15.05.1933
Neðri deild: 74. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2520 í B-deild Alþingistíðinda. (4077)

191. mál, mjólkurbúastyrk og fl.

Björn Kristjánsson:

Það er nú eins og síðast, er ég talaði í þessu máli, að tveir hv. þm., báðir meðflm. mínir að brtt. á þskj. 676, hv. þm. V.-Húnv. og hv. 1. þm. Skagf., hafa tekið af mér ómakið, svo að ég var ráðinn í því að falla frá orðinu, hefði ég ekki fengið tilefni í ræðu síðasta ræðumanns, hv. þm. N.-Ísf., til þess að segja nokkur orð, aðallega út af einu atriði. Hv. þm. var að vefengja það, að verðfall á landbúnaðarafurðum væri eins mikið og af væri látið. Ég er vel kunnugur verðlagi á landbúnaðarafurðum eins og það var fyrir stríð og hefir verið síðan, og ég get fullyrt það, að verðið er orðið talsvert lægra en fyrir stríð. Ég get því undirstrikað það, sem hv. þm. V.-Húnv., hv. þm. Borgf. og hv. l. þm. Skagf. hafa sagt um verðfallið. Og sé eingöngu talað um verð á útfluttum landbúnaðarafurðum, þá er enginn vafi á, að það er miklu lægra nú en fyrir stríð. Ég skal nefna t. d. verð á kjöti. Ég held, að ég muni það rétt, að árið 1913 var verð á fyrsta flokks kjöti í Þingeyjarsýslu 70 til 75 aur. kg. Kjötverð á sama stað á síðasta hausti er að vísu ekki alveg fastákveðið enn, vegna þess að sölu kjötsins er ekki alveg lokið, en það er víst, að verðið verður aldrei hærra en 50 aur. kg. af bezta kjöti. Það sjá því allir, að hér er um stórfellda lækkun að ræða. Ullin var seld rétt fyrir stríð á kr. 1,50—2,00 kg. Ullin frá síðasta sumri er nú að vísu ekki seld nema að nokkru leyti, en eftir því sem selzt hefir, eru það beztu vonir, að hægt verði að reikna norðlenzka ull no. 1 á kr. 1,20 kg. Hér er því líka um mikið verðfall að ræða.

En auk þess sem verðið á útfluttum landbúnaðarafurðum er miklu lægra að krónutölu nú en fyrir stríð, þá hefir krónan síðan lækkað stórlega að verðgildi, þannig að kaupmáttur hverrar krónu, sem fæst fyrir útfluttar vörur, hefir mikið minnkað. Það er því ekki aðeins, að verðfallið sé það, sem tölurnar sýna, heldur miklu meira.

Þá ætla ég, úr því að ég stóð á fætur, að svara nokkrum atriðum í ræðu hv. 1. þm. Eyf. Hv. þm. spurði um það, hvað við flm. brtt. á þskj. 676 meintum með heilbrigðum grundvelli. Við tókum þetta orðalag upp úr samskonar till., sem samþ. hefir verið í sambandi við kreppulánasjóð. Þar er talað um að hjálpa bændum til að reka bú sín á heilbrigðum grundvelli. Við meintum með þessu að létta það mikið á stofnkostnaði á búum þessum, að vextir og afborganir af skuldum þeirra legðust ekki allt of mikið á mjólkina, sem þar er unnin, svo að það yrði óbærilegt fyrir framleiðendur.

Hv. þm. var að tala um, að við vildum ekki veita þessum fyrirtækjum, mjólkurbúi Eyfirðinga og öðrum, viðurkenningu fyrir það að ríða á vaðið með að stofna fyrirmyndar mjólkurbú. Ég vil algerlega mæla á móti þessu. Fyrst og fremst eru þessi bú búin að fá viðurkenningu, þar sem þau hafa fengið ¼ af sínum stofnkostnaði áður samkv. eldri lagaákvæðum. Og með því að við leggjum ekki á móti því, að þeim búum verði veittur styrkur á ný, þó við viljum ekki fastákveða í lögunum, hve mikill hann skuli vera, þá sýnum við með því, að við viljum gjarnan, að þau njóti þessarar viðurkenningar.

Hv. þm. V.-Húnv. hefir sýnt fram á það með skýrum rökum, að þó stofnkostnaður mjólkurbúa sé mikill, þá er hann engu síður mikill á frystihúsunum. Eins get ég tekið undir það með hv. þm., að ef fengin hefði verið sú reynsla, sem upphaflega vantaði, þá hefði frystihúsabyggingum verið hagað öðruvísi, og vafalaust miklu fullkomnara. A. m. k. er það svo með það frystihús, sem ég þekki bezt, á Kópaskeri.

Þá var hv. 1. þm. Eyf. að tala um einhverjar miður heiðarlegar hvatir, sem lægju á bak við till. okkar flm. brtt. (BSt: Ekki nefndi ég það). Það mátti skilja það svo. En eins og hv. 1. þm. Skagf. tók greinilega fram, þá var það aðalatriðið hjá okkur, að þessi ákvæði verði ekki skoðuð framvegis sem fordæmi til þess að veita öðrum búum, sem kynnu að verða stofnuð, rétt til að fá helming styrks. Það er enginn vafi á því, hvað sem um það er sagt við þessar umr., að ef frv.gr. stendur óbreytt, þá muni þau bú, sem stofnuð verða síðar, fara fram á, og það með miklum rétti, að fá samskonar stuðning. Þetta er það, sem við viljum fyrirbyggja með brtt. okkar, og þess vegna leggjum við áherzlu á, að styrkurinn verði heimilaður, en ekki fastákveðinn í lögunum. En þetta er ekki af öfund til neins sérstaks félags, eins og mér skildist hv. þm. gefa í skyn. Má vera, að hann dragi það af ummælum mínum við 1. umr., þegar ég talaði um, að ekki væri þörf á að styrkja mjólkursamlag Eyfirðinga. Það var ekki af öfund til Eyfirðinga, heldur af hinu, að ég var því búi kunnugastur og vissi fyrir víst, að ástæður þess voru ólíkt betri en t. d. hjá Mjólkurbúi Flóamanna. Ég nefndi þessi bú aðeins til að sýna fram á, að ekki væri sama þörfin hjá öllum; og væri því réttara að hafa þetta í heimildarformi. Þetta sannast líka bezt á því, að ég nefndi annað bú, Mjólkurbú Rvíkur, í sömu andránni og á undan til þess að sýna, að það bú væri líka betur sett en Mjólkurbú Flóamanna.

Hv. þm. Dal. var að tala um það, að Eyfirðingar hefðu gefið mjög gott fordæmi með því að koma þar fyrst upp fyrirmyndarbúi með fullkomnum vélum. Forstaða þess félags hefir verið alveg sérstaklega góð, og Eyfirðingar eiga mikinn heiður skilinn fyrir sinn dugnað og samheldni í samvinnumálum. Ég vil alls ekki draga úr þessu, en hinsvegar get ég ekki fallizt á þá ályktun, sem hv. þm. dró út af þessu, að rétt væri með þessum mjólkurbúastyrk að veita Eyfirðingum viðurkenningu, því að því fylgir sá ókostur, að þá geta aðrir komið á eftir, sem miklu minni rétt eiga á slíkri viðurkenningu, og heimtað samskonar stuðning. Ég hygg því, að betra sé að sýna kaupfélagi Eyfirðinga viðurkenningu á einhvern annan hátt.

Ég vil benda á, að þau kaupfélög, sem fyrst hafa orðið til þess að koma upp frystihúsum, eins og t. d. á Hvammstanga, ættu þá líka rétt á að fá samskonar viðurkenningu, því það eru áreiðanlega ótaldar upphæðir, sem íslenzkir bændur hafa grætt á því, að hafizt var handa að byggja frystihús.

Annars vil ég segja það út af því, sem fram kom í ræðu hv. þm. Dal. um þá erfiðleika, sem bændur eiga við að stríða með að flytja mjólkina í bú sín, að ég tel sjálfsagt, að tekið verði tillit til þeirra að einhverju leyti, þegar stjórnin fer að ákveða styrk til hinna einstöku búa eftir þessum lögum. — En hvað viðvíkur till. hv. þm. Borgf. um að fella niður seinni hlutann af till. okkar, þá get ég, eftir að hafa heyrt ummæli hæstv. atvmrh. og hv. frsm. um skilning þeirra á fyrri hluta frvgr. eins og við tillögumenn leggjum til, að hann verði, tekið í sama streng og hv. 1. þm. Skagf. og lýst yfir því, að ég legg ekki mikið kapp á, að hann standi og mun ekki mæla því í gegn, þó ég hinsvegar teldi réttast, að till. okkar yrði samþ. óbreytt.