30.05.1933
Neðri deild: 87. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 580 í B-deild Alþingistíðinda. (399)

1. mál, fjárlög 1934

Hannes Jónsson:

Það má segja um fjárlagafrv., að það sé eins og nokkurskonar hringingarmiðstöð. Ef stutt er á einhvern lið í fjárl., þá hringir á einhverjum ákveðnum stað. Það hringir austur á Seyðisfirði, það hringir austur í Hornafirði, það hringir norður á Siglufirði, sem sagt, alstaðar verður einhver bjalla til að gjalla, hvenær sem farið er fram á að færa fjárlagfrv. til betri vegar.

Aðaluppistaðan í ræðu hv. 1. þm. Eyf. var það, að hann sagði, að ekkert af þeim ágætu rökum, sem hann hefði fært fyrir sínu máli hér í d., hefði verið hrakið. En ég held, að ekkert hafi bætzt við þau rök hans, sem ekki voru þó veigameiri en það, að till. hans var felld hér í d. (BSt: Aðeins með eins atkv. mun). Já, en það er nóg til þess, að það verður hægt að taka hana út aftur. Og ég hygg, að hv. þm. verði sér sjálfum samkvæmir um það, þar sem engin ný rök hafa komið fram í málinu. Hv. þm. hefði ekki átt að vera að ögra þingmönnum með því að segja, að ekkert væri hrakið af því, sem hann hélt fram um þetta mál.

Annars ætla ég ekki að fara að eltast við þessar bjölluhringingar. Um till. hv. þm. Seyðf. er það að segja, að vitanlega er á Seyðisfirði mikil þörf á að hafa atvinnureksturinn sem fjölbreyttastan, eins og þörf er á því í öllum kaupstöðum. En ríkinu ber skylda til þess, að leggja ekki fram of mikið fé í þá starfsemi, að litt rannsökuðu máli. Og þar sem nú liggur fyrir, að ríkið taki að sér síldarbræðslustöð til viðbótar við þær, sem það nú rekur, annaðhvort á leigu eða til kaups, þá sýnist sæmilegt spor stigið í áttina til aukningar á þeim atvinnurekstri.

Hæstv. fjmrh. var nú að vanda mjög vongóður um afkomu og hag ríkis og þjóðar. Ekki skal ég lasta það að vera vongóður í þessum efnum, en mér hefir virzt, að menn hafi verið vongóðir undanfarin ár, án þess þó, að þær vonir hafi rætzt. Því miður óttast ég, að svo fari einnig nú, og að talsvert mikil afföll verði af þeim. Þeir tekjuliðir, sem hæstv. ráðh. taldi, að búast mætti við hækkun á, voru sérstaklega verðtollurinn, vörutollurinn, tóbakstollurinn og útflutningsgjaldið. Útflutningsgjaldið er að vísu áætlað nokkru lægra en það reyndist síðastl. ár, og hæstv. ráðh. færði nokkur rök að því, að útflutningur síðastl. ár hefði verið frekar óvenjulegur. Með löggjöf frá þessu þingi hefir það verið lækkað um 40 þús. kr. frá því sem var á síðastl. ári, svo raunveruleg hækkun frá áætlun, til þess að von hæstv. ráðh. rættist, yrði því að vera um 150 þús. kr. frá því, sem miðað er við í þeim lögum, sem giltu um þetta á síðastl. ári.

Nú hefi ég afarlitla von um, að vörumagn geti orðið eins mikið til útflutnings á næstu árum eins og það var á síðastl. ári, né að verð á þeim verði betra en þá. Og þótt það yrði eitthvað betra, sem aldrei getur numið miklu, þá gæti það út af fyrir sig ekki haft nein veruleg áhrif á útflutningsgjaldið.

Ég skal nú ekki eyða mörgum orðum um hina aðra liði, sem okkur greinir á um, en verðtollinn verð ég að minnast á, því að þar munar einna mestu. Hæstv. ráðh. gerir ráð fyrir því, að hann muni gefa 250 þús. kr. meira af sér en áætlað er í fjárl.frv., eða jafnvel verða um hálfri millj. kr. meiri árið 1934 en hann reyndist verða síðastl. ár. Ég verð að álíta, að það sé að spenna vonabogann heldur hátt, að gera ráð fyrir meiri tekjum af þessum lið heldur en í fjárl.frv. er gert. Ég er sannfærður um, að tekjuáætlun fjárl.frv. er nær sanni en þessar tyllivonir hæstv. ráðh., þótt ég hinsvegar geti ekki fremur en hann fært fram óyggjandi sannanir. En til þess að fá nokkurt mat á þeim líkum, sem báðir færa fram fyrir sínum tekjuvonum fyrir ríkissjóð á næsta ári, ætla ég að biðja menn að athuga áætlun, sem hæstv. ráðh. gerði um það, hve mikið mundi sparast með brtt. mínum. Það stendur nú svo á um þær, að það er hægt að sýna fram á það með óyggjandi rökum, að mikið af þeim er beinn sparnaður, sem ómögulegt er að komast hjá að viðurkenna, að nemi a. m. k. 63700 kr. Hæstv. ráðh. segir, að það ætti að sparast 85 þús. kr.

Á hinum þrem liðunum, sem koma til greina, gerir hæstv. ráðh. ráð fyrir því, að komi 21300 kr.

Fyrir 21300 kr. ætlast hæstv. ráðh. til að keypt verði íbúðarhús á Blönduósi, sýslumannshúsið í Borgarnesi, Skálholt. (LH: Það er ekkert af þessu farið að kaupa enn). Ég geri ráð fyrir að það verði keypt. Það er auðvitað, að ef ekkert verður notað af þessari heimildagr., þá verða útgjöldin vegna hennar heldur engin. En til þess er hún sett, að ætlast er til, að hún verði notuð. Ef stj. lýsti því hinsvegar yfir, að ekkert verði gert, þá væri mér ekkert kappsmál að fella þetta niður. Ég skal nefna 3 fjárveitingaheimildir:

Til að kaupa Skálholt 30 þús. kr. Húsið í Borgarnesi 30 þús. kr. og húsið á Blönduósi 20 þús. kr. Hvernig hæstv. ráðh. fær út þessar 21300 kr. veit ég ekki. En gott væri, að hann notaði þessa upphæð sem tíðast, þegar hann fer að framkvæma frv. T. d. til þess að greiða verzlunarhalla útvarpsins, sem er áætlaður 11 þús. kr., en var síðastl. ár um 100000 kr. Það má enda ætla það, að útvarpsstjórinn með sinni venjulegu sparsemi muni þó varla treysta sér til þess að gera svo stóra hluti fyrir jafnlítið fé, sem hæstv. ráðh. virðist treysta sér til að gera.

Þá eru það vaxtatekjurnar, sem eru áætlaðar meiri en síðastl. ár. En nú hefir því verið ráðstafað svo, að vaxtatekjur, væntanlegar frá Búnaðarbankanum, 200 þús. kr., eiga að ganga í kreppulánasjóð. Er því sýnilegt, að vaxtatekjurnar verða minni en áætlað er í frv. Svona má lengi telja og sýna með rökum fram á, að tekjur hljóta að verða minni á ýmsum liðum en áætlað var. Og eins hitt, að útgjöld munu aukast stórkostlega. Og ég kalla, að vel takist, ef ekki þyrfti að gera ráð fyrir meira en ½ millj. kr. halla.

Út af útreikningi ráðh. um það, hvort brtt. mínar spara, vil ég segja það, að ef hann á við það, að eignir þær, sem 22. gr. heimilar kaup á, þurfi ekki að greiðast þegar, þá sé ég ekki, að betra sé að mynda slíkar skuldir heldur en að taka lán til þeirra framkvæmda, sem ráðizt er i. Nú hygg ég, að bráðlega verði lagt fyrir þessa hv. d. frv., er heimilar ríkisstj. að taka 100 þús. £ lán til þess að mæta rekstrarhallanum. Nú hafa lausaskuldir hlaðizt svo upp hjá ríkissjóði, að um frekari lántökur innanlands er ekki að ræða. Er þá ekki annað fyrir hendi en að auka skuldir erlendis. Og þrátt fyrir þetta segir hæstv. ráðh. og sjálfsagt mikill hluti hv. dm., að allt sé í góðu lagi og vilja taka við fjárl. óbreyttum eins og þau koma frá Ed. Ég vil benda á það, að a. m. k. ein brtt. mín verkar til sparnaðar um 160 þús. kr. á næstu árum, auk 40 þús. kr. sparnaðar strax. Og hæstv. ráðh. getur ekki með neinum útreikningum fengið þessa upphæð lægri. Það mun nú varla vera rétt að halda lengur áfram að telja kjark úr mönnum, þar sem ákveðið mun vera að samþ. frv. óbreytt. En einkennilegt er að sjá fram komnar till. til hækkunar frá mönnum úr fjvn. Það sýnir, hve sá hugsunarháttur er ríkjandi, að allt sé gott, bara ef menn koma sínum brtt. fram. Þá er allt í lagi. Eina leiðin til að gera slíka menn ánægða er að samþ. brtt. frá þeim, sem þjóna þeirra eigin hagsmunum. Þetta er versta mynd eigingirninnar. Og þetta eru menn, sem falið er að sjá um, að afgreiðsla fjárl. sé í sæmilegu lagi.

Hæstv. fjmrh. vildi nú gera gott úr þessu öllu saman. Þegar hann var búinn að teygja sem mest mátti vera úr þeim tekjuvonum, sem samþ. tekjustofnar kunna að veita, þá fór hann líka að tala um tekjuvonir af frv., sem enn hafa ekki fengið samþ. En svo hlálega vildi nú til, að í Ed. var í dag neitað um afbrigði fyrir stærsta tekjuaukafrv. Var þó málið einungis til 1. umr. Og hvers vegna var neitað um afbrigðin? Vitanlega í þeim tilgangi að það nái ekki framgangi á þessu þingi. Og þótt reiknað væri með því, að það gangi fram, þá gefur það einungis tekjur fyrir yfirstandandi ár. Og ætli Ed. yrði ekki treg á að taka það í faðm sinn aftur? Ætli hún þykist ekki beygja sig nóg, ef hún samþ. það í þetta sinn? Nei, allt þetta tekjuaukafargan gefur sannarlega ekki glæsilegar vonir um framtíðina. Og margar vonir geta svikið í sambandi við tekjuöflun ríkissjóðs, svo Alþ. ætti fyrst og fremst að hugsa um að spara þau útgjöld öll, sem hægt er að komast hjá, bæði bein framlög og einnig ábyrgðir, sem nóg er komið af. Og annað, sem nauðsyn ber til að gert sé, er það, að skapaður verði fastur tekjugrundvöllur, svo ekki þurfi að hrekjast með bráðabirgðatekjuaukal. ár frá ári. Og ég hygg, að bráðlega komi hörð krafa um að fella niður 1. um frestun á framkvæmd nokkurra l. Sé ég þá ekki annað en að þingið verði þá í hreinustu vandræðum með tekjustofna. Og hvernig á þá að komast úr lausaskuldunum, sem eru orðnar mörgum mikið áhyggjuefni?

Ég gleymdi að taka það fram áður, þegar ég talaði um þessa bráðabirgðatolla, að verðtollurinn er einn af þeim. Hann hefir nú staðið hartnær 10 ár og alltaf verið samþ. þing frá þingi til bráðabirgða. Og þó er þetta tekjustofn, sem ekki er hægt að fella niður. Ég vil bæta fáeinum orðum við það, sem ég sagði um till. þær, sem hv. 1. þm. Eyf. svaraði fyrir. Ég hefi lauslega minnzt á aðra. Hin er um það, að ríkið taki ábyrgð á 70 þús. kr. rekstrarláni til tunnuverksmiðju á Siglufirði. Það fer nú að verða erfitt að standa gegn kröfum atvinnufyrirtækja, ef þessi heimild er látin standa. Fyrst fær þessi tunnuverksmiðja stuðning ríkisins, þegar hún er sett á fót. Og svo á að ábyrgjast fyrir hana rekstrarfé. Allt stefnir að því, að ríkisrekstur verði á hverju fyrirtæki, eða þá, að þau verði rekin á ábyrgð ríkisins. Ég kalla nú, að hér sé farið fram með sérstakri frekju gagnvart ríkissjóði. Í þessu efni kemur vissulega til greina, að „víðar er guð en í Görðum“. — Það eru víðar tunnugerðir en á Siglufirði. Ein er t. d. á Akureyri, og veit ég ekki til, að hún hafi notið neins ríkisstyrks. Það væri ekki nema eðlilegt, að hún færi að biðja um stuðning líka. Og þegar farið er að styrkja tunnugerðir yfirleitt, hvers vegna þá ekki að styrkja allar aðrar iðngreinar? Og svo segir háttv. þm. Eyf., að óhæfilegt sé að taka þetta út, af því að þessi deild vildi ekki taka það inn. Svona röksemdir eru vægast sagt einkennilegar.