26.05.1933
Neðri deild: 83. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2477 í B-deild Alþingistíðinda. (4012)

126. mál, tékka

Frsm. (Jón Auðunn Jónsson):

Það er sama um þetta frv. og það, sem næst var á undan á dagskránni, frv. til víxill. N. hefir ekki gert aðra efnisbreyt. á því en að sýningarfresturinn verði lengdur. Eftir frv. er hann ákveðinn 20 dagar, en vegna þess, að samgöngur hér á landi eru ekki svo góðar, að víst sé, að unnt hafi verið að sýna tékka innan þess tíma, taldi n. rétt að lengja frestinn upp í 30 daga fyrir innlenda tékka, en upp í 40 daga — í stað 20 eftir frv. — fyrir tékka, sem gefnir eru út erlendis. Er þetta heimilt eftir þjóðasamþykktinni frá 19. marz 1931 um samræming tékkalöggjafarinnar milli þeirra þjóða, sem að samþykktinni standa, en frv. er borið fram með það fyrir augum, að Ísland gangi í þessa þjóðasamþykkt. Nýmæli og frávikningar þessa frv. eru færri en í víxillagafrv., enda eru gildandi 1. um tékka frá 1901 og sniðin eftir því, sem þá voru l. á Norðurlöndum. Ýmis atriði eru það þó, sem gjalda verður varhuga við, og eru þau tekin fram í nál. á þskj. 776. Skal ég aðeins vekja athygli á því nýmæli frv., að samkv. því má aðeins gefa út tékka á peningastofnanir, banka og sparisjóði, í stað þess, sem samkv. gildandi l. má gefa út tékka á hendur hverjum, sem er. Skapast með þessu miklu meira öryggi um greiðslu tékka, en lítið mun þó hafa verið um það hér á landi, að tékkar hafi verið gefnir út á einstaka menn eða félög, en erlendis var þetta nokkuð algengt. Þá er það og nýmæli í frv., að peningastofnun sé heimilt að greiða tékka, sem ekki hefir verið afturkallaður, þótt sýningarfrestur sé liðinn, og afturköllunin er þó því aðeins möguleg, að bankinn hafi ekki ritað á tékkann orð eða merki, sem skuldbindi hann til greiðslu.

Ég sé svo ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri, en legg til f. h. n., að frv. verði samþ. með þeim breyt., sem getur á þskj. 776.