15.05.1933
Neðri deild: 74. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2497 í B-deild Alþingistíðinda. (4065)

191. mál, mjólkurbúastyrk og fl.

Björn Kristjánsson:

Ég hafði við fyrri hluta þessarar umr. kvatt mér hljóðs til að svara hv. frsm. En 1. þm. Skagf. hafði þá gert það á undan mér og í ræðu sinni svarað hv. flm. Get ég látið það nægja og fell því frá orðinu að mestu leyti. Ég vil aðeins taka það fram, að þegar við bárum fram brtt. okkar á þskj. 676, við 1. gr. frv., höfðum við eigi gætt þess, að sú breyt. leiddi til annarar nauðsynlegrar breyt. á 2. gr., en þar segir svo: „Mjólkurbú Flóamanna greiðir þann helming af ríkissjóðsláni til stofnunar búsins“ o. s. frv. Er þar byggt á því ákvæði 1. gr. frv., að ríkið greiði helming stofnkostnaðar þessara mjólkurbúa. Ef brtt. á þskj. 676 verður samþ., þá er því ekki slegið föstu, að ríkið greiði helming stofnkostnaðar, og þá ekki heldur fyrir mjólkurbú Flóamanna, þar sem aðeins verður um heimild að ræða fyrir ríkisstj. að greiða hluta, sem mest má nema því, að framlag ríkissjóðs verði helmingur stofnkostnaðar alls. Þessu má ná með því að í stað orðsins „helming“ í fyrstu málsgr. 2. gr. komi: hluta. Mun ég afhenda hæstv. forseta skrifl. brtt. þess efnis og vænti, að henni verði leyft að koma til umr. og atkv.

Að öðru leyti þarf ég eigi við að bæta það, sem háttv. 1. þm. Skagf. sagði um brtt. okkar við fyrri hl. þessarar umr.