13.05.1933
Neðri deild: 73. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2494 í B-deild Alþingistíðinda. (4063)

191. mál, mjólkurbúastyrk og fl.

Steingrímur Steinþórsson:

Ég hafði ekki ætlað mér að lengja umr. mjög um þetta mál, en hv. þm. Borgf. hefir nú þegar talað alllengi um þetta atriði, svo ég get ekki lofað því, að það sé öruggt, að þessari 2. umr. málsins verði lokið á þessum fundi, þó ég annars hafi velvilja til þessa máls og vildi óska, að svo gæti orðið.

Ég vil þá geta þess, eins og hv. þm. Borgf. líka tók fram, að ég gat ekki fylgzt með samnm. mínum í landbn. í því að fylgja þessu frv. óbreyttu, vegna þess að mjólkurbúin samkv. þessu frv. eru algerlega tekin út úr og ætlaður meiri styrkur en öðrum hliðstæðum fyrirtækjum hér á landi. Vil ég þar vitna til ræðu, sem hv. þm. N.-Þ. hélt við 1. umr. þessa máls.

Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um það, að frystihúsin og mjólkurbúin eru hliðstæðar stofnanir hér á landi. Báðar hafa verið settar á stofn til þess að koma afurðum landsmanna í verð annaðhvort utan lands eða innan á hagkvæmari hátt en áður var.

Ég get ekki viðurkennt, að ástæða sé til að styrkja mjólkurbúin frekar en sláturhúsin eða frystihúsin, einkum með tilliti til þess að það er víst, að kjöt hefir fallið meira í verði heldur en mjólk.

Hv. þm. Borgf. hélt því fram, að ég ætti ekki að vera að rengja það, að mjólk hefði fallið í verði um 40 til 50%. En kjöt hefir fallið um meira en þetta. Ef taka á tillit til þessara hluta, þá ætti að styrkja frystihúsin meira en mjólkurbúin.

Það er fyrst og fremst af þessu, sem ég hefi ekki getað fylgzt með samnm. mínum um afgreiðslu þessa máls á þeim grundvelli, sem lagður er í frv. Þó get ég eftir atvikum fallizt á það að setja mjólkurbúin skör hærra en frystihúsin, því að með því, sem er í frv. því, sem afgreitt hefir verið til Ed., ég á þar við frv. til l. um ýmsar ráðstafanir vegna fjárkreppunnar, er svo ákveðið, að frystihúsin fái aðeins ¼ af stofnkostnaði sínum sem styrk frá ríkissjóði. Þennan styrk hafa mjólkurbúin öll hlotið áður, þegar þau voru byggð, svo að með ákvæðum þess frv. hefir þegar verið jafnað milli þessara 2 aðilja, sem ég álít hliðstæða. Ég vil þó til samkomulags teygja mig svo langt að heimila, að mjólkurbúin verði styrkt með helmings framlagi miðað við stofnkostnað þeirra, ef undangengin rannsókn leiðir það í ljós, að þau, sökum yfirstandandi kreppu, geti ekki rekið starf sitt á heilbrigðum grundvelli. En ég get ekki fallizt á að gera svo mikið upp á milli þessara tveggja hliðstæðu stofnana, að sjálfsagt sé að styrkja hvert mjólkurbú með svona miklu framlagi, án þess að upplýst sé, hvort þörf er á því eða ekki. Ég álít það alveg út í bláinn hjá hv. flm. að setja mjólkurbú Mjólkurfélags Rvíkur svo miklu lægra en öll önnur mjólkurbú. Mér virðist það eitt rétt í þessu máli að láta fara fram rannsókn á hag allra þessara búa, eins og út af öðrum kreppuráðstöfunum, og láta þá rannsókn skera úr um það, hve mikill viðbótarstyrkur er nauðsynlegur fyrir hvert bú. Virðist eðlilegast, að mjólkurbú Mjólkurfélags Rvíkur sæti þar sömu meðferð og hin búin.

Ég álít þetta vera kreppuráðstöfun og að það eigi að rannsaka, að hve miklu leyti þörf er á að ganga lengra í fjárstyrk til mjólkurbúa en til frystihúsa, samkv. þessu frv. Þetta er mín skoðun, og ég hygg annara flm., sem ásamt mér fluttu brtt. á þskj. 676.

Hv. þm. Borgf. var eitthvað að tala um tortryggni hjá okkur gagnvart mjólkurbúunum. Þessu mótmælti ég algerlega. Við, sem viljum styðja þetta mál, en viljum aðeins breyta því á þennan hátt, það er engin tortryggni. Við fylgjum því, að jafnvel sé gengið lengra í að hjálpa mjólkurbúunum heldur en frystihúsunum. En við getum ekki fallizt á, alveg skilyrðislaust, að öll mjólkurbú fái helmingsframlag miðað við stofnkostnað sinn. — Ég vil líka í þessu sambandi benda á það, að þó þetta eigi ekki að skapa það fordæmi, að þau mjólkurbú eða rjómabú, sem framvegis verða stofnuð, eigi að njóta þessa styrks, þá verður það þungt á metunum, að búið er að veita þeim mjólkurbúum, sem þegar eru stofnuð, svona mikinn styrk, án þess að rannsókn hafi leitt í ljós, að yfirstandandi kreppa hafi skapað þá nauðsyn.

Ég hygg, að það sé heppilegra fyrir þróun þessara mála, að framkvæmd verði rannsókn á því, hvort þörf er fyrir þetta eða ekki, því að ef skilyrðislaust er veittur þessi styrkur til þeirra mjólkurbúa, sem búið er að stofna, þá er ekki hægt að standa á móti því, að þau bú, sem síðar verða stofnuð, fái sama styrk, ef þau krefjast þess. Vil ég því vænta, að brtt. okkar á þskj. 676 nái samþykki þessarar hv. d., því að ég hygg, að það, sem vakað hefir fyrir forgangsmönnum þessa máls, sé einmitt að gera þessi þjóðþrifafyrirtæki starfhæf á þessum krepputímum, sem nú ganga yfir land vort, og ég held, að brtt. okkar skerði það ekki, að það geti orðið. Samkv. henni á aðeins að fara fram óhlutdræg rannsókn á því, hvort þörf sé fyrir þennan styrk eða ekki. Það er ekkert annað. Aðeins á þeim grundvelli get ég fylgt því, að svona langt sé gengið eins og farið er fram á með styrk til mjólkurbúanna.

Hv. þm. Borgf. var að tala um það, að 1. þm. Eyf. mundi geta upplýst um þörf Mjólkurbús Eyfirðinga fyrir þetta fjárframlag. Ég efast ekki um það, að hvaða þm. sem er mundi geta gefið skýrslu um þörf hvaða fyrirtækis sem er í sínu kjördæmi fyrir fjárstyrk. En það er ekki fyrst og fremst hlutverk þessarar hv. d. að taka alveg gagnrýnislaust á móti öllum slíkum kröfum og telja það sem alveg fullnægjandi upplýsingar um þörf þeirra fyrirtækja. Þar verður að fara fram rannsókn af óhlutdrægum mönnum á því sviði, sem geti skýrt frá því, hvort þörf er á vegna þessara fjárhagsörðugleika að hlaupa undir bagga með þessum fyrirtækjum.

Við, sem erum flm. þessara brtt. á þskj. 676, erum allir úr kjördæmum, þar sem aðalframleiðsla bændanna er kjöt. Þessi héruð hafa orðið að leggja stórfé á síðustu árum til frystihúsbygginga. En við höfum sýnt framleiðendum mjólkurhéraðanna fullan skilning að vilja veita helmingi meira framlag til þeirra, ef þörf krefur, en viljum ekki gera það án þess að rannsókn leiði í ljós, að þess sé þörf. Hér er því um algert sanngirnismál að ræða, og alls ekki sæmandi fyrir deildina að afgr. málið á öðrum grundvelli en við leggjum til, af því að það er borið fram sem kreppuráðstöfun og ekki annað.