13.05.1933
Neðri deild: 73. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2492 í B-deild Alþingistíðinda. (4062)

191. mál, mjólkurbúastyrk og fl.

Frsm. (Pétur Ottesen) [óyfirl.]:

Landbn. hefir orðið ásátt um það að mæla með því, að frv. verði samþ. óbreytt. Fer ég ekki út í það að rekja ástæðurnar fyrir því, að frv. er fram komið, því það gerði hv. þm. G.-K. svo rækilega við 1. umr. málsins, að við það er engu að bæta.

Það hefir komið fram brtt. um það, að 1. gr. frv. skuli orðast svo:

Ríkisstj. heimilast að greiða úr ríkissjóði viðbótarstyrk til mjólkurbúanna í Eyjafirði, Borgarfirði, Árnessýslu og Reykjavík, er nemi allt að ¼ af stofnkostnaði þeirra hvers um sig, ef rannsókn leiðir í ljós, að fjárhagsástæður þeirra eru svo erfiðar vegna yfirstandandi kreppu, að þau geti ekki framvegis rekið starf sitt á heilbrigðum grundvelli“.

Ég býst ekki við því, að þetta hafi nokkur áhrif hvað framkvæmd málsins snertir, því að það hefir einmitt þess vegna verið farið fram á þennan viðbótarstyrk, að kostnaður þessara búa hefir reynzt allt að helmingi meiri en ráð var fyrir gert í upphafi, og síðan hefir mjólkurverðið fallið um 40—50%. Sjá þá allir, hver aðstaða þeirra muni vera nú.

Mér virtist það koma fram hjá einum af hv. flm. brtt., að hann álíti hana í samræmi við till., er hér var samþ. fyrir skömmu, um heimild fyrir stj. kreppulánasjóðs til að greiða nokkurn styrk til frystihúsa. Þegar þessar tvær till. eru bornar saman, þá sést, að þeim ber ekki saman að öðru leyti en því, að í báðum er gert ráð fyrir þessari heimild. En í till. um frystihúsin er ekki gert ráð fyrir neinni rannsókn, eins og í þessari. Veit ég ekki, hvort það stafar af því, að hv. flm. séu haldnir af einhverri tortryggni gagnvart þessum fyrirtækjum, sem hér ræðir um, fremur en gegn frystihúsunum.

Hv. flm. hafa ekki athugað sem skyldi samband það, sem er milli 1. og 2. gr. frv. Í 2. gr. er talað um viðskipti ríkisins og mjólkurbús Flóamanna, og er gert ráð fyrir, að mjólkurbúið greiði aftur þann helming af ríkissjóðsláni til stofnunar búsins, sem eftir verður, þegar frá er dreginn styrkur samkv. 1. gr. Ef það sýndi sig, að annað en helmingshlutfall yrði hér á, þá rækist þetta á 2. gr. Veit ég ekki, hvort hv. flm. hafa athugað þetta, en ef þeir vilja athuga það, þá býst ég við, að þeir hljóti að viðurkenna, að þetta er svona. Sem sagt, að það, sem þeir vilja tryggja með þessari brtt. sinni, er það, að ekki verði farið að veita að óþörfu viðbótarstyrk. En það er algerlega óþarft, því að það er vitað af ríkisstj., sem hefir lánað allt fé til Flóabúsins og auk þess ábyrgzt lán fyrir hin búin, og þar af leiðandi hefir kunnugleika á þessu og fylgist með um rekstur þessara búa, að það er hennar að gæta hagsmuna ríkissjóðs í þessu efni. Þá hefir þetta enga þýðingu í sjálfu sér, þó að þetta verði samþ. hvað það snertir, að þessi nauðsyn, sem hér um ræðir, er fullkomlega til staðar. En mér virtist að það koma þó fram í þessu talsvert ósamræmi við þessa till. um styrk til rjómabúa, að því er niðurlag till. snertir. Það er óviðkunnanlegt, að það sé verið að sýna tortryggni í öðru tilfellinu, sem hvergi kemur fram í hinu tilfellinu. Þar sem slíkt er með öllu ástæðulaust, þá virðist mér, að þingið eigi fremur að ganga á snið við að lögfesta slíkan hugsunarhátt.

Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta að sinni, en aðeins bæta því við, að við höfum gert grein fyrir því hér, að mjólkurbú Mjólkurfélags Rvíkur fengi nokkru lægri styrk en hin búin, sem er í samræmi við það, sem verið hefir, en með þessari brtt. er stjórninni a. m. k. gefið undir fótinn með að gera það jafnrétthátt hinum búunum, því að í brtt. er talað um að greiða allt að ¼ af stofnkostnaði hvers bús sem uppbótarstyrk til allra búanna án þess að nokkuð sé undanskilið Mjólkurfélag Rvíkur, en í frv. er ekki gert ráð fyrir, að það fái nema 3/8, í staðinn fyrir, að hin búin eiga að fá allt að því helming. Það getur vel verið, að hv. flm. till. geti falið þetta í því, að það er sagt, að eigi að greiða allt að, en ef þeir hefðu getað gengið inn á, að mjólkurbú Mjólkurfélags Rvíkur yrði sett skór lægra heldur en hin búin, þá hefði það átt að koma fram í till. eins og það kemur fram í frv. því, sem hér liggur fyrir. Það má leggja þann skilning í það, að þeir vildu þurrka burt þann mismun, sem gerður hefir verið á styrkveitingum til þessa bús og hinna búanna. (StgrS: Þetta er misskilningur hjá hv. þm.). Það er hægt að skilja till. þannig, en ég hefi ekki heyrt hv. þm. tala fyrir henni. Það getur verið, að þeir geti gefið einhverja aðra skýringu á meiningu hennar en sem í henni felst eða lesa má út úr henni. En eins og hún liggur fyrir, þá liggur næst að leggja þennan skilning í hana. Mér er ekki að öðru leyti en af sögusögn hv. 1. þm. Eyf. kunnugt um hag mjólkurbúsins þar, en hv. 1. þm. Eyf. getur gefið upplýsingar um það upp á sinn máta, eins og við höfum gefið upplýsingar um hag og afkomu búanna hér sunnanlands, ef það kynni að vera, að afkoma þess félags, sem hefir komið hv. flm. til að orða niðurlag sinnar brtt. á þann hátt, sem þeir hafa gert á þskj. 676.