15.05.1933
Neðri deild: 74. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2512 í B-deild Alþingistíðinda. (4073)

191. mál, mjólkurbúastyrk og fl.

Jónas Þorbergsson:

Ég ætla aðeins að minnast ofurlítið á þær brtt., sem hér liggja fyrir.

Ég vil ekki álíta, að hv. flm. brtt. á þskj. 676 hafi borið hana fram í þeim ákveðna tilgangi, að við niðurstöðu málsins yrði eitt af mjólkurbúum landsins undanskilið. Enda hefir hv. flm. í grg. fyrir till. lýst þeim tilgangi hennar, að koma í veg fyrir, að fordæmi skapist, og að færa frv. til samræmis við aðrar ráðstafanir hliðstæðar, t. d. styrk til frystihúsanna. Hinsvegar má telja víst, að niðurstaðan af þeirri athugun, sem brtt. gerir ráð fyrir, verði sú, sem hv. 1. þm. Eyf. drap á, nefnilega, að mjólkursamlag Eyfirðinga yrði undanskilið þeim viðbótarstyrk, sem hér er um að ræða, því það mundi sennilega ekki verða talið hans þurfandi. En ég verð að segja það, af því að ég er nokkuð kunnugur samvinnumálum Eyfirðinga, að ég teldi þá niðurstöðu í hæsta lagi ómaklega. Eyjafjörður er eitt af elztu og merkustu samvinnuhéruðum landsins. Samvinnufélagsskapurinn þar hefir verið svo heppinn að njóta hinnar ágætustu forustu og góðra starfskrafta. Honum hefir verið stjórnað af ráðdeild og dugnaði. Sjálfir eru Eyfirðingar dugnaðarmenn og gætnir í fjármálum sínum. Eitt af því, sem telja má, að þeir hafi haft forgöngu i, er einmitt stofnun mjólkurbúa hér á landi. Kaupfélag Eyfirðinga hóf fyrst undirbúning í þessa átt og stofnaði fyrsta nýtízku mjólkurbú hér á landi. Og óhætt má staðhæfa, að Mjólkurbúi Eyfirðinga hafi frá öndverðu verið stjórnað af miklum dugnaði og hagsýni. Þess vegna yrði niðurstaðan e. t. v. sú, ef rannsakaður væri hagur mjólkurbúanna, að hagur þessa mjólkurbús yrði álitinn það betri en hinna, að ekki væri ástæða til að láta það njóta þess stuðnings, sem frv. ræðir um. Í reyndinni kæmi þetta þá þannig fram, að Eyfirðingar, einhverjir fremstu og beztu samvinnumenn landsins, yrðu á þennan hátt að gjalda dugnaðar síns og forustu sinnar á þessu sviði. Það tel ég alls ekki maklegt og get ekki veitt neinn stuðning til slíks.

Það hefir verið vikið að því í þessum umr., að mjólkursamlag Eyfirðinga stæði betur að vígi heldur en önnur mjólkurbú á landinu. Ég hefi nú í þeim fáu orðum, sem ég hefi sagt hér, bent á, í hverju það er fólgið, ef það stendur betur að vígi. En á annað hefir ekki verið bent, sem einnig getur komið til greina í þessu máli, og það er, að Eyfirðingar hafa um sumt lakari aðstöðu til þess að reka mjólkurbú heldur en héruðin á Suðurlandi. Í Eyjafirði hagar svo til, að þar getur gert svo mikil snjóalög, að þau hindri að miklu leyti alla flutninga og þar með starfsemi mjólkurbúsins mikinn hluta af árinu. Þann aðstöðumun finnst mér einnig ástæða til að taka til greina við afgreiðslu þessa máls.

Ég hefi hugsað mér við atkvgr. að fylgja frv. óbreyttu, en greiða atkv. á móti brtt., því ég tel, að þær geti leitt til þeirrar niðurstöðu, sem ég hefi drepið hér á og ég teldi í hæsta lagi óréttmæta.