30.05.1933
Neðri deild: 87. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 593 í B-deild Alþingistíðinda. (405)

1. mál, fjárlög 1934

Jón Auðunn Jónsson:

Ég get greitt flestum brtt. hv. þm. V.-Húnv. atkv., af þeim sömu ástæðum, sem hann hefir fært fram. En hvað snertir brtt. mína á þskj. 830 vil ég minna á það, að hér er um heimild að ræða til varúðarráðstöfunar, sem því aðeins á að nota, að vitamálastjóri telji bráðnauðsynlegt að hefjast handa um endurbætur á því mannvirki, sem hér er um að ræða. Og ef það mannvirki fer forgörðum, eru útgerðarfyrirtækin á þessum stað lögð í rústir, og þeim mönnum, sem á þeim lifa, allar bjargir bannaðar. Af atvinnurekstri þessa staðar hefir ríkissjóður fengið nál. 100 þús. kr. nettótekjur á ári. Það væri hart fyrir þá menn, sem slík gjöld bera, ef ríkissjóður léti það mannvirki eyðileggjast, sem öll afkoma þeirra byggist á. Þeir hv. þm., sem greiða atkv. á móti þessari heimild, bera ábyrgðina, ef illa fer. Og væntanlega yrði þeim þá ljúft að ráðstafa fólkinu, sem þarna gæti ekki lifað lengur.

Hæstv. fjmrh. sagði, að ekki bæri á því, að önnur ríki lækkuðu svo mjög útgjöld sín nú. Ég vil minna hann á, að eitt stærsta ríki heimsins, Bandaríkin, hefir samþ. útgjaldalækkun, sem nemur einni biljón dollara, eða 26% af öllum gjöldum ríkisins. Og mér er ekki kunnugt um annað en öll ríki reyni að draga sem mest saman og lækka sín árlegu útgjöld á þessum erfiðu tímum.