27.05.1933
Neðri deild: 84. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2481 í B-deild Alþingistíðinda. (4033)

127. mál, varnarþing og stefnufrest í víxilmálum

Bergur Jónsson:

Ég ætla ekki að fara að mótmæla þessu frv., sem hér liggur fyrir, en ég vildi benda á það áður en málið fer út úr d., að bæði við þetta mál, víxillagafrv. og tékkafrv. hefir verið höfð röng aðferð. Þessum málum hefir verið vísað til fjhn. í staðinn fyrir allshn. Segi ég þetta þó ekki af því, að ég er allsherjarnefndarmaður, heldur þótti mér rétt, að á þetta væri bent áður en málin fara til hv. Ed. Það nær ekki nokkurri átt að vísa til fjhn. málum eins og víxlum og tékkum, sem eru hrein viðskiptamál, hvað þá máli eins og þessu, sem er hreint réttarfarsmál. Maður verður að gera ráð fyrir því, að þær n., sem fá mál til meðferðar, séu eitthvað betur fallnar til þess að eiga við þann málaflokk, sem undir þær heyra, en þann málaflokk, sem þær eru óvanar að fást við. Ég vona, að hv. Ed. breyti þessu, þó að það sé ekki venja að skipta um n. milli d.