01.06.1933
Efri deild: 83. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2474 í B-deild Alþingistíðinda. (4002)

125. mál, víxillög

Frsm. (Jón Þorláksson):

Þetta frv. er stóreflis lagabálkur í 95 greinum og kom ekki til n. fyrr en nú undir þinglokin. Þar að auki fjallar það um flókið og vandasamt sérfræðilegt efni, svo að n. hafði ekki tök á að vinna að því eins og til er ætlazt af henni um önnur mál, að taka hverja grein út af fyrir sig og athuga hana. Þessi löggjöf er að miklu leyti samin í samræmi við erlend lög um þessi sömu efni. Og af þessu leiðir, að það getur engan veginn hægt til að mynda sér rökstudda skoðun um einstök atriði frv., að yfirfara greinar þess sjálfar, heldur þarf auðvitað líka að bera saman við þá hina erlendu löggjöf, sem er verið að samræma þetta við. Þetta hefir n. alls ekki getað gert eins og þarf, eftir að hún fékk frv. í þinglokin, og var þá um það að velja fyrir n., hvort hún vildi stöðva framgang málsins á þessu þingi eða leggja til, að það yrði samþ., með þeim undirbúningi, sem það hefir fengið hingað til.

Nú er þetta frv. samið af sérfræðing fyrir ríkisstj. og flutt þannig í Nd., en sem þmfrv. Auk þess virðist það hafa fengið allgrandgæfilega athugun í nefnd í Nd., enda hafði sú n. það lengi til athugunar og gerði á því nokkrar breyt.

Að öllu þessu athuguðu þótti fjhn. þessarar hv. d. þó réttara að leggja til, að þessi langi lagabálkur yrði lögleiddur, heldur en hitt, að hann yrði látinn daga uppi og bíða næsta þings. Þó má kannske að einhverju leyti telja þetta athugavert. En ég vil þá taka fram, að frá sjónarmiði þeirra manna — og þeir eru til í þessari deild —, sem halda fram, að Alþingi ætti ekki að vera nema ein málstofa, þá ætti ekki að vera sérstaklega athugavert, þótt treyst sé á starf einnar þingdeildar, og ekki sízt þegar frv. hefir verið undirbúið á réttan og reglulegan hátt af ríkisstj. Samkv. þessu er það, að n. leggur til að samþ. frv. óbreytt.