15.05.1933
Neðri deild: 74. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2504 í B-deild Alþingistíðinda. (4069)

191. mál, mjólkurbúastyrk og fl.

Frsm. (Pétur Ottesen) [óyfirl.]:

Ég drap á síðast, að hv. flm. brtt., er hafa sniðið brtt. eftir ákvæðum um styrk til frystihúsa, gengju lengra en þörf er á. Ég sagði þá, að mér virtist felast tortryggni í brtt. Má vera, að þetta hafi verið orsök þess, hve fast hv. 1. þm. Skagf. tók á orðum mínum. Ég er þess viss, að það skiptir ekki máli um framlag ríkissjóðs, hvort 1. gr. verður orðuð eins og í brtt. eða frv. Mér er kunnugt um, að hagur mjólkurbúanna er þannig, að allt veltur á því fyrir þeim, að þau fái þessa hjálp. Hv. 1. þm. Eyf. hefir lýst hag þess mjólkurbúsins, sem ég þekki sízt til, búsins á Akureyri, og staðfesti sú lýsing fullkomlega skoðun mína. Að því leyti kemur í sama stað niður, þótt brtt. verði samþ. En þar sem brtt. um styrk til frystihúsa hefir verið höfð til fyrirmyndar, hefði ég talið betra, að þeir hefðu gengizt inn á samkomulag um að orða þessa brtt. alveg á sama hátt eins og verður, ef orðin „ef rannsókn ...“ og til enda eru felld niður. Ég mun því bera fram skrifl. brtt. þessa efnis. En þótt sú till. verði samþ., er auðvitað alls ekki meiningin, að stjórnin láti ekki fara fram rannsókn áður en hún veitir styrkinn. Álít ég, að það felist m. a. í orðalaginu, „allt a𠼓, sem sýnir, að stjórnin er ekki bundin við vissa upphæð. Ég vona því, að allar deilur um þetta atriði geti fallið niður og get því látið ýmsu ósvarað í ræðu hv. 1. þm. Skagf.

Það hefir verið sagt, að þetta gæti gefið fordæmi um að greiða til mjólkurbúanna helming í staðinn fyrir einn fjórða stofnkostnaðar. Ég hefi bent á, að í fjárlfrv. er ákveðinn ¼, og ætti það að vera nægileg hending um, að svo skuli vera framvegis. Þessi viðbótarstyrkur er eingöngu veittur vegna kreppunnar. Stofnkostnaður hefir stundum farið allt að helmingi fram úr áætlun. En til þess að taka af skarið vil ég bera fram skrifl. brtt. um að skjóta inn í brtt. þeirra hv. þm. N.-Þ., hv. 1. þm. Skagf. og hv. þm. V.-Húnv. aths. um, að styrkurinn sé veittur vegna yfirstandandi kreppu. Mundi 1. gr. þá verða á þessa leið:

„Ríkisstjórninni heimilast að greiða úr ríkissjóði, vegna yfirstandandi kreppu, viðbótarstyrk til mjólkurbúanna í Eyjafirði, Borgarfirði, Árnessýslu og Reykjavík, er nemi allt að ¼ af stofnkostnaði þeirra hvers fyrir sig“.

Hér hefir þá verið gengið á móts við flm. brtt. og aðra, sem óttast, að hér sé verið að gefa fordæmi um hærri styrk en áður. Þetta er svo góður grundvöllur til sátta, að allar frekari deilur ættu að geta fallið niður.

Hv. þm. N.-Ísf. talaði almennt um, hvernig taka bæri af Alþingis hálfu slíkum óskum um stuðning, og skildist mér á honum, að hann vildi ekki ljá þeim liðsyrði. Hann sagði m. a., að hér væri verið að ganga inn á þá braut, að halda uppi atvinnuvegi, sem ekki gæti borið sig af sjálfsdáðum. Það, sem nú er gert vegna landbúnaðarins, bendir alls ekki til þess, að hið opinbera eigi að standa undir landbúnaðinum í framtíðinni, heldur á það aðeins að stuðla að því, að þessi atvinnuvegur geti fleytt sér yfir örðugleika kreppunnar. Verðfall á landbúnaðarafurðum síðustu árin nemur 70%, svo að ekki er furða, þótt einhversstaðar sjái á. Því er allt tal um óeðlilega hjálp frá öðrum atvinnuvegum alveg út í bláinn og verður ekki rakið til þeirra ráðstafana, sem nú hafa verið gerðar. Ég býst ekki við, að hægt sé í fljótu bragði að benda á þann atvinnurekstur við sjóinn, sem tekið gæti við fólkinu úr sveitunum.

Hv. þm. N.-Ísf. talaði um, að ráðstafanir væru gerðar til að halda uppi dýrtíð í landinu. Býst ég við, að hann hafi þar átt við till., sem fram hafa komið í þá átt að tryggja landbúnaðinum markað fyrir vörur sínar í landinu sjálfu. Þingið hefir hingað til ekki tekið svo vel í slíkar till. sem ég hefði óskað. Þetta mál hefir tvær hliðar, og þetta er aðeins önnur hliðin og sú, er minna máli skiptir. Hún er sú, að á þennan hátt verður tvennt gert í senn, efld íslenzk framleiðsla og dregið úr atvinnuleysinu. Með því að tryggja innlendri framleiðslu innlendan markað er stigið stórt spor í þá átt að útrýma þessum vágesti, atvinnuleysinu. Allar þjóðir hafa meira og minna gripið til þeirra ráða að hindra innflutning á þeim vörum, sem framleiddar eru í landinu sjálfu, annaðhvort með tollum eða innflutningshöftum, og það jafnvel ákveðin fríverzlunarþjóð eins og Englendingar.

Það var fullkomin mótsögn hjá hv. þm., að jafnframt því sem hann var að átelja ráðstafanir til að hækka verðlagið, benti hann á leið til þess, með því að minnka framleiðsluna. Það yrði auðvitað til þess að hækka vöruverðið, því að sennilega ætlar hv. þm. sér ekki að láta allar dyr standa opnar til að slá niður þá litlu framleiðslu, er hann vill láta vera eftir í landinu.

Það, sem hv. þm. N.-Ísf. sagði um mjólkurverðið, var alveg á misskilningi byggt. Framleiðendur mjólkur, sem smjör og ostar er unnið úr, fá um 12—14 aur. fyrir pottinn. Fyrir austan fjall fá framleiðendur 16—18 aur. Kringum Rvík er verðið nokkru hærra, en þó nokkuð misjafnt. Mun það þegar bezt lætur vera 22 aurar.

Hv. þm. sagði, að verðfallið í Bandaríkjunum væri 45%, miðað við verðlag fyrir stríð. Gærur og ull hafa fallið meira en þetta hjá okkur, og kjötið líka. Bændur fengu í haust ekki nema 20 aur. fyrir 2 kg., og jafnvel aðeins 12¼ eyri. Svo var þetta í Rvík, og hafa þó bændur úti um land orðið harðar úti. Fyrir fyrstu sendinguna af frystu kjöti til Englands fengust ekki nema 20 aur. fyrir ½ kg., og var þá eftir að draga frá kostnað innanlands. Kjötið hefir fallið um 65% og mjólkin eftir upplýsingum hv. þm. G.-K. um 70% síðustu þrjú árin.

Mér þótti vænt um, að hv. þm. N.-Ísf. talaði um nýbreytni í búnaðarháttum, að gera framleiðsluna fjölbreyttari og að laga sig meira eftir innlendum sölumöguleikum, t. d. með því að auka nautgriparækt, einkum þar sem léleg eru beitilönd, og auka framleiðslu á eggjum og grænmeti og efla alifuglarækt. Þetta hefir oft verið brýnt fyrir mönnum hér í deildinni og verið farið fram á stuðning við þessi þjóðfélagslegu nauðsynjamál, með því að tryggja þessum framleiðsluvörum innlendan markað, en ég verð að segja, að hv. þm. N.-Ísf. hefir ekki alltaf verið þeim megin í þeim málum, sem betur gegndi.

Þetta vinnst upp og meira til, þegar litið er á þjóðfélagsheildina, því með því er dregið úr því þjóðarböli, sem atvinnuleysið er orðið. Það leiðir af sjálfu sér, að þeir skattar og tollar, sem lagðir eru á hvern einasta mann og hvert einasta atvinnufyrirtæki í landinu, til þess að mæta þeim útgjöldum, sem hið opinbera hefir orðið að taka á sig vegna atvinnuleysisins, hljóta að verða yfirfærðir á vöruverðið í landinu. Það er engin leið til að skaffa fé til að bera þær byrðar, sem af atvinnuleysinu stafa, án þess að það komi niður á vöruverðinu. Eins og nú standa sakir, á því atvinnuleysið stærstan þátt í að viðhalda dýrtíðinni í landinu. Þess vegna er líka stuðningur til handa atvinnuvegunum og ráðstafanir til þess að landsmenn geti sjálfir notið sem bezt innanlandsmarkaðarins stærsti þátturinn í því að sporna á móti hækkandi vöruverði. Samkv. skýrslum, sem ég hefi fengið, hefir verið greitt hér í Rvík á síðasta ári um 600 þús. kr. í atvinnuleysisstyrki og til atvinnubótavinnu. Í þeirri upphæð felst einhver ofurlítill stuðningur við matgjafir, sem hér hafa farið fram, en þær eru líka vegna atvinnuleysis. Aftur er alls ekki talið þarna með neitt af þeim geysilegu upphæðum, sem greiddar hafa verið hér í fátækrastyrki, og stafar þó allmikill hluti þeirra af atvinnuleysinu. Það á eflaust verulegan þátt í dýrtíðinni hér í Rvík, að jafna verður þessum geysilega kostnaði niður á íbúa bæjarins og atvinnufyrirtæki þau, sem hér starfa.

Svona er þetta mál, þegar á það er lítið frá almennu sjónarmiði. Því er rangt, þegar talað er um stuðning við atvinnuvegina, að dæma út frá því einu, að hann hamli á móti innflutningi og hækki vöruverðið í landinu. Því aðeins getur fallið réttur dómur um þessa hluti, að einnig séu teknar með í reikninginn þær miklu byrðar, sem leiðir af atvinnuleysinu og hvernig þær verka á vöruverðið.

Ég ætla svo ekki að fara um þetta fleiri orðum, en endurtek það, að í þessu máli ættum við að geta mætzt á þeim grundvelli, sem ég hefi bent á, og afhendi ég nú forseta brtt. mína.