02.06.1933
Neðri deild: 92. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2466 í B-deild Alþingistíðinda. (3984)

179. mál, innflutningsbann á niðursoðinni mjólk

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Það er á afskaplegum misskilningi byggt, að hér sé verið að leggja inn á nokkra einokunarbraut, þótt þetta sé samþ. Það er ekkert í þessu frv., sem fyrirbyggir það, að samkynja fyrirtæki geti risið upp. Þetta frekar ýtir undir og er grundvöllur þess, að önnur slík fyrirtæki geti myndazt, ef þeim er tryggður innlendi markaðurinn. Þetta er því fjarstæða. Ég er alveg undrandi yfir því, hvað andstæða þeirra gegn málinu getur gengið langt, að þeir skuli líkja þessu við gömlu einokunina, eða þá ríkisrekstur nútímans. Þetta er fjarri öllu lagi. Ég skil ekki í, að þm. sjái ekki muninn á því og þó þetta sé gert, þegar þröngt er um sölu erlendis fyrir afurðir okkar, sem þó öll velferð landsins byggist á, að seljist. Það eru afurðirnar, sem framleiddar eru bæði á sjó og landi, sem halda í þjóðinni lífinu. Og er útlendi markaðurinn bregzt svo hrapallega sem nú, þá er eina lífsvonin að nota sem bezt hinn innlenda markað fyrir landsins eigin börn. Það er alveg undravert, að skýrir menn skuli geta leiðzt svo langt að tala gegn þessu máli eins og þeir hafa gert. En þótt þeir hitti oft á rétt rök í málum, þá bregzt þeim þó hér algerlega bogalistin og skjóta því langt yfir mark, svo langt, að þeir koma ekki nærri neinu, sem heitið geta rök. Þeir vekja upp gamla drauga og afturgöngur frá einokunartímanum og reyna að hræða menn með því um hábjartan daginn. Þetta sýnir óneitanlega nýja hlið á þessum hv. þm. Ég vil engar deilur vekja í þessu máli. En þetta komst ég ekki hjá að segja.