20.05.1933
Neðri deild: 71. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2489 í B-deild Alþingistíðinda. (4057)

191. mál, mjólkurbúastyrk og fl.

Björn Kristjánsson:

Það er aðeins aths. út af því, sem hv. þm. G.-K. sagði um það, að ekkert fordæmi væri skapað með því, þó frv. þetta yrði samþ. Ég verð að halda fast við mína skoðun á því atriði, af því að hér er ekki um heimild að ræða eins og að því er snertir styrkinn til frystihúsanna, heldur er fastákveðið, að styrkurinn til þeirra mjólkurbúa, sem búið er að koma á fót, skuli vera helmingur stofnkostnaðar. Einmitt af því að þessu er slegið föstu í frv., get ég ekki annað skilið en að það hljóti að verða skoðað sem fordæmi, og að ekki verði hægt að neita samskonar búum, sem stofnuð kunna að verða í framtíðinni, um sama stuðning.

Eins og ég tók fram í fyrri ræðu minni, get ég fylgt því með glöðu geði, að þau af mjólkurbúunum fái viðbótarstyrk, sem áreiðanlega hafa þörf fyrir hann, en að mínu áliti er þó nauðsynlegt, að frv. sé breytt í heimildarform. Eins og það er, er enginn munur gerður á því, hvort búin eru vel eða illa stæð. Það hlýtur að verða til þess, ef samþ. er, að ekki yrði hægt að neita þeim búum, sem seinna rísa upp, um sama styrk.

Það er auðvitað lofsverður hugsunarháttur, sem fram kom hjá hv. þm. G.-K., að ekki ætti að vera að metast um það, hvar kæmi niður slík hjálp, sem hér er um að ræða. Það er náttúrlega gott og blessað. En ég sé þó ekki neina þörf á því eða samræmi í því að láta hjálpina koma niður hjá þeim mjólkurbúum, sem eru vel stæð, en synja öðrum héruðum um hana, sem komizt hafa í örðugleika vegna sláturhúsa- og frystihúsabygginga, þó þörfin sé þar miklu meiri.

Ég sé svo að öðru leyti ekki ástæðu til að deila um þetta mál að sinni. Ég býst við, ef ekkert nýtt kemur fram, að ég haldi fast við þær brtt., sem ég hefi hugsað mér að flytja við 2. umr. Ég hefi ekki sannfærzt svo af því, sem fram kom í ræðu hv. 1. flm., að ég geti látið það ógert.