11.05.1933
Neðri deild: 71. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2485 í B-deild Alþingistíðinda. (4055)

191. mál, mjólkurbúastyrk og fl.

Björn Kristjánsson:

Ég get því miður ekki orðið við þeim tilmælum hv. aðalflm. þessa frv. að lýsa yfir fylgi mínu við það. Ég get a. m. k. ekki fellt mig við það, sem mér skilst vera aðalatriði frv., að ríkissjóður leggi fram helming af stofnkostnaði mjólkurbúanna, sérstaklega vegna þess, að í því er svo mikið ósamræmi við aðrar tegundir fyrirtækja, sem vinna úr afurðum bænda. Eins og kunnugt er, hefir frystihúsum bænda verið komið upp án framlaga frá hinu opinbera. Ríkið hefir að vísu útvegað hentug lán til þeirra eins og mjólkurbúanna, en um beinan styrk hefir ekki verið að ræða. Nú á þessu þingi kemst þó væntanlega inn í frv. um ýmsar ráðstafanir vegna kreppunnar ákvæði um framlag til frystihúsanna, allt að einum fjórða kostnaðar. Enn hefir þó ekki verið farið fram á annað en að það væri aðeins heimild, en ekki skylda, og á því er strax nokkur munur. Í frv. því, sem hér liggur fyrir, er svo ákveðið, að mjólkurbúin fái skilyrðislaust helming stofnkostnaðar, að undanteknu Mjólkurfélagi Rvíkur. Þegar litið er á það, að framleiðsla kjöts er miklu óálitlegri atvinnuvegur heldur en framleiðsla mjólkur, af því verðfall kjötsins er miklu meira en á mjólkinni, þá finnst mér alls ekki ástæða til að mismuna þannig mjólkurframleiðendum og kjötframleiðendum. Ég hefi heyrt þá ástæðu fram borna, að einmitt af því mjólkurframleiðslan er álitlegri atvinnuvegur heldur en kjötframleiðslan, þá sé rétt að styðja mjólkurframleiðsluna meira. Þetta gæti verið réttmæt ástæða, ef svo væri, að bændur gætu allflestir farið að framleiða mjólk í stað kjöts. En því fer fjarri, að svo sé. Það eru mjög víða á landinu engin skilyrði til mjólkurframleiðslu í stórum stíl. Það eru aðeins fá héruð, sem vel eru fallin til nautgriparæktar. Íbúar annara héraða eru því útilokaðir frá að njóta þess stuðnings, sem mjólkurframleiðendum er boðinn. Þess vegna er ekki rétt að gera þennan mun á kjötframleiðendum og mjólkurframleiðendum.

Nú veit ég, að hagur sumra mjólkurbúanna er ákaflega slæmur, og ég vil sízt hindra, að þeim sé hjálpað eftir því, sem hægt er og þau hafa virkilega þörf fyrir. En hitt er líka vitanlegt, að sum þessara búa hafa ágætan fjárhag, t. d. Mjólkurfélag Rvíkur og eins Mjólkursamlag Eyfirðinga. Ég veit ekki annað en þau fyrirtæki gangi bæði vel og séu fjárhagslega trygg. Sé ég því enga ástæðu til að styrkja þau meira en frystihúsin. Hinsvegar get ég verið með því, að þeim búum sé hjálpað, sem versta aðstöðu hafa til rekstrar og mestar skuldir. En þá vil ég, að það sé gert sem kreppuráðstöfun, en ekki þannig, að þau mjólkurbú, sem stofnuð kunna að verða framvegis, geti átt von á styrk, sem nemur helmingi stofnkostnaðar.

Til þess að sýna, hvað mikill munur er á kjötframleiðslunni og mjólkurframleiðslunni vil ég benda á það, að samkv. upplýsingum, sem ég hefi fengið um mjólkurverð og framleiðslukostnað mjólkur í Eyjafirði, mun láta nærri, að bændur þar fái 11—12 kr. fyrir hvern heyhest, sem þeir framleiða til kýrfóðurs. Í Þingeyjarsýslu fá menn aftur á móti í mesta lagi 7—8 kr. fyrir heyhestinn, sem þeir fóðra á sauðfé. Þetta sýnir, hver mismunur er á skilyrðunum til þessarar tvennskonar framleiðslu, og að ekki er réttlátt að auka þann mismun með því að leggja aðeins ¼ kostnaðar til frystihúsanna, en helming kostnaðar til mjólkurbúanna.

Einnig vil ég benda á það, að ef frv. er lögtekið í því formi, sem það er í nú, þá sé ég ekki, að mögulegt verði að komast hjá að veita þeim mjólkurbúum einnig helming stofnkostnaðar, sem síðar kunna að rísa upp. Ég sé ekki ástæðu til, að þau væru útilokuð frá að fá sama styrk. Ég er hræddur um, að þetta gæti jafnvel orðið til þess að ýta undir það að mjólkurbú yrðu stofnuð þar sem ekki eru nægilega góð skilyrði fyrir rekstur þeirra; að vonin um hinn háa styrk gæti orðið til þess, að meira yrði gert að því að koma upp mjólkurbúum og framleiða mjólk heldur en heppilegt væri fyrir þjóðarheildina. A. m. k. gæti þetta valdið ríkissjóði miklum útgjöldum.

Ég sé svo ekki ástæðu til að segja fleira að sinni. Ég vildi láta koma fram þegar við þessa umr., að ég er óánægður með sum ákvæði frv. og býst við að koma fram með brtt. við 2. umr.