02.06.1933
Neðri deild: 92. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2466 í B-deild Alþingistíðinda. (3983)

179. mál, innflutningsbann á niðursoðinni mjólk

Pétur Halldórsson [óyfirl.]:

Ég vil spyrja út af orðum hv. þm. Borgf.: Er nú svo sérlega mikill munur á því að selja innlendum eða útlendum mönnum í hendur einkasölu á neyzluvörum? Hér er verið að gefa eitt fordæmi fyrir því, að fyrirtæki hafi trygging fyrir því, að það geti með hvaða framleiðslukostnaði sem er haft hagnað af starfsemi sinni. En þetta verða landsmenn að borga. Ég sé engan mun á þessu og því, sem gert var á gamla einokunartímanum, að selja verzlunina í hendur einum manni. Ég sé ekki betur en að bein afleiðing þessarar stefnu sé sú, að ríkissjóður taki að sér fyrirtækin og einokaði þau til hagnaðar fyrir ríkissjóð. Hvers vegna leggja hv. þm. ekki til, að það spor sé stigið? Hví óska þeir ekki blátt áfram eftir því, að ríkissjóður kaupi verksmiðjuna og reki hana til hagnaðar fyrir ríkissjóð? Stefnan er hvort sem er sú, að einoka þetta. Og fleira kemur vitanlega á eftir, þegar búið er að einoka þetta. Ég hélt þó, að hv. þm. Borgf. vildi ekki stíga nein slík spor. En það er bein afleiðing þessa.