til þess að standa á móti erlendri kúgun.